Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. febrúar 1996 Innviðaráðuneytið

Ísland og upplýsingasamfélagið

Inngangsorð

eftir Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra

Við megum engan tíma missa

Árið 2001 verða 500 milljónir manna í heiminum áskrifendur að einhvers konar þráðlausri þjónustu! Árið 2005 kostar klukkustundar símtal milli landa um þrjár krónur! Árið 2020 verður venjuleg einmenningstölva jafn öflug og allar tölvur í Sílíkondal í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum eru nú. Þetta er m.a. það sem má lesa í virtum alþjóðaritum um þróun upplýsingaþjóðfélagsins. Hvernig ætlum við Íslendingar að búa okkur undir þær miklu breytingar sem eru í vændum og eru hluti af upplýsingabyltingunni?

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur ákveðið að leggja aukna áherslu á upplýsingamálin og mótun stefnu um upplýsingaþjóðfélagið á næstu árum. Í samræmi við það fól ég Ráðgjafarnefnd um upplýsinga- og tölvumál, sem starfar á vegum fjármálaráðuneytisins, að móta stefnu um upplýsingamál fyrir ríkisreksturinn. Álit nefndarinnar er að finna í þessu riti.

Ég tel að skoða þurfi sérstaklega þrjú verkefni í upplýsingamálum á næstunni:

Menntun og þjálfun er lykillinn að upplýsingabyltingunni

Engum vafa er undirorpið að menntun og þjálfun í nýrri tækni gegna afar mikilvægu hlutverki í uppbyggingu upplýsingaþjóðfélagsins. Huga þarf bæði að fullorðinsfræðslu og fræðslu á fyrstu skólaárunum. Tileinki börn og unglingar sér nýjungar í upplýsingatækninni veitir það þeim dýrmætt forskot og verður þeim gott vegarnesti þegar þau komast á fullorðinsár. Menntamálaráðherra hefur sett þetta verkefni á oddinn með ítarlegri stefnumótun um upplýsingaþjóðfélagið og menntamál.

Forysta og framtíðarsýn er mikilvæg

Samvinna frumkvöðla í upplýsingamálum, samtaka atvinnulífs, skóla og ríkis er afar mikilvæg til að auka skilning á þeirri nýju hugsun sem er samfara upplýsingabyltingunni. Nefnd sú, sem starfar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðherra samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar, mun huga sérstaklega að því hvernig megi virkja ólíka hópa í þeirri stefnumótun sem framundan er.

Samkeppni skilar okkur lengra

Samkeppni í fjarskiptum, hugbúnaðariðnaði og skólastarfi, svo eitthvað sé nefnt, stuðlar að örari þróun og nýsköpun í upplýsingaþjóðfélaginu. Því er mjög þýðingarmikið að ríkið liðki fyrir samkeppni og stjórnmálamenn hafi forystu um þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að samkeppni verði við komið. Á þessu kjörtímabili verður lögð áhersla á að örva samkeppni og þar má upplýsingasviðið ekki verða útundan.

Stefnan í upplýsingamálum í ríkisrekstrinum snertir öll þessi svið. Við þurfum að leggja áherslu á viðeigandi menntun starfsfólks ríkisstofnana og öfluga þátttöku í samstarfi um þessi mál. Þá verður ríkið að gefa gott fordæmi og stuðla að samkeppni með því t.d. að kaupa hugbúnað á samkeppnismarkaði og standa ekki í rekstri þar sem samkeppni einkaaðila er næg.

Ég ætla ekki að spá um þróun upplýsingaþjóðfélagsins eins og gert er í upphafi þessara inngangsorða. Ljóst er þó að nýting upplýsingatækni í ríkisrekstrinum leiðir til hagræðingar og betri rekstrar og er þýðingarmikill þáttur í stefnunni um nýskipan í ríkisrekstri. Unnið verður að því að móta skýra stefnu í þessum efnum og koma henni fram. Við megum engan tíma missa. Brýnt er að halda áfram af enn meiri þunga en áður. Þessu riti RUT- nefndar er ætlað að hvetja menn til dáða og varða veginn inn í upplýsingaþjóðfélagið.

Reykjavík í desember 1995

Friðrik Sophusson

1. Upplýsingastefna -- íslensk framtíðarsýn

Valið stendur ekki um það hvort við Íslendingar göngum inn í upplýsingasamfélagið eða ekki. Þar verða allir. Álitamálið er hvernig við verðum undir það búin. Látum við okkur nægja að tína upp molana sem falla af borðum stórþjóðanna, eða göngum við þar inn á okkar eigin forsendum?

Með því að skilgreina markmið og gera áætlun um hvernig þeim skuli náð mun þjóðin betur njóta ávaxta hins nýja samfélags en ella. Þá meginstefnu og framtíðarsýn sem þjóðin þarf að sameinast um má setja fram sem hér segir:

Stefnt skal að því að Íslendingar verði í fremstu röð þjóða í þróun upplýsingasamfélagsins, bæði sem veitendur og neytendur.

Í þessu felst að kostir upplýsingatækni verði að fullu nýttir til að efla lífshagi þjóðarinnar, atvinnuvegi, stjórnsýslu, menningu og einkalíf.

Markaðsöflin hafa verið drifkrafturinn að baki upplýsingatækninni frá upphafi og svo mun enn verða. Til þess að greiða fyrir framgangi sameiginlegrar íslenskrar stefnu, og ekki síst til að tryggja árangur þeirra endurbóta í stjórnsýslu sem upplýsingabyltingin getur haft í för með sér, er samt þörf fyrir frumkvæði hins opinbera á tilteknum sviðum.
Hér á eftir eru sett markmið í sjö liðum, þar sem frumkvæði eða að minnsta kosti tilhlutan stjórnvalda getur skipt sköpum um það hvort meginstefnan verður annað en orðin tóm.

Sjö markmið

  1. Upplýsingatækni verði beitt til að opna ríkiskerfið, draga úr kostnaði og bæta þjónustu þess við landsmenn.
  2. Allir Íslendingar hafi tækifæri til að afla sér þekkingar og nýta sér þá fjölbreyttu þjónustu sem upplýsingasamfélagið hefur að bjóða.
  3. Upplýsingatækni verði beitt til að auka framleiðni og bæta samkeppnisstöðu hvarvetna í atvinnulífinu. Iðnaður byggður á upplýsingatækni verði ein af undirstöðum atvinnulífsins.
  4. Menntun í upplýsingatækni verði efld á öllum skólastigum. Ávallt verði fyrir hendi sérþekking á háu stigi á þeim sviðum sem mesta þýðingu hafa.
  5. Upplýsinganet á Íslandi verði í öllu tilliti samkeppnishæf og þess megnug að veita þjónustu í hæsta gæðaflokki.
  6. Kostir upplýsingatækninnar verði nýttir til að gera sambúðina við landið og náttúru þess öruggari.
  7. Staða íslenskrar menningar og tungu í upplýsingasamfélaginu verði tryggð og styrkt.

Hvert þessara málefna um sig gefur tilefni til fyllri umfjöllunar en komið verður við á þessum vettvangi. Í köflunum hér á eftir verður drepið á þróun og stöðu upplýsingatækninnar í íslensku samfélagi, tækifæri sem við blasa og nauðsynlegar aðgerðir til að ná settum markmiðum.

Samkeppnishæfni og sóknarfæri

Sóknarfæri á vettvangi upplýsingasamfélagsins felast meðal annars í nýjum atvinnu- og markaðstækifærum, þar á meðal útflutningi hugvits. Ennfremur í hagræðingu, þar sem tæknin er notuð til að einfalda vinnuferli, draga úr margverknaði og handavinnu og stytta samskiptaleiðir. Einstaklingarnir eiga einnig sín sóknarfæri, fjölbreyttari leiðir að menntun og menningu, afþreyingu og betra samfélagi í margvíslegu tilliti. Þá gefast augljós tækifæri til að draga úr einangrun dreifðra byggðarlaga.

2. Upplýsingabylting

Á grundvelli stórfenglegra framfara í upplýsinga- og fjarskiptatækni, sem síður en svo sér fyrir endann á, er ný iðnbylting - upplýsingabylting- í aðsigi. Hún er talin verða að minnsta kosti sambærileg fyrri iðnbyltingum hvað varðar áhrif á efnahag, menningu og daglegt líf. Hún er einnig kölluð þekkingarbylting því að meðal afleiðinga hennar eru áður óþekktir möguleikar á því að gera þekkingu mannkynsins að sameiginlegum nægtabrunni handa hverjum sem í hana kann að þyrsta.

Aðdragandi

Forboða þess sem er að gerast mátti ef til vill greina þegar árið 1969 þegar milljónir sjónvarpsáhorfenda hvarvetna um heim fylgdust með því í beinni útsendingu þegar maður steig fyrst fæti á tunglið. Hiklaust má fullyrða að upplýsingatæknin hafi hlotið löggildingu í heimi alþjóðastjórnmálanna fljótlega eftir að þeir Clinton Bandaríkjaforseti og Gore varaforseti tóku að kynna hugmyndir sínar um að endurskapa ríkiskerfið með hjálp hennar árið 1992.[1] Aðrar þjóðir fylgdu fast á eftir. Áætlanir tóku að birtast, ein af annarri, um það hvernig taka beri á móti upplýsingabyltingunni svo að allir fái notið hennar og jafnframt að viðkomandi þjóð eignist hlut í efnahagslegum gæðum hennar.[2] Eðliseigindir byltingarinnar, afleiðingar og ráðstafanir til undirbúnings hafa verið greindar í sífellt smærri atriðum, enda er nú svo komið að flestir sem um þetta efni rita eða tala eru sammála um öll megineinkenni.

Enda þótt hörð samkeppni sé milli stórþjóðanna um forystu og markaðshlutdeild er hitt einnig almennt viðurkennt að ekki nægir að endurskapa hvert ríki fyrir sig. Alþjóðleg samskipti eru að breytast á þann veg að hefðbundið form þeirra dugir ekki lengur. Landamæri í venjulegum skilningi þekkjast ekki á upplýsingahraðbrautunum.

Frumkvæði stórþjóða

Auk sjálfstæðra aðgerða margra Evrópuþjóða hefur Evrópusambandið einnig tekið afgerandi frumkvæði í stefnumótun og aðgerðum til að efla stöðu sambandsþjóðanna í hinu nýja samfélagi.[3] Aðgerðir eru hafnar til að styrkja stöðu evrópsks iðnaðar, meðal annars með því að flýta fyrir stöðlunarstarfi og draga úr viðskiptahindrunum, svo sem að hraða afnámi einkaleyfa til fjarskiptareksturs. Hugað er að hagsmunum fólks með sérþarfir og samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þá er ljóst að almennur vilji er fyrir því að tungumál lítilla samfélaga eigi ekki að verða því til hindrunar að borgarar þeirra njóti tækninnar til jafns við aðra.

Sjö stærstu iðnríki heimsins (oft nefnd G7 til styttingar) hafa mótað sameiginlega framtíðarsýn um upplýsingasamfélagið og sammælst um að hrinda í framkvæmd allmörgum tilraunaverkefnum til að sýna heiminum um hvað málið snýst, ef svo má segja. Eftirfarandi tilvitnun í sameiginlega stefnuyfirlýsingu þeirra frá því í febrúar 1995 er afdráttarlaus:

"Framfarir á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni eru að breyta lifnaðarháttum okkar; hvernig við vinnum og eigum viðskipti, hvernig við menntum börnin okkar, lærum, stundum rannsóknir, þjálfum okkur í starfi og hvernig við skemmtum okkur. Upplýsingaþjóðfélagið hefur ekki aðeins áhrif á samskipti manna í milli heldur hefur það í för með sér að allt hefðbundið skipulag þarf að breytast, verða sveigjanlegra, opnara fyrir almennri þátttöku og dreifðara.

Ný bylting er að fleyta mannkyninu fram á upplýsingaöld.

Eitt mikilvægasta verkefnið sem við blasir á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar er að tryggja að upplýsingaþjóðfélagið verði til með sem átakaminnstum og skilvirkustum hætti. Niðurstaða þessarar ráðstefnu sýnir að G7-ríkin hafa skuldbundið sig til þess að gegna forystuhlutverki í þróun upplýsingasamfélagsins í heiminum.
Þær aðgerðir sem við ráðumst í þurfa að stuðla að því að allar þjóðir heims taki höndum saman. Löndum, sem eru á breytingaskeiði, og þróunarlöndum verður að veita tækifæri til þess að taka fullan þátt í þessu ferli, þar sem það mun gera þeim kleift að hlaupa yfir heilu stigin á tækniþróunarbrautinni og örva þjóðfélagslega og efnahagslega þróun sína.

Umbunin fyrir alla getur orðið ríkuleg. Ef vel á til að takast þurfa ríkisstjórnir að greiða fyrir einkaframtaki og fjárfestingu einkaaðila og tryggja tilurð viðeigandi stoðkerfis, sem miðar að því að örva fjárfestingu einkaaðila og þátttöku almennings, öllum til hagsbóta. Þær ættu jafnframt að skapa hagstætt alþjóðlegt umhverfi með því að starfa saman innan þeirra alþjóðastofnana sem þessi mál varða. "

Breytt umhverfi

Framfarir í upplýsinga- og fjarskiptatækni hafa verið nefndar hér að ofan sem orsök og hvati byltingarinnar. Megineinkenni hennar eru hins vegar önnur. Þau felast framar öðru í breytingum á samskiptamáta fólks og samfélaga og nýjum vinnuferlum ásamt gífurlegri aukningu á aðgengi að hvers konar upplýsingum. Nefna má nokkur dæmi:

  • Þáttur upplýsingatækni í iðnaði fer stækkandi og breytir atvinnumynstrinu. Dæmi: Störfum fækkar við flokkun á rækju en í staðinn þarf vinnuafl, reyndar öðruvísi vinnuafl, til að þróa og reka fiskvinnsluvélar, en mikilvægur hluti slíkra véla er nú hugbúnaður.
  • Hefðbundnar aðferðir í opinberri stjórnsýslu duga ekki lengur. Dæmi: Hugbúnaður er ekki fluttur milli landa á vörupöllum pakkaður í plast, heldur um ljósleiðara þar sem yfirvöld hafa engin tök á að koma við stimplum. Afrit þekkjast ekki frá frumritum. Svipað á við um ritverk, myndir og aðrar menningarafurðir á tölvutæku formi. Hvernig geta yfirvöld fylgst með skattskilum?
  • Fyrirtæki verða hreyfanlegri en áður hefur þekkst og geta flutt hluta rekstursins milli landa ef það þykir fýsilegt vegna aðstæðna á vinnumarkaði eða betri aðgangs að mörkuðum.
  • Aðgangur einstaklinga að upplýsingum landa á milli, til dæmis samanburður lífskjara, setur þrýsting á yfirvöld, stjórnmálamenn og stjórnendur fyrirtækja.

Tímabil upplýsingabyltingarinnar

Þótt talað sé um byltingu gerist að sjálfsögðu ekki allt í einu vetfangi. Í þróuninni fram til raunverulegs upplýsingasamfélags má greina fjögur tímabil eða bylgjur.[4] Við stöndum núna við upphaf þriðju bylgjunnar þar sem áhersla er lögð á stöðlun samskiptaleiða og samskiptahátta. Þetta er tímabil tengjanleikans og upplýsingahraðbrautanna, sem eru óhugsandi án víðtækrar stöðlunar. Á faldi þeirrar bylgju mun svo hefjast tímabil hins raunverulega upplýsingasamfélags þar sem áhersla verður lögð á efnisinnihald og þjónustu frekar en tækni.

Myndin sýnir tímabilin fjögur og helstu einkenni hvers um sig

Myndin sýnir tímabilin fjögur og helstu einkenni hvers um sig.

3. Þjónusta hins opinbera

Neyta ber allra tækifæra sem upplýsingasamfélagið býður upp á til að bæta þjónustu hins opinbera. Sjá má fyrir möguleika til gagngerrar breytingar á eðli og gæðum opinberrar stjórnsýslu í víðum skilningi og þjónustu við þegna upplýsingasamfélagsins. Stjórnsýslan öll þarf að vinna markvisst að því á næstu árum að nýta þessa möguleika.

Stefna ríkisstjórnarinnar

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 eru í fyrsta skipti á Íslandi tekin upp á vettvangi opinberrar stjórnmálaumræðu ákvæði er beinlínis varða beitingu upplýsinga- og fjarskiptatækni til að bæta stjórnsýsluna. Þar segir: Þjónusta ríkisins verði sniðin að nútíma tækni, t.d. með nettengingu þjónustustofnana og pappírslausum tollviðskiptum." Þær tillögur, sem hér eru settar fram eru í góðu samræmi við þetta, en ganga lengra.

Nýir möguleikar byggjast meðal annars á þéttara og afkastameira samskiptaneti, nýjum möguleikum til framsetningar, úrvinnslu, nýtingar og varðveislu gagna, nýrri skilgreiningu á því hvað séu tölvutæk gögn. Breyting á viðmiðun af því tagi sem hér er rætt um gefur tækifæri til að endurskilgreina stjórnsýsluna bæði hvað varðar þjónustu við almenning og innri skilvirkni. Allir landsmenn geta þá til dæmis átt jafnlanga leið að sækja opinbera þjónustu. Auk hefðbundinnar stjórnsýslu koma hér til áður óþekktir möguleikar í heilbrigðismálum, umhverfismálum, samgöngum og öryggismálum.

Samræmdar upplýsingar

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er einnig að finna eftirfarandi: Að setja reglur er tryggi aðgang borgaranna að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Dregið verði úr óþarfa skrifræði í samskiptum borgaranna við stjórnvöld og óþarfa laga- og reglugerðarákvæði verða afnumin." Og ennfremur: Tryggt verður að eftirlitsaðilar íþyngi fyrirtækjum ekki um of með starfsemi sinni."

Til að þessi markmið náist verður nauðsynlegt að samræma alla gagnaöflun vegna upplýsingavinnslu á vegum ríkisins og skipuleggja samnýtingu stofnana á þegar tiltækum tölvutækum gögnum, enda má með því móti komast hjá endurteknum fyrirspurnum, rannsóknum og margskráningu. Staðla þarf viðmót forrita og samskipti milli upplýsingakerfa til að tryggja fullnægjandi flæði upplýsinga milli þeirra. Sem fyrst þarf að hefja skipulegt samstarf ráðuneyta og stærstu ríkisstofnana um samræmingu, skilgreiningu og hönnun búnaðar sem til þessa er nauðsynlegur. Hér er í raun um að ræða upplýsingaveitu ríkisstofnana. Dæmi um þegar hafið verkefni þar sem unnið er samkvæmt þessum hugsunarhætti er Landskrá fasteigna.

Rafrænt kennikort einstaklinga, sem í væri skráð kennitala og aðrar helstu upplýsingar sem þörf er á í samskiptum þeirra við hið opinbera, er meðal nýjunga sem stuðlað gætu að almennri hagræðingu.

Öryggisráðstafanir

Öryggiskröfur eru afar misjafnar eftir eðli þeirra upplýsinga sem unnið er með hverju sinni. Um almenn upplýsingakerfi nægir oftast að þekkja deili á uppruna gagnanna. Öðru máli skiptir um viðskipti. Hvers konar skuldbindingu sem send er milli kerfa þarf til dæmis helst að fylgja örugg vitneskja um hvaðan hún var send, og eins þarf að vera unnt að sannreyna að réttur viðtakandi hafi tekið á móti henni. Í þriðja lagi má skeytið ekki breytast á leiðinni, og ennfremur þarf að koma í veg fyrir að óviðkomandi geti lesið skeytið og náð þannig í greiðslukortanúmer eða upplýsingar um einkaviðskipti. Að öruggri varðveislu grunnskráa ríkisins, sem kallaðar hafa verið landskerfi, þarf að huga sérstaklega. Kerfi hins opinbera þarf því að byggja á stöðlum sem tryggi fullnægjandi öryggi.[5]

Aðgangur fyrir alla

Gæta verður að því að allir þegnar landsins eigi kost á aðgangi að kerfum hins opinbera. Talið er að tölvur séu til á um 45% heimila,[6] en einungis fáar þeirra eru tengdar við fjarskiptakerfi. Um tíu þúsund íbúðir á Stór-Reykjavíkursvæðinu hafa nú þegar breiðbandstengingu, þ.e. fyrir samskiptahraða er nægir til að flytja t.d. sjónvarpsmyndir, en geta að vísu ekki mikið notað hana ennþá. Nettengdum tölvum og breiðbandstengingum inn á heimili mun fjölga ört á næstu árum. Ljóst er að gera þarf ráðstafanir á opinberum stöðum til að greiða almenningi leiðina að upplýsingaveitum og opinberum kerfum. Til þess eru þær leiðir helstar að ríkið komi upp fjarvinnslustöðvum á opinberum skrifstofum þar sem almenningur á leið um hvort sem er.

Benda má á almenningsbókasöfnin sem hentuga staði til þessa. Í þeim er hvort sem er brýnt að gera ráðstafanir til almenns aðgangs að upplýsingabrunnum af ýmsu tagi, til dæmis bókaskrám og alfræðisöfnum. Þau hljóta í framtíðinni að þróast yfir í upplýsingamiðstöðvar fyrir hvers konar margmiðlun auk síns hefðbundna hlutverks.

Sýslumannsembættin hafa tengingu við mörg stærstu kerfi ríkisins vegna innheimtu, þinglýsinga og annarra skylduverkefna. Þar er því auðvelt að koma upp vinnustöðvum fyrir almenning. Svipuðu máli gegnir um póstafgreiðslur og banka.

Skrifstofur sveitarfélaga koma að sjálfsögðu einnig til greina, enda ætti að takast samvinna með þeim og ríkinu um þetta verkefni.

Hið opinbera og hugbúnaðariðnaðurinn

Samtals er hið opinbera, ríki og sveitarfélög, langstærsti neytandi upplýsingatækni hér á landi. Svo hefur löngum verið, og má minna á stofnun þjóðskrár, gerð verslunarskýrslna og vinnslu rafmagnsreikninga í skýrsluvélum fyrir meira en 40 árum, löngu áður en orðið upplýsingatækni varð til.

Opinbera kerfið þarf á öflugum hugbúnaðariðnaði að halda eigi eitthvað af ofangreindu að komast í framkvæmd. Með samvinnu um ný frumleg kerfi og innlendar lausnir geta hið opinbera og hugbúnaðariðnaðurinn orðið hvort öðru að ómetanlegu liði. Á báða bóga þarf að sýna þá dirfsku að troða nýjar slóðir til að auka skilvirkni og bæta þjónustu við borgarana.

Lagagrundvöllur

Breytt samskiptamynstur vekja upp álitamál sem núgildandi löggjöf á ekki svör við. Hvað verður um höfundarrétt þegar afrit þekkjast ekki lengur frá frumriti? Hvernig verða rafrænar upplýsingar tollaðar og skattlagðar við innflutning? Hver er lagalegur grundvöllur fyrirtækja sem reka viðskipti um allan heim úr tölvu, ef til vill á fleka utan lögsögu nokkurs ríkis? Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að rafrænt skjal teljist löglegt í viðskiptum? Nauðsyn ber til að kanna þessar spurningar og aðrar svipaðar svo bregðast megi við áður en í óefni er komið.

4. Tækifæri fyrir alla

Upplýsingaþjóðfélagið á að leiða af sér jákvæðar breytingar fyrir alla, bæði fyrirtæki og einstaklinga. Öflun og miðlun upplýsinga og aðgangur að hvers kyns þjónustu þarf að vera mun greiðari en er í dag. Allir þurfa að hafa tækifæri og möguleika til að afla sér þekkingar í upplýsingaþjóðfélaginu. Allir þurfa að fá fræðslu um upplýsingasamfélagið. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum svo að markmið okkar um það náist.

Kynning og fræðsla

Á öðrum stað í riti þessu er fjallað um endurbætur í skólakerfinu er tryggi að unga kynslóðin komi út í atvinnulífið með viðhlítandi þekkingu fyrir upplýsingasamfélagið. Annað fyrirliggjandi verkefni er að endurmennta hinar fullorðnu kynslóðir í landinu.

Til þess að almenningur geti nýtt sér þá þjónustu og upplýsingar sem í boði verða þurfa allir að hafa lágmarksþekkingu á upplýsingatækni.

Þó að Íslendingar séu almennt móttækilegir fyrir tækninýjungum er hætt við að ýmsir þjóðfélagshópar verði utangátta og geti ekki nýtt sér tækifærin sem gefast í upplýsingasamfélaginu nema þeim verði gefinn sérstakur gaumur. Meðal slíkra eru heimavinnandi, aldraðir og atvinnulausir. Verulegt framboð hefur verið á námskeiðum fyrir almenning. Námsefni þarf að vera markvisst, en þarfir einstaklinga eru misjafnar. Kanna þarf hvort ekki verði nauðsynlegt að hið opinbera stuðli að framboði á ódýrum námskeiðum fyrir þann hluta þjóðarinnar sem ekki fær slíka fræðslu í fyrirtækjum eða stofnunum.

Ríkið verður að sjálfsögðu sem aðrir að taka duglega á menntunarmálum sinna starfsmanna. Þannig næst í fyrsta lagi til býsna stórs hóps, en hitt er ekki síður mikilvægt að verulegur þáttur í þeim endurbótum, sem gerðar verða felst í breyttu vinnulagi og nýrri hugsun. Þeirri hugsun þarf að koma á framfæri með markvissri fræðslu í öllum starfsgreinum og á öllum stjórnunarstigum.

Fyrirtæki

Fyrirtæki í landinu njóta góðs af góðri almennri og sérhæfðri menntun í upplýsingamálum. Þau munu samt þurfa að verja verulegum tíma í að mennta starfsfólk sitt til þess að verða samkeppnisfær. Mega þau þá síst vanrækja þá starfsmenn, sem ekki nota enn tölvur við dagleg störf.

5. Upplýsingaiðnaður

Öflugur upplýsingaiðnaður á Íslandi er ein af grunnforsendum þess að hægt sé að hrinda almennri, sjálfstæðri upplýsingastefnu í framkvæmd. Að öðrum kosti er hætt við að Íslendingar verði of háðir erlendri sérfræðiþekkingu. Á hinn bóginn er það upplýsingaiðnaðinum einnig mikilvægt að fyrir liggi markviss upplýsingastefna með skýrri verkaskiptingu milli ríkisvalds og einkaframtaks. Þannig kemst hann hjá að dreifa kröftum sínum, en getur í staðinn einbeitt sér að þeim lykilþáttum sem mikilvægast er að leysa fyrir Íslendinga. Ávinningurinn ætti að vera ljós þegar smæð þjóðarinnar annars vegar og sívaxandi fjölbreytni upplýsingatækninnar hins vegar eru höfð í huga.

Nýsköpun

Framþróunin er óvíða jafn ör og innan upplýsingatækninnar og hún teygir sig til sífellt fleiri þátta þjóðlífsins. Í öðrum greinum má sjá framfarir frá einum áratug til þess næsta, en innan upplýsingatækninnar er stöðugur straumur nýjunga og óhætt er að tala um algjöra endurnýjun hennar á hverju fimm til tíu ára tímabili. Þetta gerir kröfu til þess að skólar sem mennta almenning og sérfræðinga á þessu sviði fylgist stöðugt með þróuninni og aðlagi námsefnið aðstæðum hverju sinni, eins og nánar er fjallað um í öðrum köflum þessa rits. Þá þarf að leggja áherslu á endurmenntun sérfræðinga sem starfa við upplýsingatækni. Vegna hinnar hröðu framþróunar er skólamenntun þeirra einungis grunnur sem þeir verða að byggja ofan á alla sína starfsævi. Þeir þurfa að eiga kost á að sækja góð námskeið um sitt sérfræðisvið og eiga greiðan aðgang að öðrum sérfræðingum um allan heim. Þessu má koma í kring annars vegar með því að bjóða upp á fjölbreytt endurmenntunarnámskeið hér á landi og hins vegar með fullkomnum tölvusamskiptum við önnur lönd.

Með góðri og stöðugri menntun sérfræðinga og fullkomnum tæknibúnaði er skapaður nauðsynlegur grundvöllur fyrir nýsköpun í upplýsingatækni, sem síðan má nýta til góðs fyrir atvinnulífið í heild.

Atvinnulífið

Þótt meginþungi þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru til að leiða okkur inn í upplýsingasamfélagið muni hvíla á atvinnulífinu er nauðsynlegt að stjórnvöld hafi visst frumkvæði um þessar breytingar. Ábyrgð stjórnvalda felst ekki síst í því að búa hið ytra umhverfi sem best að fyrirsjáanlegum breytingum og sýna áræðni og frumkvæði á þeim sviðum sem þau koma að. Stjórnvöld þurfa að tryggja að upplýsinga- og fjarskiptatækni verði almennt og hindrunarlaust tekin upp í samskiptum og viðskiptum á öllum sviðum, bæði innanlands og við umheiminn.

Fyrirtæki á sviði upplýsingatækni eiga sér ekki langa sögu á Íslandi. Þegar litið er á þróun greinarinnar í heild sést að fyrirtækjum hefur fjölgað mikið og þau hafa jafnframt stækkað. Sé litið sérstaklega á hugbúnaðarfyrirtækin, þá má sjá sömu þróun þar. Þótt fjölgað hafi í flokki fyrirtækja með yfir 20 starfsmenn eru þau stærstu einungis með 25-40 starfsmenn. Styrkja má stöðu þessa iðnaðar með því meðal annars að flýta fyrir stöðlunarstarfi og draga úr viðskiptahindrunum, til dæmis vegna einkaleyfa til fjarskiptareksturs og huga að samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Á alþjóðlegum vettvangi er það svo að í þessum iðnaði eru lítil og meðalstór fyrirtæki jafn gjaldgeng og hin stærri að því gefnu að þau hafi jafngreiðan aðgang að hraðbrautum og brunnum upplýsinganna. Fjarlægðin, sem löngum hefur háð framþróun og samkeppnisstöðu atvinnulífsins hér á landi, hættir þá að skipta máli.

Ríkiskerfið og hugbúnaðariðnaðurinn

Stjórnvöld þurfa að leggja grunn að nýsköpun og markvissri atvinnuþróun í upplýsinga- og fjarskiptatækni. Í þessu felst meðal annars mótun tækni- og iðnmenntastefnu með áherslu á upplýsinga- og fjarskiptatækni. Háskólarannsóknir á sviði upplýsingatækni þarf að efla og veita hagnýtum niðurstöðum þeirra út í atvinnulífið. Í þessu felst einnig að ríkið gerist nýjungagjarn neytandi afurða upplýsingatækninnar og hafi frumkvæði að því að reyna nýjar leiðir. Með þátttöku hins opinbera í þróunar- og rannsóknaverkefnum í framlínu tækninnar vinnst margt. Þekkingu í ríkiskerfinu og hugbúnaðariðnaðinum er veitt í sama farveg, ráðist verður í stór verkefni og ríkið tekur á sig stóran hluta áhættunnar. Þannig fengna reynslu og þekkingu má nýta atvinnulífinu til eflingar, enda geta lausnir til orðnar með þessum hætti orðið söluvara á almennum markaði og til útflutnings.

  • Til þess að nýta sem best það fé sem varið er til hugbúnaðar í ríkisfyrirtækjum þarf að breyta áherslum:
  • Auka samvinnu þeirra á milli við öflun hugbúnaðar.
  • Fylgja útboðsstefnu við öflun hugbúnaðar.
  • Byggja upp þekkingu á verkefnaeftirliti, samningagerð og gerð útboðs- og kröfu lýsinga.
  • Gera auknar kröfur til hugbúnaðarfyrirtækja í gæðamálum.

Hagsmunir ríkisfyrirtækja og hugbúnaðarfyrirtækja fara saman í þessum málum. Útboðsstefnan getur lækkað kostnað ríkisfyrirtækjanna, ekki síst ef þau vinna saman og hugbúnaðarfyrirtækin fá aukin verkefni sem efla þau á allan hátt. Aukin áhersla á gæðamál og vottun hugbúnaðarfyrirtækja er einnig hagsmunamál beggja aðila.
Nýta ber margmiðlun í því skyni að efla ferðaþjónustu, nota samræmd upplýsinga- og bókunarkerfi fyrir ferðaiðnaðinn og hagnýta alþjóðleg net á markvissan hátt til að kynna Ísland. Upplýsinga- og fjarskiptatækni þarf að beita til að efla flutninga og samgöngur með það að markmiði að lækka kostnað og ekki síður til að auka öryggi.
Gera þarf nauðsynlegar breytingar á löggjöf svo að lagaákvæði hindri ekki útbreiðslu viðurkenndrar tækni.

Upplýsingatækni sem útflutningsvara

Útflutningur hugbúnaðar og þjónustu frá Íslandi er enn ekki mikill fyrirferðar í hagtölum. Hann hefur samt vaxið hraðar á undanförnum árum en nokkur annar vöruflokkur. Ýmsar af þeim afurðum sem fluttar eru út eru í harðri samkeppni við sambærilega framleiðslu erlenda. Af umsögnum erlendra fagblaða má ráða að íslenski hugbúnaðurinn standi oft á tíðum jafnfætis eða framar hinum erlenda. Þessi útflutningur byggist á kunnáttu, hugmyndaauðgi og vandvirkni. Dæmi eru um að lausnir þróaðar fyrir íslensk fyrirtæki hafi reynst seljanlegar erlendis án teljandi breytinga. Tæknilega séð stöndum við framarlega, en markaðssetning og sala eru Akkillesarhællinn í þessari grein. Árangur byggist á sömu atriðum í þessari grein og öðrum: Áherslu á gæði og gæðastjórnun, beitingu viðeigandi staðla, vottun og markvissum, viðurkenndum vinnubrögðum við markaðssetningu.

Verktaka og ráðgjöf til útflutnings

Verktöku á erlendum vettvangi er unnt að auka verulega. Vegna smæðar íslensku fyrirtækjanna þarf að koma á samvinnu þeirra í milli eða samvinnu við erlend fyrirtæki. Í mörgum tilfellum, sérstaklega á meðan verið er að byggja upp reynslu hér á landi, getur samvinna við erlend fyrirtæki með reynslu á þessu sviði verið vænlegri til árangurs.

Ráðgjöf á sviði upplýsingatækni er einnig útflutningsvara.

Rekstur upplýsingabanka

Kanna þarf hvort Ísland hafi ekki ýmsa kosti umfram önnur lönd til að reka alþjóðlega upplýsingabanka af ýmsu tagi. Lega landsins mitt á milli Evrópu og Ameríku, eða öllu heldur sú staðreynd að við stöndum ef svo má segja með annan fótinn í upplýsingamenningu Evrópu en hinn í Vesturheimi, gæti t.d. gefið okkur ákveðið forskot. Þjónusta af þessu tagi gerir þó kröfu um mikla flutningsgetu bæði austur og vestur um haf og verðlagning fjarskiptanna þarf að vera með þeim hætti að unnt sé að reka slíka þjónustu á hagkvæman hátt.

6. Menntun

Einn mikilvægasti þátturinn í uppbyggingu upplýsingasamfélagsins snýr að menntun á sviði upplýsingatækni. Gefa þarf gaum að skólakerfi okkar í heild, allt frá leikskóla til háskóla. Án almennrar og sérhæfðrar þekkingar á þessu sviði stendur upplýsingasamfélagið á brauðfótum og verður aðeins samfélag útvalinna.

Sérstaða Íslands

Íslendingar eru að mörgu leyti vel búnir undir þá hröðu þróun sem nú á sér stað. Almenn menntun er á háu stigi og tæknilegar nýjungar eiga greiðan aðgang að þjóðinni. Um nokkurt skeið hafa íslenskir skólar notað tölvur í skólastarfi og hefur þegar náðst góður árangur á vissum sviðum. Uppbyggingin í skólakerfinu hefur að miklu leyti byggst á framtaki og áhuga fárra kennara ásamt stuðningi áhugasamra skólastjórnenda og foreldrafélaga. Skólarnir eru misjafnlega á vegi staddir, sumir eru vel búnir tækjum, hugbúnaði og sérþekkingu en aðrir eru skammt á veg komnir.

Mótun menntastefnu

Mótun menntastefnu fyrir upplýsingaþjóðfélagið er afar brýnt verkefni og er nú á verkefnaskrá menntamálaráðuneytis. Áríðandi er að ráðuneytið sjálft, skólar, menningarstofnanir og aðrar stofnanir á verksviði menntamálaráðuneytisins geti með skipulögðum hætti fært sér í nyt þær stórstígu framfarir í upplýsinga- og fjarskiptatækni sem orðið hafa á undanförnum árum. Á vegum menntamálaráðuneytisins vinna þrjár nefndir nú að stefnumótun: Nefnd um upplýsingastefnu á sviði menntamála, nefnd um upplýsingastefnu á sviði menningarmála og nefnd um innanhússmálefni ráðuneytis, vörslu upplýsinga og gagnabanka.

Kennaramenntun

Grunninn að breytingum í skólastarfi þarf að leggja í kennaramenntuninni. Nauðsynlegt er að öll kennaraefni fái haldgóða kennslu og þjálfun í að nota upplýsingatæknina við úrlausn hvers kyns verkefna. Kenna verður notkun kennsluhugbúnaðar í öllum námsgreinum. Einnig þarf að leggja áherslu á þjálfun í upplýsingaleit, úrvinnslu upplýsinga og varðveislu svo að kennaraefni verði undir það búin að leiðbeina nemendum sínum á brautum upplýsingasamfélagsins. Kennarar kennaranna þurfa að vera nemendum sínum til fyrirmyndar í tölvunotkun.

Starfandi kennarar þurfa að hafa greiðan aðgang að endurmenntun, sérfræðiþekkingu og stuðningi meðan þeir eru að stíga fyrstu skrefin í notkun upplýsingatækninnar í námsgreinum.

Aðbúnaður skóla

Til þess að menntakerfið geti sinnt því mikilvæga hlutverki að búa nemendur undir upplýsingasamfélagið þarf að huga að aðbúnaði skólanna. Flestir skólar hafa takmarkaðan vélbúnað, og framboð á góðum hugbúnaði á íslensku er ekki nægjanlegt. Það hefur einnig hamlað þróun þessara mála að aðgangur að tæknilegri og kennslufræðilegri aðstoð við tölvunotkun í námi hefur verið lítill.

Tækjabúnaður skólanna þarf að vera góður og í stöðugri endurnýjun svo að hann geti ávallt borið besta hugbúnað sem í boði er á hverjum tíma.

Tryggja þarf að nægjanlegt framboð verði á kennsluhugbúnaði á íslensku. Leggja þarf áherslu á að leita fanga erlendis og þýða góðan hugbúnað sem hentar íslenskum aðstæðum en smíða frá grunni hugbúnað sem byggir á nýjum hugmyndum og hugbúnað sem snertir séríslensk mál.

Breytingar á skólastarfi

Skólastjórnendur gegna lykilhlutverki í öllum breytingum sem verða á skólastarfi. Þeir hafa því mikilvægu hlutverki að gegna við að hvetja og styðja kennara til þess að fara nýjar leiðir og flétta upplýsingatæknina inn í allar námsgreinar. Því þarf að huga að endurmenntun skólastjórnendanna. Sérstaklega þarf að gefa framtakssömum frumkvöðlum svigrúm til að sinna upplýsingamálunum, byggja sig upp og styðja aðra kennara. Mikilvægt er að fjarnám og aðrar nýjungar sem fram koma í skólastarfinu verði dyggilega studdar af skólastjórnendum.

Sérnám í upplýsingatækni

Góð sérfræðiþekking á sviði upplýsingatækni er ein mikilvægasta undirstaða upplýsingasamfélagsins. Mikil eftirspurn er eftir sérfræðiþekkingu á sviði upplýsingatækni og hefur skólakerfið ekki útskrifað nægilega marga einstaklinga á þessu sérsviði til að anna eftirspurninni.

Mikilvægt er að gott framboð verði á fjölbreytilegu sérnámi bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi. Í þessu samhengi má benda á meistaranám í tölvunarfræðum.

7. Upplýsinganet

Upplýsinganet á Íslandi

Ýmis upplýsingakerfi og upplýsinganet eru starfrækt á Íslandi í dag. Meðal neta með sértæk notkunarsvið má nefna SITA (fjarskiptanet flugfélaga), SWIFT (bankaviðskipti) og VISA (greiðslukortaviðskipti). Þjónusta fyrir almenning og viðskiptalífið innanlands og milli landa er aðgengilegust á tvennum vettvangi: Almenna gagnanetinu og Interneti.

Almenna gagnanetið[7] og sú þjónusta sem þar er að fá byggist á svokölluðum OSI-stöðlum, sem leggja áherslu á örugg samskipti á fastmótuðum viðskiptalegum grunni. Ásamt ýmsum sérhæfðum netum er almenna gagnanetið því einn helsti vettvangurinn fyrir tölvuvædd viðskipti, til dæmis skjalaskipti með tölvum (SMT eða EDI).

Internet[8] hefur breiðst út um heiminn með sprengihraða undanfarin ár. Stofnkostnaður við tengingu er lágur, formsatriði við samskipti í lágmarki og fjölbreytni þjónustu sem fáanleg er á netinu fer sívaxandi. Segja má að Internet, og ekki síst nýlega tilkomin aðferð við að miðla og taka við upplýsingum, veraldarvefurinn, hafi sigrað heiminn sem aðgengilegasti upplýsingamiðillinn. Það sem komið hefur í veg fyrir víðtæka notkun Internets í viðskiptum er skortur á öryggisráðstöfunum. Annað vandamál er vöxturinn, sem er að sprengja þann tæknilega ramma, er Interneti var sniðinn í upphafi. Unnið er að endurbótum á báðum þessum ágöllum. Þrátt fyrir þetta hefur Internet verið notað til að skiptast á hugbúnaði og upplýsingum. Nýlega er einnig farið að bera þar á vörusölu og má þar nefna sölu Póst- og símamálastofnunar á frímerkjum. Mörg fyrirtæki eru að þróa rafrænar verslunarmiðstöðvar.

Símakerfið

Símakerfið er vegakerfi fjarskipta á Íslandi eins og annars staðar og er það vel þróað tæknilega. Ísland er eitt af fyrstu löndum heims til að koma á stafrænu símakerfi um landið allt, en það gefur notendum möguleika á nýjum þjónustuþáttum eins og samnetsþjónustu (ISDN), sem líklega verður heppilegasta aðgangsleið almennra notenda að upplýsinganetum í náinni framtíð. Ljósleiðari liggur umhverfis landið og nær til helstu þéttbýlisstaða. Á höfuðborgarsvæðinu hefur breiðbandslögn verið lögð inn í um tíu þúsund íbúðir. Stafrænt farsímakerfi (GSM) nær einnig til fjölmennustu byggða landsins. Þá er séð fyrir tengingu til útlanda um ljósleiðarann Cantat 3 og um gervitunglasambönd.

Upplýsingahraðbrautir

Markvisst þarf að halda áfram þróun og útbreiðslu lagnakerfis með mikilli bandbreidd og sambærilegu þjónustuúrvali við það sem almennt verður í grannlöndunum. Jafnframt verður þess krafist að tengi- og notkunarkostnaður verði ekki hærri hér en þar.

Fyrirsjáanlegt er að mikið fjármagn þarf í náinni framtíð til að þróa þessa vegagerð upplýsinganets á Íslandi. Áform ríkisstjórnarinnar um að breyta rekstrarformi Póst- og símamálastofnunar til að auðvelda henni þátttöku í þessari framþróun marka skref í rétta átt. Afnám einkaréttar og endurskoðun fjarskiptalaga þarf að gerast samhliða. Þátttaka einkafyrirtækja og erlendra síma- og fjarskiptafyrirtækja í þessari þróun með tilheyrandi samkeppni er líkleg til að bæta þjónustuna og lækka verð til neytenda líkt og gerst hefur annars staðar.

Hvað varðar tæknigetu og kunnáttu eru íslensk fyrirtæki vel samkeppnishæf á fjarskiptasviðinu. Á ýmsum sviðum höfum við sýnt að við stöndum mjög framarlega. Smæðin gerir okkur óleik og oft þarf bæði fé og meira samstarf til að betur megi gera. Stuðla ber að samvinnuverkefnum um rannsóknir og þróun á þessu sviði. Ekki síst ber að neyta þeirra kosta sem gefast í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

8. Sambúðin við landið

Mörg verkefni í þessum málaflokki eru nú þegar leyst með hjálp upplýsingatækni eða undirbúningur slíkra lausna hafinn. Áherslan þarf að hvíla á samræmingu aðgerða og að hvarvetna sé beitt hugsunarhætti upplýsingasamfélagsins. Eftirfarandi upptalning verkefna er sundurleit en minnir á hversu víða þarf að koma við.
Könnun landsins

Mikilvægir áfangar hafa náðst á síðustu árum í áætlunum um að taka upp aðferðir við landmælingar er byggist á GPS-staðsetningartækni. Með rafeindatækni hefur verið skyggnst undir ísbreiður jöklanna til að spá fyrir um eðli vatnsforðabúra landsins. Fjarkönnun hefur þegar nýst íslensku athafnalífi og vísindum með ýmsu móti. Mannlausar veðurstöðvar eru nú víða á heiðum og senda í sífellu upplýsingar um vind og hita beint inn á sjónvarpsskjái landsmanna. Grunnur hefur verið lagður að landupplýsingakerfi á þéttbýlustu stöðum landsins. Með slíkri tækni má í framtíðinni vinna landtengdar upplýsingar í myndrænu formi, sem gefur áður óþekkt tækifæri til úrvinnslu og greiningar.

Umhverfismál

Unnt verður að nýta upplýsingatæknina á verulega öflugri hátt en nú þekkist til eftirlits með mengun hafs og lands og ekki síður til virkra mengunarvarna.
Á öðrum sviðum eru í augsýn möguleikar á margvíslegum endurbótum varðandi upplýsingaöflun og þjónustu. Nefna má aðgerðir til að greina og vara við aðsteðjandi náttúruhamförum, svo sem jarðskjálftum, eldgosum, fárviðrum og snjóflóðum. Sama er að segja um upplýsingakerfi til að auka öryggi ferðamanna hvort sem er á láði, legi eða í lofti. Ör þróun er bæði í skynjunar- og mælitækni og aðferðum við úrvinnslu, samfara tækni til að gera niðurstöður aðgengilegar þá og þar sem þörf gerist.

Nýting náttúruauðlinda

Meðal viðfangsefna þar sem framfarir í upplýsingatækni munu valda straumhvörfum er skipulagning á nýtingu náttúrauðlinda til lands og sjávar. Unnt verður að skoða bústofna atvinnuveganna, svo sem sjávarútvegs, orkuiðnaðar eða landbúnaðar í víðara samhengi en áður hefur verið gerlegt. Í þessum málaflokki verða nýtt flókin tölvulíkön til að kanna valkosti og prófa nýjar hugmyndir, en reikniafl til slíkra hluta fæst nú á hagstæðu verði og mun enn lækka.

Eins og fram kemur annars staðar í riti þessu er ljóst að margt má gera í upplýsingasamfélaginu til þess að íbúar hinna dreifðu byggða landsins geti notið þeirra kosta heimabyggðarinnar sem þeim eru kærastir án þess að þeim verði lakar þjónað af hálfu hins opinbera en þeim sem í þéttbýli búa.

9. Íslensk menning og tunga

Meðal þess sem mörgum finnst áhugaverðast af ávöxtum upplýsingabyltingarinnar er sá möguleiki að deila menningarverðmætum mannkynsins með öllum mönnum. Texti hefur um ára skeið verið flytjanlegur um rafbrautir fjarskiptanna. Með tilkomu upplýsingahraðbrauta og margmiðlunartækni er unnt að miðla öðrum listafurðum í sífellt raunlíkari mynd. Eitt hinna ellefu reynsluverkefna G7-þjóðanna (sjá 2. kafla) er einmitt fólgið í samvinnu um að gera myndir helstu listasafna stórborganna aðgengilegar með þessum hætti.

Íslenskt menningarefni

Það er á valdi hverrar þjóðar að bjóða fram til samneyslu í upplýsingasamfélaginu hvaðeina sem menning hennar býr yfir. Það heyrir til fullrar þátttöku okkar Íslendinga í hinu nýja samfélagi að gera sem mest af menningarefni okkar aðgengilegt öðrum þjóðum. Þetta er risavaxið verkefni í heild, en því má skipta í viðráðanlega áfanga.

Íslenskt mál

Í víðtæku samstarfi Evrópuþjóða á sviði upplýsingatækni er viðurkennd þörf á varðveislu lítilla mál- og menningarsvæða. Þessa sjónarmiðs gætir til dæmis í samstarfi þeirra um stöðlun. Evrópustaðall um sérstakar þarfir menningar- og málsvæða er nú tilbúinn til útgáfu. Í honum verður innifalinn nýr íslenskur forstaðall, FS 130, Íslenskar þarfir í upplýsingatækni. Nú er loks einnig svo komið að helstu alþjóðlegir staðlar um stafatöflur í tölvum taki fullnægjandi tillit til íslenska stafrófsins.[9]

Með tilkomu FS 130 geta framleiðendur tölvukerfa nú fundið á einum stað hvernig birta skuli íslenskan texta, raða í stafrófsröð, setja fram dagsetningar á íslensku, og þar fram eftir götunum. Sérstakt verkefni er að þýða helstu stýrikerfi og útbreiddustu forrit á íslensku, en vegna ofangreindra staðla, meðal annars, verður tilkostnaður við slíkt minni en ella.

Aðgát vegna tækninýjunga

Hvert nýtt notkunarsvið eða birtingarform kallar á nýja staðla. Um þarfir okkar verður ekki sinnt nema við gerum það sjálf. Að fylgjast grannt með stöðlunarstarfi á öllum sviðum upplýsingatækni er eitt þýðingarmesta hagsmunamál okkar. Sama máli gegnir um að eiga þátt í þróun ýmissa nýrra kerfa sem útbreidd verða í upplýsingasamfélaginu. Dæmi um slíkt eru uppflettikerfi fyrir gagnabanka sem þýtt geta sjálfkrafa af tungumáli gagnabankans yfir á mál þess sem upplýsinganna leitar. Slík kerfi eru nú á tilraunastigi.

Þetta síðasta hefur þýðingu fyrir samskipti í báðar áttir svo framarlega sem okkur er annt um að deila menningararfi okkar með öðrum þjóðum.

Öflugt starf Staðlaráðs Íslands og Fagráðs í upplýsingatækni og þátttaka í alþjóðlegum staðlasamtökum, svo sem CEN[10] og ISO[11], er öruggasta leiðin til að tryggja hagsmuni okkar í þessu efni.

Hjálpartæki við textavinnslu

Til eru ýmis nytsöm hjálpartæki við textavinnslu, svo sem stafsetningarorðasöfn, samheitaorðasöfn, forrit til að skipta orðum milli lína og leitarforrit er skila öllum beygingarmyndum leitarorðsins. Í öðrum löndum eru þau mörg hver talin sjálfsögð, reyndar ómissandi. Fyrir íslenskt mál er úrval slíkra forrita takmarkað eða þau eru ekki til.

Vafamál er hvort aðrir en Íslendingar hafi til þess metnað eða kunnáttu að þróa slík hjálpartæki fyrir íslenska beygingar- og setningafræði. Á þessu sviði er hröð þróun. Á stóru málsvæðunum munu markaðsöflin leiða hana, en vegna hinna smærri þurfa stjórnvöld að gæta hagsmuna sinnar tungu.

10. Lokaorð

Hér að framan hefur verið sett fram hugmynd að meginstefnu og framtíðarsýn um stöðu Íslands og íslensku þjóðarinnar í upplýsingasamfélagi framtíðarinnar:

Stefnt skal að því að Íslendingar verði í fremstu röð þjóða í þróun upplýsingasamfélagsins, bæði sem veitendur og neytendur.

Sú skoðun skal enn og aftur ítrekuð að mestu máli skipti að þjóðin geri sér í tæka tíð grein fyrir eðli fyrirsjáanlegra breytinga, sem margar munu gerast hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hún verði tilbúin til aðlögunar eins og þarf svo að hún megi njóta ávaxta upplýsingasamfélagsins til jafns við aðrar þjóðir.

Á vissum sviðum er talin þörf á samræmdum aðgerðum og frumkvæði ríkisvaldsins svo að þróunin verði á þeim nótum sem okkur þyki við unandi. Bent er á sjö slík svið, sem fjallað hefur verið nánar um hér að framan:

Sjö markmið

  • Upplýsingatækni verði beitt til að opna ríkiskerfið, draga úr kostnaði og bæta þjónustu þess við landsmenn.
  • Allir Íslendingar hafi tækifæri til að afla sér þekkingar og nýta sér þá fjölbreyttu þjónustu sem upplýsingasamfélagið hefur að bjóða.
  • Upplýsingatækni verði beitt til að auka framleiðni og bæta samkeppnisstöðu hvarvetna í atvinnulífinu. Iðnaður byggður á upplýsingatækni verði ein af undirstöðum atvinnulífsins.
  • Menntun í upplýsingatækni verði efld á öllum skólastigum. Ávallt verði fyrir hendi sérþekking á háu stigi á þeim sviðum sem mesta þýðingu hafa.
  • Upplýsinganet á Íslandi verði í öllu tilliti samkeppnishæf og þess megnug að veita þjónustu í hæsta gæðaflokki.
  • Kostir upplýsingatækninnar verði nýttir til að gera sambúðina við landið og náttúru þess öruggari.
  • Staða íslenskrar menningar og tungu í upplýsingasamfélaginu verði tryggð og styrkt.

Sterkar og veikar hliðar

Eftirfarandi gróf greining á stöðu okkar Íslendinga í upplýsingatækninni hefur verið höfð til hliðsjónar við samantekt þessa. Bendir hún þegar ákveðið í vissar áttir.

Sterkar hliðar

  • Almennt hátt menntunarstig.
  • Tiltölulega hátt stig tölvulæsis.
  • Útbreiðsla tölva á heimilum og í skólum.
  • Þróað stjórnkerfi með vönduðum grunnskrám, svo sem þjóðskrá, og tiltækum upplýsingum um atvinnulífið úr efnahags- og verslunarskýrslum.
  • Tiltölulega vel þróað fjarskiptanet um allt land.
  • Smæð samfélagsins sem gerir kleift að hafa yfirsýn, ná samkomulagi, taka ákvarðanir og framkvæma hluti á tiltölulega skömmum tíma.

Veikar hliðar

  • Smæðina má auðvitað einnig telja til veikleika, einkum að því leyti að innan lands verður markaður ávallt örsmár.
  • Fjarlægðin frá öðrum löndum, þar af leiðandi mikill kostnaður við afkastamikil fjarskiptasambönd (enn sem komið er).
  • Veikburða iðnaður á þessu sviði.
  • Hörgull á sérmenntuðu fólki í upplýsingatækni.
  • Takmörkuð þekking kennarastéttarinnar á málefnum tengdum upplýsinga tækni.
  • Smæð íslenska málsvæðisins krefst sífelldrar baráttu fyrir rétti og stöðu tungunnar í upplýsingasamfélaginu.

Meðan þetta rit var í lokavinnslu voru hafnar aðgerðir til að móta stefnu fyrir ríkisstjórn Íslands um íslenska upplýsingaþjóðfélagið. Stofnuð var nefnd um þetta verkefni ásamt 8 vinnuhópum um tiltekin svið. Hér á eftir eru lagðar fram tillögur um aðgerðir á sviði stjórnsýslunnar til að ná markmiðum þeim sem lýst er framar í ritinu.

Aðgerðir í opinberri stjórnsýslu

Í eftirfarandi upptalningu er að finna tillögur um aðgerðir í íslensku stjórnsýslunni, sem til þess eru líklegar að greiða götu okkar inn í upplýsingasamfélagið. Þær eru flokkaðar hér í þrjá þætti til hagræðis, en miða allar að hinu sama: Að gera þjónustu hins opinbera hagkvæma, skilvirka, skjótvirka og örugga. Hér er þeirra getið í lykilorðastíl. Útfæra þarf í smærri atriðum áætlanir um nauðsynlegar aðgerðir á hverju sviði.

1. Starf stjórnsýslunnar inn á við, samræming, einföldun

  • Verkaskipting milli embætta hins opinbera innbyrðis.
  • Leiðbeiningar um stöðlun, svo sem samræmingu kerfissniða og samskiptaforma, þ.m.t. tölvupósts.
  • Þörf fyrir reglur eða breytingar á reglum um eignar- og umráðarétt á upplýsingum, verðlagningu upplýsinga og þjónustu, lagabreytingar vegna nýrra starfshátta.

2. Samskipti stjórnsýslunnar við borgarana og atvinnulífið

  • Verkaskipting milli opinberra stofnana og markaðarins.
  • Aðferðir við miðlun upplýsinga.
  • Aðgangsmöguleikar borgaranna.
  • Aðgerðir til að koma í veg fyrir margskráningu og endurtekningu sömu upplýsinga.

3. Samstarf við aðrar þjóðir

  • Áhrif væntanlegra breytinga á samskipti við erlend stjórnvöld, t.d. varðandi gagnkvæma upplýsingaöflun.
  • Þátttaka í alþjóðlegum samstarfsverkefnum, svo sem IDA (Interchange of data between administrations) og samfélagsverkefnum G7-þjóða.
  • Þátttaka í starfi alþjóðlegra stöðlunarsamtaka.

Eftirmáli

Samkvæmt lögum um stjórnarráðið fer fjármálaráðuneytið með málaflokkinn almennar umbætur í ríkisrekstri. Fyrir um 15 árum var fyrst ráðinn sérfræðingur á sviði upplýsingatækni til starfa í ráðuneytinu, enda þá þegar orðið ljóst að með því að beita henni á réttan hátt gat hún orðið mikilvægt hjálpartæki við umbætur og að veruleg þörf var fyrir stefnumótun og ráðgjöf á þessu sviði til ríkisstofnana.

Árið 1988 var stofnuð á vegum ráðuneytisins ráðgjafanefnd um upplýsinga- og tölvumál (RUT). Í henni sitja sérfræðingar með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, jafnan tveir úr einkafyrirtækjum og tveir úr opinberum stofnunum. Áherslur í starfi nefndarinnar hafa að sjálfsögðu breyst í áranna rás. Í núgildandi erindisbréfi nefndarinnar segir svo meðal annars: Hún skal vera ráðgefandi um almenna stefnumörkun fyrir stjórnarráð og ríkisstofnanir. og ennfremur: Vinna að því að móta og koma í framkvæmd upplýsingastefnu fyrir stjórnarráð og ríkisstofnanir í anda ferskra hugmynda um upplýsingasamfélag, með það fyrir augum að íslensk stjórnsýsla verði þar í fremstu röð.
Tillögur nefndarinnar til stefnumörkunar hafa birst í ritum hennar, en þau eru helst þessi: Upplýsingakerfi ríkisstofnana, mat á valkostum (1991), Upplýsingastefna fyrir íslenskar ríkisstofnanir (lögð fram af fjármálaráðherra í ríkisstjórn í nóvember 1991), skýrsla um landskerfi (1993, unnin af vinnuhópi, ekki gefin út opinberlega) og Innkaupahandbók um upplýsingatækni (1994, unnin af vinnuhópi). Fréttabréf frá RUT hefur komið út í fjórum tölublöðum. Þá hefur nefndin tekið virkan þátt í gerð íslenskra staðla um upplýsingatækni.

Vinna við þetta rit, Ísland og upplýsingasamfélagið - drög að framtíðarsýn, hófst á miðju ári 1995. Áður hafði nefndin gert stuttorðar tillögur í þessa veru til ráðuneytisins, en í samráði við ráðherra og ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins var ákveðið að semja allítarleg drög að framtíðarsýn og fjalla þá ekki einungis um stjórnsýsluna, enda snertir málið þjóðlífið allt. Litið hefur verið til aðgerða grannþjóða okkar um fordæmi, enda er lítill ágreiningur um meginlínur. Þess er vænst að ritið geti orðið þarft innlegg í þá almennu stefnumótun um upplýsingasamfélagið, sem nú er hafin.

Neðanmálstextar

[1] Sjá t.d. Bill Clinton og Al Gore: Putting people first (New York, Time books, 1992).

[2] Nokkur dæmi:

Info-samfundet år 2000 (Forskningsministeriet, Danmörk 1994)
Finland towards the information society (Ministry of Finance, Finnland 1994)
The networked nation (Science and technology council, Ástralía 1994)
Program for advanced information infrastructure (Japan [MITI] 1994)
Statlig informasjonspolitikk (Noregur 1994)
Information superhighway. From metaphor to action (Holland 1994)
Wings to human ability (Svíþjóð 1994)

[3] Sjá til dæmis Growth, competitiveness and employment, Hvítbók frá ESB, des. 1992 og Europe and the global information society, skýrslu svokallaðrar Bangemann-nefndar, 1994.

[4] Heimild: European Information Technology Observatory 1995, bls. 173.

[5] Nánar um öryggismál, sjá Innkaupahandbók um upplýsingatækni, 13. kafla. (Fjármálaráðuneytið 1994).

[6] Viðskiptablað Morgunblaðsins 9. mars 1995.

[7] Rekið af Póst- og símamálastofnun.

[8] Tenging landsins við útlönd og úthlutun svæðisheita hér á landi er í höndum hlutafélagsins Internet á Íslandi (IntIS).

[9] T.d. staðlarnir ISO/IEC 8859-1 (8 bita stafatafla) og ISO/IEC 10646-1 (með undirmenginu Unicode, fjölbæta stafatafla fyrir nær öll stafróf í veröldinni).

[10] Comité Européen de normalisation, Staðlastofnun Evrópu.

[11] International organization for standardization, Alþjóða staðlastofnunin.

© Fjármálaráðuneytið 1995.

Öll réttindi áskilin. Heimilt er að afrita hluta ritsins og birta með því skilyrði að heimildar sé ávallt getið.

Ráðgjafanefnd um upplýsinga- og tölvumál (RUT), desember 1995

  • Ólafur Ólafsson, formaður
  • Daði Örn Jónsson
  • Guðbjörg Sigurðardóttir
  • Sigurjón Þór Árnason
  • Jóhann Gunnarsson

12. febrúar 1996

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum