Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. apríl 2001 Innviðaráðuneytið

Fundur samráðshópa um fjarkennslunet og upplýsingatækniverkefni hjá sveitarfélögum

Fundur samráðshópa um upplýsingasamfélagið 24. apríl 2001
Fjarkennslunet - Upplýsingatækniverkefni hjá sveitarfélögum



Samráðshópur ráðuneyta og Alþingis og samráðshópur sveitarfélaga, atvinnulífs, launþega o.fl. um upplýsingasamfélagið héldu sameiginlegan fund þann 24. apríl 2001. Á fundinum var fjallað um fjarkennslunet og upplýsingatækniverkefni hjá sveitarfélögum.

1. Fjarkennslunet - kynning á tillögum nefndar á vegum menntamálaráðuneytis.

Kynntar voru tillögur nefndar sem nýlega hefur skilað skýrslu til menntamálaráðherra um fjarkennslunet. Fram kom að fjarkennsla hefur stóraukist á síðustu árum og nú stunda um 1100 nemendur fjarnám á háskólastigi. Fjarkennslustaðirnir eru dreifðir um allt land og símenntunarstöðvar eru nú átta talsins. Margir skólar hafa mjög hægvirka tengingu við Internetið og fjarskiptakostnaður þeirra skóla sem hafa öflugar tengingar er mjög mikill. Nefndin leggur til að farin verði sú leið (lausn til skamms tíma) að koma strax upp IP-brú sem fylgi Internetstöðlum milli símenntunarstöðva og framhaldsskóla ásamt tengingu við rannsóknar- og háskólanetið. Þessi brú komi í stað Byggðabrúarinnar og feli í sér stóraukningu í bandbreidd.

2. Kynning á upplýsingatækniverkefnum í tveimur sveitarfélögum

Kynnt var úttekt sem Húsavíkurbær (www.husavik.is) hefur látið gera á möguleikum varðandi notkun upplýsingatækni á Húsavík. Í skýrslunni er lagt til að öll heimili, stofnanir og fyrirtæki í bæjarfélaginu verði tengd bæjarneti (smart community) og gerðar áætlanir um uppbyggingu og rekstur slíks kerfis. Áhersla er lögð á uppbyggingu rafrænnar þjónustu á vegum bæjarfélagsins.
Kynntar voru hugmyndir um Garðabæ (www.gardabaer.is) sem hátæknisamfélag og kynntar hugmyndir um uppbyggingu hátæknigarðs innan Garðabæjar sem yrði í tengslum við menntastofnanir og atvinnulíf. Í sveitarfélaginu eru unnið að því að hafa aðgengileg á vef gögn sem varða stjórnsýsluna svo sem fundagerðir, fréttir, ákvarðanir bæjarráðs og auglýsingar frá bæjaryfirvöldum. Einnig gefst íbúum kostur á að skila eyðublöðum t.d. varðandi lóðaúthlutun á rafrænu formi. Verið er að setja upp málaskrárkerfi og boðinn hefur verið út rekstur tölvukerfa á bæjarskrifstofum. Unnin hefur verið skýrsla um notkun UT í skólastarfi og í framhaldi af henni verður nú varið 25 milljónum kr. á ári til upplýsingatækniverkefna í skólastarfi. Allir grunnskólakennarar munu nú fá fartölvu til eigin nota. Tölvuþjónusta (tæknileg aðstoð) hefur verið aukin, keyptir tölvuvagnar sem keyrðir verða milli stofa og tengingar við skólana verða efldar. Ein tölva er á hverri leikskóladeild, bókasafnið býður uppá ókeypis aðgang að Interneti á nokkrum tölvum ásamt aðstoð við upplýsingaleit. Tölvunámskeið f. aldraða eru nú í fullum gangi. Stofnuð hefur verið upplýsingadeild með 2 starfsmönnum og heldur hún utan um stefnu og framkvæmd á þessu sviði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum