Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. maí 2002 Dómsmálaráðuneytið

Leiðbeiningar um tilhögun atkvæðagreiðslu utan kjörfundar

Leiðbeiningar um tilhögun atkvæðagreiðslu
utan kjörfundarKjósandi sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi hefur heimild til að greiða atkvæði utan kjörfundar eftir þeim reglum sem settar eru í kosningalögum.

Kosningu utan kjörfundar skal hefja svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, þó eigi fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Eftir þann tíma og til kjördags á kjósandi rétt á að greiða atkvæði utan kjörfundar. Atkvæðið telst greitt þann dag sem fylgibréfið er dagsett.

Kjósanda sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlaða er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Með sama hætti fer um fangelsi og vistmenn þar.

Kjósanda sem ekki getur sótt fund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun samkvæmt framangreindu. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans og hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 16 fjórum dögum fyrir kjördag. Kjörstjóri getur í sinn stað tilnefnt tvo trúnaðarmenn til að sjá um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar hjá kjósanda.

Kjörstjóri auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar. Skal haga framkvæmd og afgreiðslutíma þannig að kosning geti gengið sem greiðast fyrir sig. Atkvæðagreiðsla á stofnun skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar.

Um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á stofnun eða í heimahúsi gilda sérstakar leiðbeiningar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl. Tilkynna skal umboðsmönnum lista um hvenær atkvæðagreiðsla á stofnun fer fram.

Ef kjörstjóri er í framboði skal hann víkja sæti og annar þar til bær gegna störfum hans.
Ekki má atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fara fram á heimili frambjóðanda.

Kjörgögn til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eru: kjörseðill, kjörseðilsumslag, fylgibréf og sendiumslag, svo og stimplar með listabókstöfum.

Kosning utan kjörfundar er því aðeins gild að notuð séu hin fyrirskipuðu kjörgögn.

Kosningin fer svo fram að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðilinn bókstaf þess lista sem hann vill kjósa og má hann geta þess hvernig hann vill hafa röðina á listanum.

Kjósandi sem greiða vill atkvæði utan kjörfundar skal gera kjörstjóra grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Kjörstjóri skal halda sérstaka skrá yfir þá sem greiða atkvæði hjá honum.

Að þessu loknu fær kjósandi afhent kjörgögn. Skal hann síðan aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn. Kosningin fer svo fram að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðilinn bókstaf þess lista sem hann vill kjósa og má hann geta þess hvernig hann vill hafa röðina á listanum. Að því búnu setur kjósandi kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið, og áritar og undirritar síðan fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna.

Ef kjósandi skýrir kjörstjóra svo frá að hann sé eigi fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi, enda er hann bundinn þagnarheiti um að skýra ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina skal geta á skrá þeirri sem kjörstjóri heldur og á fylgibréfinu, að tilgreindum ástæðum. Aðstoð við að árita kjörseðil skal því aðeins veitt að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða þeim aðstoð er þannig þarfnast hjálpar.

Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendiumslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til hreppstjórans, sýslumannsins eða kjörstjórnarinnar í því umdæmi þar sem kjósandi telur sig standa á kjörskrá. Á sendiumslagið skal og rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili.

Nú ónýtist kjörseðill hjá kjósanda og má hann fá annan kjörseðil í stað hins.

Kjósandi sem greiðir atkvæði hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem hann er á kjörskrá og skilur þar eftir bréf með atkvæði sínu, skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn og er umboðsmönnum lista heimilt að setja á hann innsigli sín.

Aðrir kjósendur skulu sjálfir annast og kosta sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.

Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.

Kjörstjóri skal færa á sérstaka skrá nöfn þeirra kjósenda sem greiða atkvæði hjá honum, kennitölu þeirra og lögheimili og hvern dag kosningarathöfnin fór fram.

Atkvæðisbréf sem kjósandi skilur eftir hjá kjörstjóra skal kjörstjóri tölusetja og skrá í áframhaldandi töluröð. Atkvæðisbréf sem kjörstjóri veitir móttöku skal hann skrá og tölusetja með sama hætti og skal þess getið frá hvaða kjósanda það sé og hvenær og af hverjum það hafi verið afhent. Skulu bréf þessi varðveitt í atkvæðakassanum.

Atkvæðakassa ásamt skrám sendir kjörstjóri síðan hlutaðeigandi kjörstjórn svo tímanlega að kassinn sé kominn henni í hendur áður en kjörfundur er settur.

Umboðsmenn lista skulu hafa aðgang að skrám þeim sem kjörstjórn heldur.

Kjósandi getur jafnan krafist þess af hverjum þeim er varðveitir bréf með atkvæði hans, sé það ekki varðveitt í innsigluðum atkvæðakassa, að hann afhendi sér það, allt þarf til atkvæðið hefur verið tekið gilt af undirkjörstjórn.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira