Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. apríl 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing á vegum félagsmálaráðuneytis og Barnaheilla

Sameinuðu þjóðirnar munu í maí 2002 beina sjónum sínum að aðstæðum barna. Dagana 5.–7. maí verður haldið Barnaþing í New York sem eingöngu er ætlað börnum. Í framhaldi verður haldið Aukaallsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna með þátttöku fjölmargra þjóðarleiðtoga. Félagsmálaráðherra mun sækja Aukaallsherjarþingið ásamt m.a. tveimur íslenskum börnum sem einnig munu sækja Barnaþingið.

Af þessu tilefni boðar félagsmálaráðuneytið í samvinnu við Barnaheill til málþings um réttindi barna á Íslandi þar sem sjónum verður einnig beint að börnum í alþjóðlegu samhengi.

Aðstæður íslenskra barna eru að mörgu leyti ólíkar aðstæðum barna annars staðar í veröldinni. Börn búa víða við ákaflega kröpp kjör og mikla fátækt, þjást af hungri og sjúkdómum og í nokkrum heimshlutum búa börn við stöðug stríðsátök og njóta ekki skólagöngu. Veruleiki íslenskra barna er annar og ekki eins harðneskjulegur. Umhverfi þeirra er þrátt fyrir það ekki alltaf eins og best verður á kosið og um það verður fjallað á málþinginu þann 30. apríl nk.

Á málþinginu verður leitast við að draga fram í dagsljósið nokkur atriði sem áhrif hafa á aðstæður íslenskra barna og spurt er hvort æskan þurfi sérstaka vernd, einkum með tilliti til frelsis annars vegar og ásóknar fjölmiðla og markaðarins í börnin hins vegar. Málþingið hefst með umræðu um börn í alþjóðlegu samhengi. Síðan verður fjallað um stöðu fjölskyldunnar og um aðstæður foreldra til að koma börnum sínum til manns í nútímasamfélagi. Fjallað verður sérstaklega um hugtakið frelsi í tengslum við uppeldi barna. Þá verður litið út fyrir heimilin og ytra umhverfið skoðað út frá skólanum, félagahópnum og félagslífi krakka. Að lokum verður sjónum beint að rétti barna til verndar og aðstoðar, börn og ungmenni munu fjalla um áhrif fjölmiðla á líf þeirra og fjallað verður um ungmenni og kynlíf og heilbrigðan lífsstíl.

Málþingið hefst með ávarpi félagsmálaráðherra en fyrirlesarar verða Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, Guðbjörg Björnsdóttir, formaður Barnaheilla, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason, prófessorar við HÍ, Sigurður Guðmundsson, landlæknir, Valgerður S. Jónsdóttir, skólastjóri, Dagbjört Ásbjörnsdóttir, mannfræðingur, Stefán Karl Stefánsson, leikari, framhaldsskólanemarnir Haukur Sigurðsson og Íris Ósk Traustadóttir, fulltrúar Íslands á Barnaþingi Sameinuðu þjóðanna, Eva Rós Ólafsdóttir, J. Martin L.S., Karen D. Þórhallsdóttir, Karen E. Smáradóttir, Lára Ó. Hjörleifsdóttir og Sólveig Skaftadóttir.

Skráning á málþingið fer fram í félagsmálaráðuneyti í síma 545 8100 og á heimasíðu ráðuneytisins hér.

Aðgangseyrir er 1.000 kr.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum