Hoppa yfir valmynd

Táknmálsgrein

Velferðarráðherra ber ábyrgð á opinberri stefnumótun í málefnum fatlaðra sem skal gerð í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samráð skal haft við heildarsamtök fatlaðs fólks og aðildarfélög þeirra.

Markmið laga um málefni fatlaðs fólks er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks.

Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar og kostnaði vegna hennar. Þau annast innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar. Fatlaður einstaklingur á rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa. Sveitarfélag þar sem viðkomandi á lögheimili tekur ákvarðanir um þjónustu við hann. Ef sveitarfélagið er hluti af stærra þjónustusvæði getur það falið öðru sveitarfélagi innan þess eða sérstökum lögaðila að taka slíka ákvörðun fyrir sína hönd.

Landinu skal skipt upp í þjónustusvæði, fámennari sveitarfélög skulu hafa samvinnu við önnur um skipulag og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk.

Fatlað fólk skal eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks.

Ráðherra skipar fötluðu fólki trúnaðarmenn að fengnum tillögum heildarsamtaka fatlaðs fólks. Trúnaðarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu af málefnum fatlaðs fólks. Telji fatlaður einstaklingur að réttur hans sé fyrir borð borinn getur hann tilkynnt það trúnaðarmanni sem skal veita honum nauðsynlegan stuðning og kanna málið tafarlaust. Að könnun lokinni veitir trúnaðarmaður aðstoð við að kæra málið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þegar það á við og metur í samráði við einstaklinginn hvort hann tilkynnir um málið til velferðarráðuneytisins.

Fötluðu fólki er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum