Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Íbúatala að baki hverri barnaverndarnefnd

Ráðuneytið hefur sent öllum sveitarfélögum á landinu bréf þar sem vakin er athygli á því að íbúatala að baki hverri barnaverndarnefnd skuli ekki vera undir 1.500.

Vakin er sérstök athygli sveitarstjórna á þeim nýmælum í 10. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, að samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaga að baki hverri barnaverndarnefnd skal ekki vera undir 1.500.

Hafi sveitarstjórn ekki skipað barnaverndarnefnd samkvæmt lögunum að fjórum mánuðum liðnum frá sveitarstjórnarkosningum getur félagsmálaráðherra áminnt sveitarfélögin og veitt þeim einn mánuð til úrbóta., sbr. 4. mgr. 11. gr. laganna.

Félagsmálaráðherra getur veitt undanþágu frá skilyrði laganna um 1.500 manna íbúafjölda ef samanlagður íbúafjöldi er nálægt því að vera 1.500 og landfræðilegar og aðrar aðstæður eru með þeim hætti að óhagkvæmt eða torvelt er að ná þeim íbúafjölda, sbr. 4. mgr. 11. gr. laganna.

Nú sem fyrr er sveitarstjórn heimilt að fela félagsmálanefnd störf barnaverndarnefndar. Um kjör nefndarinnar og íbúafjölda gilda þá sömu reglur og um barnaverndarnefnd, sbr. 4. mgr. 10. gr. laganna.

Ráðuneytið hefur sent Sandgerðisbæ bréf þess efnis að óheimilt er að veita Sandgerðisbæ undanþágu frá skilyrðinu um að 1.500 íbúar skuli vera að baki barnaverndarnefnd.

Vísað er til bréfs Sandgerðisbæjar til ráðuneytisins, dags. 26. júní 2002, þar sem sótt er um undanþágu frá ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 10. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, um að íbúafjöldi að baki hverri barnaverndarnefnd skuli ekki vera undir 1.500. Umsókn um undanþágu byggist á 5. málsl. 4. mgr. 11. gr. laganna, en þar segir svo um þetta atriði:
"Félagsmálaráðherra getur enn fremur veitt undanþágu frá 3. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna ef samanlagður íbúafjöldi er nálægt því að vera 1.500 og landfræðilegar og aðrar aðstæður eru með þeim hætti að óhagkvæmt eða torvelt er að ná þeim íbúafjölda."

Þau rök sem Sandgerðisbær færir fram í umsókn sinni um undanþágu frá 1.500 manna markinu eru eftirfarandi:
1. Íbúatala Sandgerðisbæjar er 1.400 um síðustu áramót og fer vaxandi.
2. Ráðinn hafi verið vel menntaður félagsmálastjóri til bæjarins sem sér um barnaverndarstarfið í bænum.
3. Engar kærur eða áminningar hafa borist bænum varðandi þennan viðkvæma málaflokk.

Af þessu tilefni tekur ráðuneytið fram:

Markmiðið með því að setja í lög ákvæði um þann lágmarksfjölda íbúa sem vera skal að baki hverri barnaverndarnefnd er að efla og styrkja barnaverndarstarf í landinu eins og kostur er. Í samræmi við það eigi að leitast við að barnaverndarnefndir sameinist á sem allra stærstum grundvelli.

Hin nýju barnaverndarlög gera miklar kröfur til faglegra vinnubragða og formlegrar málsmeðferðar. Vakin er sérstök athygli á því að sjónarmiðið um nálægð við íbúana, sem oft er vitnað til á sviði sveitarstjórnarmálefna, á síður við um barnaverndarstarf, en aðra málaflokka á vegum sveitarfélaga. Þannig er viss fjarlægð við íbúana nauðsynleg vegna eðli þeirra viðkvæmu mála sem barnaverndarstarfið snýst um. Því er talið heppilegt að formlegt ákvörðunarvald sé eins fjarlægt íbúunum og kostur er. Í því sambandi er bent á kjördæmi eða sýslu sem æskilegan grundvöll, enda hamli samgöngur eða landfræðilegar aðstæður því ekki. Vegna landfræðilegra staðhátta í landinu þótti þó ekki rétt að setja lágmarkið hærra en 1.500 íbúa að þessu sinni. Þar voru hinar dreifðu byggðir í sveitum landsins einkum hafðar í huga. Jafnframt var undanþáguheimildin frá lágmarkinu um 1.500 íbúa fyrst og fremst hugsuð út frá slíkum byggðarlögum, enda hafi þá áður verið sýnt fram á sameiningu barnaverndarnefnda, sbr. orðalag ákvæðisins "samanlagður íbúafjöldi" (undirstrikun ráðuneytisins) og íbúafjöldinn þá nálægt 1.500. Skilyrði fyrir undanþágu eru þannig tvö, annars vegar að samanlagaður íbúafjöldi í viðkomandi sveitarfélögum sé nálægt 1.500 og hins vegar að landfræðilegar aðstæður og aðrar aðstæður torveldi því að 1.500 manna lágmarkið náist.

Á Suðurnesjum er ljóst að samgöngur eru góðar og fjarlægðir litlar. Undanþáguákvæðið um landfræðilegar aðstæður á því ekki við í þessu máli. Ekki hefur verið bent á hvaða "aðrar aðstæður" hamli sameiningu barnaverndarnefndar Sandgerðisbæjar við nágrannasveitarfélag, t.d. Reykjanesbæ.

Með vísun til þess sem að framan er rakið, og með vísan til undanþáguákvæðis 5. málsl. 4. mgr. 11. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er niðurstaða ráðuneytisins sú að íbúafjöldi Sandgerðisbæjar, um 1.400 manns, sé ekki næg ástæða fyrir undanþágu frá 1.500 íbúa lágmarkinu. Ráðuneytið telur sér því ekki heimilt að verða við beiðni Sandgerðisbæjar um undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 10. gr. barnaverndarlaga um að íbúafjöldi að baki hverri barnaverndarnefnd skuli ekki vera undir 1.500.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum