Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. desember 1999 Innviðaráðuneytið

Flugmálaáætlun 2000-2003

Flugmálaáætlun fyrir árin 2000-2003 lögð fram á Alþingi.

Nánari upplýsingar veitir Jakob Falur, s. 560 9630 GSM 862 4272
netfang: [email protected]


Viðtakandi: Fjölmiðlar
Sendandi: Jakob Falur Garðarsson, aðstoðarmaður ráðherra
Dagsetning: 22/12/1999


Samgönguráðherra hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um flugmálaáætlun fyrir árin 2000-2003. Sú flugmálaáætlun sem nú er í gildi nær til áranna frá og með 1998 til og með 2001. Því er jafnframt um að ræða endurskoðun á framkvæmdum á árunum 2000 og 2001, en nýjar framkvæmdir á árunum 2002 og 2003. Framkvæmdum við flugvelli má skipta í tvo flokka, annars vegar viðhaldsframkvæmdir og hins vegar nýframkvæmdir. Til viðhaldsframkvæmda teljast aðeins meiri háttar framkvæmdir eins og slitlagsyfirlög á flugbrautir og hlöð, málun flugbrauta, endurbygging bygginga, endurnýjun tækjabúnaðar o.þ.h. Helstu framkvæmdir í áætluninni eru þessar:

Endurbætur á Reykjavíkurflugvelli.
Í núgildandi flugmálaáætlun er miðað við að framkvæmdir við endurbætur á Reykjavíkurflugvelli hefjist á árinu 1999. Undirbúningur verksins hefur staðið yfir síðustu 5?6 ár og var stór hluti verksins boðinn út vorið 1999. Framkvæmdir hófust í október 1999 og miðað er við að þeim ljúki árið 2002.

Flugstöð í Reykjavík.
Á árunum 2000 og 2001 eru ráðgerðar 15 milljónir kr. til undirbúnings að byggingu nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. Þegar hefur verið ákveðið að bygging flugstöðvarinnar verður fjármögnuð sem einkaframkvæmd.

Næturaðflug til Ísafjarðar?
Á Ísafjarðarflugvelli er staðan þannig í dag, að vegna hindrana í umhverfinu eru lendingar aðeins leyfðar við sjónflugsskilyrði. Á árunum 2000?2001 eru ráðgerðar athuganir á möguleikum til næturaðflugs til Ísafjarðar í samvinnu við flugrekendur. Ef þessar athuganir gefa jákvæða niðurstöðu er ráðgert að ráðast í framkvæmdir á árunum 2001, 2002 og 2003. Áætlaður kostnaður er 75 millj. kr.

Æfingaflugvöllur.
Árið 2004 er ráðgert að ljúka fyrri áfanga við byggingu æfingaflugvallar í nágrenni Reykjavíkur. Endanleg staðsetning hefur ekki verið ákveðin, en ljóst er að flugvöllurinn verður með tveimur flugbrautum, flugturni og nauðsynlegum flugleiðsögubúnaði. Heildarkostnaður er áætlaður 220 millj. kr. Árið 2003 er ráðgert að verja 124,5 millj. kr. til þessa verkefnis.

Bakkaflugvöllur.
Á tímabilinu 2000?2002 er ráðgert að koma upp flugbrautum með malarslitlagi á Bakkaflugvelli. Áætlaður kostnaður er 66 millj. kr. Þá eru jafnfram fyrirhugaðar framkvæmdir við aðra aðstöðu á vellinum, en í dag eru flugstöð og flugstjórnarherbergi sambyggð í einu húsi sem samtals er um 50 m2. Húsið var sett upp á Bakka árið 1990 en er töluvert eldra og stóð áður á Hólmavík. Gluggar flugstjórnarherbergisins eru þannig staðsettir að ekki sést yfir nema hluta af flugbrautunum. Ráðgerðar eru framkvæmdir á árunum 2000?2003, en uppbygging flugbrauta hefur forgang.




Akureyrarflugvöllur.
Flugstöðvarbyggingin hefur verið byggð í þremur áföngum. Þriðji áfangi var tekinn í notkun í maí 1996. Á árinu 1999 hefur verið unnið við ýmsan frágang og viðbætur á þessum síðasta byggingaráfanga og mun þeim lagfæringum ljúka árið 2000. Um er að ræða lagfæringar á brottfararsal og endurnýjun á kaffiteríu. Byggð verður 21 m2 glerbygging út úr austurhlið brottfararsalar og aðkomugangur úr gleri að komusal. Einnig verða breytingar gerðar á norðurhluta flugstöðvarinnar. Þá verður sett upp nýtt færiband og skjáupplýsingakerfi fyrir farþega auk annara lagfæringa á eldri áföngum. Áætlaður kostnaður er um 60 millj. kr.
Brýnt er orðið að endurnýja ratsjá við völlin. Þar er um að ræða mjög kostnaðarsamt verkefni. Því hafa verið athugaðir möguleikar á að koma upp staðbundnu GPS-leiðréttingarkerfi kringum Akureyrarflugvöll. Ljóst er að til þess að nýta slíkt kerfi verða flugvélar að vera með sérstakan búnað. Hins vegar mundi slíkur búnaður í fimm til sex flugvélum leysa yfir 95% af þeim tilvikum þegar óskað er eftir ratsjáraðflugi. Lagt er til að á árunum 2000?2002 verði rannsakaðir möguleikar á notkun GPS-leiðréttingarkerfis á Akureyrarflugvelli.
Þá þarf, vegna fyrirhugaðrar fjölgunar starfsmanna í slökkviliði úr fjórum í sjö, að gera viðeigandi breytingar á aðstöðu starfsmanna. Ráðgert er að hefja framkvæmdir árið 2000 og ljúka þeim árið 2001. Kostnaðaráætlun þessa verks er 16 millj. kr.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum