Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. desember 2000 Dómsmálaráðuneytið

Upphaf framkvæmdar Schengen samningsins

Fréttatilkynning



Á fundi dómsmálaráðherra í samsettu nefndinni á vettvangi Schengen samstarfsins, sem haldinn var í Brussel í dag, var ákveðið að full framkvæmd Schengen samningsins á Norðurlöndunum fimm myndi hefjast þann 25. mars á næsta ári, að loknum úttektum á virkni Schengen upplýsingakerfisins í ríkjunum fimm og lokaúttekt á flughöfnum, sem fyrirhugaðar eru í janúar og febrúar á næsta ári. Felur þessi ákvörðun í sér að persónueftirlit á innri landamærum milli þeirra og gagnvart öðrum starfandi Schengen ríkjum verður fellt niður frá og með þeim degi. Fyrirkomulag tolleftirlits verður áfram óbreytt.

Með þessari stækkun Schengen svæðisins eru þátttökuríkin orðin fimmtán. Þessi ríki eru auk Norðurlandanna fimm Austurríki, Belgía, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Auk þess taka tvö ríki, Bretland og Írland, þátt í ákveðnum hlutum samstarfsins.

Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd ásamt Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra og Birni Friðfinnssyni ráðuneytisstjóra auk embættismanna í sendiráði Íslands í Brussel. Dómsmálaráðherra sagði á fundinum að hér væri um tímamót að ræða fyrir Norðurlöndin, sem starfað hefðu náið saman á þessum vettvangi undanfarna áratugi og það stóra skref sem nú væri tekið væri rökrétt þróun á því samstarfi.

Á fundi samsettu nefndarinnar í dag voru ýmis önnur atriði til umræðu sem tengjast Schengen samstarfinu. Rætt var um drög að reglugerð sem inniheldur lista yfir þau ríki sem njóta vegabréfsáritunarfrelsis á svæðinu og lista yfir þau ríki sem eru áritunarskyld. Rætt var um samræmingu refsinga vegna smygls á ólöglegum innflytjendum og samræmingu sekta flutningsaðila sem flytja fólk sem ekki hefur undir höndum fullnægjandi ferðaskilríki. Þá var einnig fjallað um á fundinum tillögu um gagnkvæma viðurkenningu brottvísunarákvarðana og ræddar voru hugmyndir um úrbætur á Schengen upplýsingakerfinu þannig að það nýtist betur í samvinnu lögregluyfirvalda í þátttöku ríkjunum.

Dómsmálaráðherra lagði á fundinum áherslu á að öflug lögreglusamvinna væri einn mikilvægasti þáttur Schengen samstarfsins og allar hugmyndir um að efla þá samvinnu nytu mikils stuðnings Íslendinga.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
1. desember 2000.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum