Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. maí 1999 Innviðaráðuneytið

Samráðsfundur - setning fundar

Ólafur Davíðsson
ráðuneytisstjóri, forsætisráðuneytinu.

Samráðsfundur um opinberar upplýsingar 20 maí 1999
Setning fundarins

Ágætu fundargestir,

Vakin var athygli á þessum fundi með orðunum "Hér með upplýsist" og endurspeglar það á margvíslegan hátt það sem fram mun fara hér á eftir.

Tilefni þessa fundar er að kynna og ræða um skýrslu Evrópusambandsins um opinberar upplýsingar og upplýsingasamfélagið. Til þess að fræða okkur um innihald skýrslunnar, er hingað kominn fulltrúi Evrópusambandsins (Ola-Kristian Hoff). Hann kemur þó ekki einungis til fundarins til að fræða okkur - því Evrópusambandið óskar eftir að fram fari umræða og sem flestir aðilar kynni athugasemdir sínar við skýrsluna. Við gerum því ráð fyrir að fulltrúi þeirra verði nokkurs vísari um afstöðu Íslendinga til skýrslunnar að þessum fundi loknum.

En við skulum einnig nota þetta tilefni til að opna umræðu um þau mörgu álitamál sem snerta opinberar upplýsingar í íslenska upplýsingasamfélaginu. Það kemur nefnilega í ljós við lestur skýrslunnar að þær spurningar sem þar eru lagðar fram í evrópsku samhengi eru í mörgum tilfellum sömu spurningarnar og leita þarf svara við hér.

Á örfáum árum hafa orðið miklar breytingar á íslensku samfélagi vegna þróunar á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Stjórnsýslan og þjónusta hins opinbera hafa tekið stór og mikilvæg skref inn í upplýsingasamfélagið. Komið hefur verið upp þróuðum upplýsingakerfum sem auka hagræði og auðvelda alla daglega vinnu. Um leið hefur stjórnsýslan opnast og aðgengi að upplýsingum og þjónustu hefur batnað. Sem dæmi má nefna aðgengi almennings að lögum, reglugerðum, hæstaréttardómum og opinberum skýrslum.

Stjórnarráðsvefurinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í miðlun upplýsinga frá ráðuneytum. Stöðugt bætist þar við nýtt efni og er mikilvægt að leggja rækt við áframhaldandi uppbyggingu hans. Að sama skapi hafa margar ríkisstofnanir komið sér upp myndarlegum vefjum sem bæta mjög þá þjónustu sem þær veita almenningi og atvinnulífi.

Á síðustu misserum er svo hægt að fá ýmsa þjónustu beint gegnum opinbera vefi s.s. að sækja eyðublöð, sækja um leyfi og ljúka erindum með rafrænum hætti. Sem dæmi má nefna rafræna tollafgreiðslu og rafræn skil fyrirtækja og einstaklinga á skattskýrslum.

Almenningur á Íslandi nýtir sér upplýsinga- og fjarskiptatækni betur en víðast annars staðar. Hann sækir sér upplýsingar og þjónustu gegnum Netið, sinnir bankaviðskiptum og kaupir í auknum mæli vörur og þjónustu. Mikil aukning hefur orðið á Internetaðgangi á heimilum skv. Gallup-könnun sem gerð var fyrir verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið nú í apríl. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir aðgengi almennings að opinberum upplýsingum og segir okkur hversu mikilvægt það er að koma opinberum upplýsingum á framfæri gegnum vefinn. Þessi umræða snertir því ótvírætt hagsmuni almennings.

Fyrirtæki í öllum atvinnugreinum eiga einnig hagsmuna að gæta. Aðgengi að opinberum upplýsingum, gjaldtaka fyrir opinberar upplýsingar og höfundaréttindi skipta þar miklu.

Upplýsingaiðnaður er ört vaxandi atvinnugrein sem byggir á vel menntuðu starfsfólki. Bundnar eru vonir við að í þessari atvinnugrein skapist fjöldi nýrra starfa á næstu árum. Opinberar upplýsingar eru stór hluti þeirra upplýsinga sem áhugaverðar eru fyrir fyrirtæki og almenning og munu því fyrirtæki í upplýsingaiðnaði gera þær aðgengilegar með því að matreiða þær fyrir viðskiptavini sína. Þessi umræða um opinberar upplýsingar snertir því þróun og hagsmuni upplýsingaiðnaðarins.

Rétt er að nefna rannsóknastofnanir sérstaklega. Í bréfi sem forsætisráðuneytinu barst frá Rannsóknarráði Íslands í febrúar s.l. er sagt frá ósamræmi í verðlagningu á rannsóknagögnum. Lagt er til að skipuð verði nefnd sem geri tillögu um opinbera stefnu um aðgengi og verðlagningu opinberra rannsóknagagna.

Einnig er rétt að geta þess hér að verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið hefur lagt til við forsætisráðuneyti að skipuð verði nefnd um verðlagningu á opinberum upplýsingum en ráðuneytið fer með mikilvæga málaflokka sem snerta opinberar upplýsingar þ.e.a.s.: upplýsingaskyldu stjórnvalda, málefni upplýsingasamfélagsins og forystu í þróun stjórnarráðsvefsins.

Í ráðuneytinu er nú verið að undirbúa skipun nefndar um verðlagningu á opinberum upplýsingum og er frétta af því máli að vænta á næstunni.

Að lokum óska ég þess að hér á eftir fari fram opin og frjálsleg umræða sem nýtist í þeirri stefnumótun sem framundan er.

Samráðsfundur um opinberar upplýsingar 20. maí 1999

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum