Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. apríl 2001 Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Lyfjavottorð innan Schengen-svæðisins

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
3. apríl 2001

Sameiginlegt lyfjavottorð innan Schengen-svæðisins
Sjúklingar sem að staðaldri nota lyf sem innihalda ávana- og fíkniefni þurfa að hafa vottorð læknis á ferðum sínum innan Schengen-svæðisins. Um er að ræða fáa sjúklinga og fá lyf, en á vottorðinu skal tilgreint hvaða lyf viðkomandi einstaklingur hefur meðferðis á ferðum sínum og í hvaða magni. Vottorðið gildir í allt að 30 daga og getur tekið til nauðsynlegrar lyfjanotkunar í jafnlangan tíma.

Breytingin frá þeim reglum sem áður giltu felur í sér rýmkun þannig að þeir sem ferðast innan Schengen-svæðisins geta nú tekið með sér lyf til einkanota í allt að 30 daga, í stað 10 til 15 daga. Gaf heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra út reglugerð af þessu tilefni og er þetta gert í samræmi við 75. gr. Schengen-samningsins, sem tók formlega gildi 25. mars sl., en þar er gert ráð fyrir því að þeir sem nota viðkomandi lyf geti fyrir utanlandsferð fengið útfyllt samræmt eyðublað eða lyfjavottorð, sem gildir innan alls Schengen-svæðisins.

Lyfjavottorðin verða afgreidd af læknum um leið og hefðbundin lyfjaávísun. Þetta þýðir að þegar sjúklingur leitar læknis með símtali eða heimsókn þá biður hann um lyfjavottorð, sem læknir sendir síðan til landlæknis, sem staðfestir það samdægurs og sendir sjúklingi.

Lista yfir þau lyf sem falla undir ákvæði Schengen-samningsins vegna ferðalaga innan svæðisins, og innihalda ávana- og fíkniefni, má skoða á heimasíðu Lyfjastofnunar undir heitinu eftirritunarskyld ávana- og fíkniefni.


Hægt er að nálgast Schengen-lyfjavottorðið á heimasíðu landlæknis.






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum