Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. mars 2001 Dómsmálaráðuneytið

Svisslendingar í Schengen-samstarfið?

Fréttatilkynning
Nr. 11/ 2001


Sólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra sat fund í ráðherraráði Schengen-ríkja, sem haldinn var 15. þ.m. í Brussel. Var fundurinn haldinn undir formennsku Svía.

Á fundinum var meðal annars rætt um vaxandi straum flóttamanna og ólöglegra innflytjenda frá og í gegnum ríki á Balkanskaga. Vandinn sem af þessu stafar hefur verið til meðferðar hjá embættismannanefndum að undanförnu og hefur þegar verið gripið til aðgerða gegn honum, m.a. með því að veita landamæravörðum í Balkanríkjunum aukna aðstoð og þjálfun.

Þá var rætt um samræmingu refsinga í Schengen-ríkjunum vegna smygls á ólöglegum innflytjendum. Voru skoðanir skiptar meðal ráðherranna, en á Norðurlöndum hefur refsirammi fyrir afbrot af þessu tagi verið lægri, en í ríkjunum sunnar í álfunni.

Upplýst var á fundinum um framgang mála vegna fullrar gildistöku Schengen-samstarfsins á Norðurlöndum frá og með 25. mars n.k.

Þá þykir það tíðindum sæta, að skýrt var frá því á fundinum að Svisslendingar hefðu óskað eftir könnunarviðræðum um aðild að Schengen-samstarfinu. Hefur því verið tekið vel af Schengen-ríkjunum


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
16. mars 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum