Hoppa yfir valmynd
1. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag við Bretland um reikigjöld á fjarskiptaþjónustu

Samkomulag við Bretland um reikigjöld á fjarskiptaþjónustu - myndPexels/Andrea Piacquadio

Samkomulag Íslands og Bretlands um hámarks heildsöluverð alþjóðlegrar reikiþjónustu tekur gildi í dag, 1. júní.

Um er að ræða ákvörðun þar sem kveðið er á um hver hámarksgjöld, sem veitandi almennrar fjarskiptaþjónustu í öðru ríkinu getur lagt á veitanda almennrar fjarskiptaþjónustu í hinu ríkinu fyrir reikiþjónustu í heildsölu. Ákvörðunin fjallar því um hámarks heildsölugjöld á milli veitenda alþjóðlegrar reikiþjónustu en ekki endanleg gjöld til notenda. Engu að síður er það markmið ákvörðunarinnar að gagnkvæmt hámark á verðlagningu fjarskiptafyrirtækja muni skila sér í betri kjörum til neytenda. Ákvörðunin kveður á um hámarksverð fyrir símtöl, smáskilaboð og gagnamagn.

Fríverslunarsamningur Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland kom til framkvæmda 1. september 2022. Samningurinn gerir ráð fyrir að aðilar hans geti komið sér saman um hámark reikigjalda í heildsölu. Sameiginlega nefndin, sem fer með framkvæmd samningsins, staðfesti á síðasta ári ákvörðun sem tryggir að þak verði sett á reikigjöld þegar ferðast er á milli ríkjanna. Ákvörðunin hefur nú verið staðfest í öllum aðildarríkjum samningsins og tekur gildi í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt ákvæði er hluti af fríverslunarsamningi svo vitað sé.

Frá því að Bretland gekk úr Evrópusambandinu í byrjun árs 2021 hafa stjórnvöld unnið markvist að því að styrkja tengsl Íslands og Bretlands. Í því sambandi hafa m.a. verið gerðir samningar um viðskipti, tímabundna vinnudvöl ungmenna, menntun, rannsóknir og nýsköpun, loftferðir og sjávarútvegsmál. Yfirstandandi eru samningaviðræður við Bretland um almannatryggingar en vonast er til að þeim viðræðum ljúki í sumar.

Nánari upplýsingar um fríverslunarsamninginn og aðra samninga við Bretland má finna á vefsíðunni um útgöngu Bretlands úr ESB.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum