Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. apríl 2002 Innviðaráðuneytið

Ráðstefna SARÍS um rafræn viðskipti

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra




"Rafræn viðskipti: tækifæri eða tálsýn",


Ávarp á ráðstefnu SARÍS, samráðs um rafrænt Ísland,
17. apríl 2002.


Ágætu ráðstefnugestir.

Mér er það sérstök ánægja að fá að vera með ykkur hér í dag og setja þessa fyrstu ráðstefnu SARÍS, samráðs um rafrænt Ísland. Vettvangurinn SARÍS varð til í samstarfi fjögurra samtaka sem láta sig upplýsingatækni og rafræn viðskipti varða. Þessi samtök eru Skýrslutæknifélag Íslands, EAN á Íslandi, ICEPRO, nefnd um rafræn viðskipti og Staðlaráð Íslands/FUT. Einnig situr starfsmaður iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins fundi stýrihóps SARÍS sem tengiliður á milli hins opinbera og SARÍS. Sameiginleg skoðun samtakanna og um leið kjarni samstarfsins er að sameinaðir kraftar og samræmd vinnubrögð, staðlar og stefna í upplýsingatæknimálum atvinnulífs og hins opinbera, geti orðið til þess að Ísland verði í fararbroddi með þeim þjóðum sem við berum okkur saman við.

Ég fagna því að SARÍS hafi verið sett á laggirnar. Við Íslendingar erum svo fá að við höfum ekki efni á því að dreifa kröftum okkar um of. Því er það sérstakt fagnaðarefni að fjögur samtök sem starfað hafa á sviði rafrænna viðskipta myndi sameiginlegan vettvang. Slíkt samstarf er klárlega til þess fallið að fleyta okkur lengra í innleiðingu rafrænna viðskiptahátta. Ég hef, í gegnum starfsmann ráðuneytisins sem situr stýrifundi SARÍS, fylgst með fyrstu skrefum vettvangsins og mér þykja þau lofa góðu. Einnig sýnir þessi metnaðarfulla ráðstefna hér í dag að SARÍS ætli sér stóra hluti. Sérstaklega þykja mér áhugaverðir þeir spurningalistar sem hér liggja frammi og mun fylgjast með því hvaða svör koma fram. Hvet ég því þátttakendur á ráðstefnunni til að gefa sér tíma til að fylla þá út - því orð eru til alls fyrst!

Í starfi mínu sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra hef ég lagt áherslu á að stuðla að rafrænum viðskiptum, m. a. með því að búa þeim hagstætt lagalegt umhverfi. Í því sambandi tel ég mikilvægt að lagaákvæði á þessu sviði séu skýr og að ekki verði settar íþyngjandi sérreglur á sviði rafrænna viðskipta, nema brýna nauðsyn beri til.

Á árinu 1999 lét viðskiptaráðuneytið gera skýrslu um rafræn viðskipti og lagaumhverfi þess. Niðurstaða hennar var að íslensk lög væru að meginstefnu til fullnægjandi en að huga þyrfti að þróuninni í Evrópu og í heiminum öllum við setningu frekari reglna á sviði rafrænna viðskipta. Þá þyrfti að tryggja gildi rafrænna samninga, sérstaklega þegar lög kvæðu á um að samningur þyrfti að vera skriflegur til að vera gildur að lögum. Skýrslan var notuð til frekari stefnumótunar á þessu sviði.

Í fyrra var samþykkt á Alþingi frumvarp til laga um rafrænar undirskriftir, sem ég hafði lagt fram. Lögin um rafrænar undirskriftir marka grundvöll að notkun rafrænna undirskrifta og vottorða. Lögin kveða á um þá meginreglu að fullgild rafræn undirskrift sé ætíð jafngild handritaðri, þegar krafist er undirskriftar í lögum, reglugerðum eða með öðrum hætti.

Lögin mæla einnig fyrir um eftirlit með þeim aðilum sem gefa út fullgild vottorð og skaðabótaábyrgð þeirra. Vert er að undirstrika að lögin opna einnig fyrir það að aðrar rafrænar undirskriftir en fullgildar geti uppfyllt kröfu um skriflega undirskrift.


Þá lagði ég á yfirstandandi þingi fram frumvarp til laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Það frumvarp var samþykkt sem lög frá Alþingi fyrir viku síðan. Lögin hafa það að markmiði að skýra réttarstöðu þeirra sem veita rafræna þjónustu, en innan hennar getur til dæmis fallið upplýsingaþjónusta og sala á Netinu.

Meginstoðir lagana eru fjórar. Í fyrsta lagi er kveðið á um að íslensk stjórnvöld skuli hafa eftirlit með þeim veitendum rafrænnar þjónustu sem hafa staðfestu hér á landi, þ.e. stunda hér virka atvinnustarfsemi, ótímabundið, í fastri starfsstöð. Í öðru lagi er kveðið á um þær upplýsingar sem þjónustuveitendum ber að veita t.d. á heimasíðum sínum. Bæði er hér kveðið á um almenna upplýsingagjöf og upplýsingagjöf í tengslum við pöntun. Í þriðja lagi er kveðið á um þá meginreglu að rafrænir samningar séu jafngildir skriflegum. Í fjórða lagi er kveðið á um takmörkun ábyrgðar þeirra þjónustuveitenda sem veita aðgang t.d. að Netinu og hýsa gögn sem þar er dreift.

Ég er þess sannfærð að lög þessi koma til með að skýra réttarstöðu þeirra sem stunda rafræn viðskipti, ekki hvað síst varðandi spurninguna um hvaða lögum eigi að beita á starfrækslu þeirra.


Auk þess að semja frumvörp hefur ráðuneytið átt fulltrúa í svokallaðri dreifilyklanefnd sem gerði tillögur að innleiðingu rafrænna undirskrifta í stjórnsýslunni. Sú nefnd hefur nú lokið störfum en unnið er að því innan stjórnarráðsins að marka næstu skref og hefur í því sambandi verið litið til þess möguleika að setja af stað tilraunaverkefni á sviði rafrænnar stjórnsýslu sem nýta myndi rafrænar undirskriftir. Slíkt verkefni myndi og vera til þess fallið að stuðla að innleiðingu rafrænna viðskiptahátta í þjóðfélaginu almennt.

Góðir ráðstefnugestir!

Því er ekki að neita að niðursveifa á mörkuðum og gjaldþrot vefverslana hefur dregið úr þeirri trú sem menn hafa á rafrænum viðskiptaháttum. Ég tel hins vegar að margt megi læra af reynslunni og að hún sýni að rafrænir viðskiptahættir borgi sig. Hins vegar er mikilvægt að skoða fortíðina og læra af henni, en horfa jafnframt bjartsýn fram á veginn.

Í könnunum sem gerðar hafa verið hefur komið fram að fyrirtæki hafa hagnast á rafrænum viðskiptalausnum. Þá kemur fram í rannsókn á vegum Harvard háskóla sem gerð var á síðasta ári að Ísland var í öðru sæti þegar kom að hæfni landa til að nýta sér rafræn samskipti. Var í því sambandi bæði litið til þeirrar tækni sem þegar er við lýði og þeirrar tækniþekkingar sem til staðar er í landinu. Ísland var þar í öðru sæti af 75 löndum, næst á eftir Bandaríkjunum. Þetta eru í raun stórtíðindi og mikil hvatning fyrir okkur Íslendinga.

Einnig tel ég að við höfum skýrt lagaumhverfi sem leggi ekki hindranir í veg rafrænna viðskiptahátta.

Að öllu þessu virtu, hvet ég alla til að taka það til alvarlegrar skoðunar hvort ekki sé rétt að nýta tæknina hér á landi, þekkinguna og lagaumhverfið til að innleiða rafræna viðskiptahætti, fyrirtækjum til hagsbóta.

Um leið og ég set þessa ráðstefnu, hvet ég þátttakendur að taka virkan þátt í ráðstefnunni og koma sjónarmiðum sínum á framfæri, bæði í gegn um þá spurningalista sem hér liggja frammi, sem og í þeim samstarfshópum sem stefnt er að að mynda á vegum SARÍS. Þannig geta menn haft áhrif á þróunina á Íslandi á sviði rafrænna viðskipta.

Að lokum óska ég ykkur góðs gengis í vinnu ykkar í dag. SARÍS óska ég til hamingju með ráðstefnuna - megi hún verða fyrsta skrefið í göngu til góðs!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum