Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. mars 2002 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Málþing um samgönguáætlun 2003-2014

Fréttatilkynning frá samgönguráðuneyti vegna málþings um samgönguáætlun 2003-2014 á Hótel Lofleiðum.


Málþing um samgönguáætlun 2003-2014

Mánudaginn 25. mars sl. var haldið málþing á Hótel Loftleiðum um uppbyggingu og rekstur samgangna á Íslandi og hófst það kl. 13 með setningu samgönguráðherra Sturlu Böðvarssonar. Fram kom í setningarræðu ráðherra að samgöngukerfi hverrar þjóðar væri forsenda fyrir styrku efnahagslífi og traustu velferðarkerfi og að það skipti miklu máli fyrir Íslendinga að byggja hratt upp samgöngukerfið og ná sem mestum árangri á sem skemmstum tíma. Ráðherra nefndi einnig að löggjöf um samgönguáætlun liggur nú til lokaafgreiðslu á Alþingi og í haust verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun og að hún muni ná til allra þátta samgöngumála.

Málþingið var haldið vegna undirbúnings að gerð samgönguáætlunar fyrir árin 2003-2014 í framhaldi af tillögum og skýrslu sem stýrihópur skilaði til samgönguráðherra í desember sl. Á málþinginu var leitað eftir sjónarmiðum sem flestra, þ.m.t. atvinnuveganna, sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila. Nokkrir frummælendur héldu stutt erindi og fjölluðu um samgönguáætlun frá ýmsum hliðum. Málþingið var afar vel sótt og fóru fram gagnlegar umræður þar sem mörg sjónarmið komu fram.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður stýrihóps um gerð tillögu að samgönguáætlun, gerði grein fyrir megináherslum samgönguáætlunar. Axel Hall sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fjallaði um ferli, uppbyggingu og efnistök við gerð áætlunar. Hann vakti sérstaka athygli á því markmiði áætlunar að hagkvæmnissjónarmið skuli ráða við uppbyggingu og rekstur samgangna og benti á nokkur dæmi í því sambandi. Í máli hans kom fram að víða erlendis væri unnið að því að breyta gjaldtöku af samgöngum og færa yfir í kílómetragjald.

Ólafur Erlingsson verkfræðingur og Baldur Guðnason framkvæmdastjóri fluttu erindi um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Í máli Baldurs komu fram þau sjónarmið að ná mætti hagræðingu með því að taka upp meiri samvinnu við flutninga og afgreiðslu vöru, sem væri nauðsynlegt í svo smáu hagkerfi og hér væri. Viðskiptavinir myndu leita hagkvæmustu leiða við flutninga og skipti hraði og tíðni þar miklu máli. Hins vegar væri hagkvæmast að flytja þungavöru á sjónum.

Jack Short, framkvæmdastjóri Samtaka evrópskra samgönguráðherra (European Conference of Transport Ministers) fjallaði um íslenska samgönguáætlun og bar saman við áætlanir annarra þjóða. Hann er fæddur á Írlandi og vann lengi hjá írska samgönguráðuneytinu áður en hann hóf störf hjá OECD í París þar sem hann hefur starfað undanfarin 18 ár. Jack Short hefur tvær meistaragráðu, aðra í stærðfræði og hina hagfræði. Hann var kosinn framkvæmdastjóri Samtaka evrópskra samgönguráðherra fyrir ári síðan.

Í máli hans kom fram að markmið í tillögum stýrihóps væru skýr og einnig væri mjög gott að vinna áætlanir til svo langs tíma sem raun bæri vitni. Þá sagði hann nauðsynlegt að setja skýran ramma utan um almenningssamgöngur og aðkomu ríkisins að þeim. Loks minnti hann á að ekki mætti hvika frá markmiði áætlunarinnar að leita hagkvæmustu leiða við nýtingu fjármagns til samgangna.

Fulltrúar fjögurra samgöngufyrirtækja ræddu um áherslur, kosti og galla samgönguáætlunar frá sjónarhóli atvinnugreinarinnar. Jón Karl Ólafsson formaður samgöngunefndar Samtaka ferðaþjónustunnar sagði nauðsynlegt að taka mið af hinni miklu fjölgun ferðamanna sem von væri á við uppbyggingu samgöngukerfisins. Sérstaka áherslu þyrfti að leggja á öryggismál þeirra sem ækju um á bílaleigubílum og merkingar á þjóðvegum. Þá sagði hann nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um framtíð flugvallarins í Reykjavík svo fyrirtæki vissu hvað framtíðin bæri í skauti sér við framtíðaráætlanir sínar.

Í lok málþingsins voru pallborðsumræður og fyrirspurnir en stjórnandi þeirra var Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður. Flugmálastjóri, forstjóri Siglingastofnunar, vegamálastjóri auk Einars K. Guðfinnssonar, nýskipaðs formanns Ferðamálaráðs, svöruðu fram komnum ábendingum og athugasemdum. Í máli þeirra kom fram að þeir hefðu alls ekki átt von á hinum miklu jákvæðu viðbrögðum við gerð samgönguáætlunar sem fram komu á málþinginu. Það væri hvati til þess að halda áfram á þessari braut og gott veganesti fyrir vinnu við þingsályktunartillögu sem áætlað er að leggja fram í haust.

Nálgast má fljótlega glærur og nokkur erindi málþingsins á vef samgönguráðuneytisins. Fundarstjóri málþingsins var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira