Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. október 2001 Innviðaráðuneytið

Fundur samráðshópa um stjórnsýslunet o.fl.

Fundur samráðshópa um upplýsingasamfélagið 11. október 2001
Hvað er á döfinni - Umfjöllun um stjórnsýslunet - Kynning á SÍH


Samráðshópur ráðuneyta og Alþingis og samráðshópur sveitarfélaga, atvinnulífs, launþega o.fl. um upplýsingasamfélagið héldu sameiginlegan fund þann 11. október 2001. Á fundinum var fjallað það sem nú er á döfinni innan stjórnsýslunnar varðandi framgang upplýsingasamfélagsins og opnuð var umræða um stjórnsýslunet. Einnig var á fundinum kynning á SÍH (Samtökum íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja).

Úrdráttur úr fundargerð:

Hvað er á döfinni

Guðbjörg Sigurðardóttir, formaður Verkefnisstórnar um upplýsingasamfélagið sagði frá verkefnum varðandi framgang upplýsingasamfélagins sem nú er unnið að innan stjórnarráðsins. Margar nefndir innan stjórnsýslunnar fjalla um málefni upplýsingasamfélagsins og þeirra á meðal er nefnd á vegum forsætisráðuneytis sem nú skoðar stjórnsýslulög en sú nefnd mun skila af sér fljótlega, nefnd um rafræn viðskipti á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis sem er að skoða rammatilskipun Evrópusambandsins um rafræn viðskipti og dreifilyklanefnd á vegum fjármálaráðuneytis. Þá er innan iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis starfandi nefnd sem vinnur að nýrri byggðaáætlun en undir þeirri nefnd starfar starfshópur sem sérstaklega fjallar um upplýsingatækni og fjarskiptamál. Einnig er að störfum fjarskiptanefnd á vegum samgönguráðuneytis sem skoðar stöðu landsbyggðar í tengslum við sölu Landsímans.

Erlent samstarf verður sífellt umfangsmeira. Erlent samstarf er m.a. norrænt samstarf og haldinn var ráðherrafundur IT ráðherra í september. Allt bendir til að rafræn stjórnsýsla verði mikilvægt forgangsverkefni í norrænu samstarfi. Eystrasaltsráðið hélt ráðherrafund IT ráðherra í lok september og samþykkti þar sérstaka aðgerðaráætlun sem lýtur að upplýsingatæknimálum. Innan Evrópusambandsins koma Íslendingar að mörgum verkefnum m.a. tekur Verkefnastjórnin beint þátt í Promise samstarfi.

Rafræn stjórnsýsla er flókið og umfangsmikið verkefni sem þarf tíma til að þróast. Það er unnið að upplýsingamiðlun m.a. fræðslu og ráðstefnuhaldi og könnun á framkvæmd hjá öðrum þjóðum og skoðað hvaða breytingar þarf að gera á lögum. Sérstök áhersla er lögð á öryggismál og innleiðingu staðla. Innan stjórnarráðins eru starfandi fastanefndir um málaskrá stjórnarráðsins og stjórnarráðsvefinn en það eru málaskrárnefnd og vefstjórn. Nú er unnið að því að skrá niður verklagsreglur í handbók ráðuneytisins og margar nýjungar eru á döfinni varðandi stjórnarráðsvefinn (www.raduneyti.is).

Stjórnsýslunet - Hvað þarf til?

Gísli Hjálmtýsson, prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík opnaði umræður varðandi um hugsanlegt stjórnsýslunet - hvað þarf til? Hann var ráðgjafi nefndar á vegum menntamálaráðuneytis um fjarskiptaþjónustu vegna fjarkennslu en sú nefnd skilaði skýrslu í maí sl. sem nálgast má á þessari vefslóð: http://forsaetisraduneyti.is/interpro/for/for.nsf/pages/wpp0364.

Gísli Hjálmtýsson fjallaði í erindi sínu um net sem væri víðtækara en stjórnsýslunet. Hann lagði áherslu á að Internetið væri eina netkerfið sem skiptir máli og bæri að ýta því að sem víðast. Mikilvægt væri að hagnýta sér gífurleg afköst nútímatækni til að ná fram hagkvæmni. Hann telur ekki hagkvæmt að smíða mörg net heldur sé mikilvægt að sameina lindirnar. Sérstaklega beri að halda sig við það einfalda og fórna frekar nýtni.

Gísli lagði áherslu á að hagkvæmast sé í netkerfum að passa AÐ NÝTNIN SÉ ALLTAF LÍTIL því þá er engin töf og engar biðraðir. Afar bagalegt er ef nýtingin er mikil og breytileg (titringur). Með titringi er átt við breytileika í biðröðinni svo sem álagstoppa. Stefna beri að því að allar biðraðir séu tómar og þar með engin töf og enginn titringur. Við slíkar aðstæður gengur vel að flytja hljóð- og myndstrauma og spila gagnvirka leiki. Kerfið þarf að hafa mikla afkastageta þ.e. mikil rýmd. Gísli sagði að há nýtni kallaði á flóknar netstýringar og flækja væri meginkostnaður allra netkerfa. Flækjan er gífurlegur þröskuldur fyrir venjulegt fólk við að nota Netið. Það getur verið stórmál að ná niður flækju varðandi Netið á meðan umframrýmd eða meiri afkastageta er tiltölulega ódýr lausn miðað við að glíma við flækjuna.
Hann benti á að saga Internetsins sýndi að það leysti öll sín vandamál með meiri afköstum. Það þyrfti meira af ljósleiðurum (fiber) og afkastameiri nethnúta og ríkara netgraf. Með ríkara netgrafi er átt við að það þyrfti að vera um margar leiðir að velja t.d ef umferð væri stöðvuð um eina leið þá myndi ekki eingöngu biðröð hlaðast upp heldur væru til hjáleiðir - á sama hátt mætti ekki allt netsamband til og frá landinu fara um sama sæstreng og fyrirsjáanlegt væri að sífellt þurfi að bæta við strengjum. Mikilvægt væri að hafa einfaldar gæðastýringar og áreiðanleika.


Gísli telur að staða Íslands sé ekki góð varðandi Internettengingar, hér er lítið af ljósleiðurum í jörðu, ónógir nethnútar og takmörkuð grannfræði, sérstaklega ef farið er út fyrir Reykjavíkursvæðið og varðandi samband við útlönd en þar er eingöngu nú um einn streng að ræða. Hann lagði til að sameina ætti lindir eftir megni - ekki smíða fullt af litlum netum, það veldur lélegri þjónustu. Þannig sé ekki hagkvæmt að smíða sérstakt stjórnsýslunet heldur eigi að búa til risastórt net sem allir noti - ekki eigi að brjóta upp bandvíddina. Boðskapurinn sé að ef við höfum kerfið nógu stórt þá eru mestar líkur til að við fáum það sem við viljum þegar við viljum. Gísli ræddi benti á að þó Internetmælingar sýni að margir Íslendingar hafi aðgang að Interneti þá sé augljóst að öll notkun Internets á Íslandi í dag ber með sér að við höfum svona örlitla bandbreidd.

Kynning á SÍH - Samtökum íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja
Guðmundur Ásmundsson, framkvæmdastjóri SÍH - Samtaka íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja kynnti starfsemi samtakanna. Fram kom að samtökin hyggjast fara í stefnumótun í byrjun næsta árs og huga að framtíðarsýn. Guðmundur gerði grein fyrir skipulagi SÍH innan Samtaka iðnaðarins en starfsemi samtakanna snýr aðallega að almennum starfsskilyrðamálum. Vefur SÍH er www.ut.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum