Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 122 um stefnu í atvinnumálum

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 122 um stefnu í atvinnumálum

Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, saman komið til 48. þingsetu sinnar í Genf hinn 17. dag júnímánaðar 1964, samkvæmt kvaðningu stjórnar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, vísar til þess að Philadelphíuyfirlýsingin viðurkennir þá hátíðlegu skyldu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að efla starfsemi þá og viðleitni meðal þjóða heimsins, sem miðar að því að tryggja öllum nægjanlega atvinnu og bæta lífskjör fólks. Þá vísar þingið til þess að inngangur að stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar felur í sér ákvæði, sem ganga í þá átt að komið verði í veg fyrir atvinnuleysi og að tryggð verði laun til hæfilegrar lífsafkomu.

     Þá vísar þingið til þess að samkvæmt ákvæðum Philadelphíuyfirlýsingarinnar er það eitt af verkefnum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að rannsaka og íhuga hver áhrif stefnan í efnahags- og fjármálum hefur á stefnuna í atvinnumálum, í ljósi þess grundvallarmarkmiðs að „allir menn, án tillits til kynþáttar, trúar eða kyns, eiga rétt til þess að efla efnahagslega velmegun sína og andlegan þroska við aðstæður frelsis og virðingar, efnahagslegs öryggis og jafnra tækifæra til handa öllum.“

     Þingið vísar enn fremur til þess að alþjóðlega mannréttindayfirlýsingin kveður svo á að „allir menn skuli eiga rétt á að stunda vinnu, til að ráða því hvaða starf þeir taka sér fyrir hendur, að þeir skuli eiga rétt á að starfa við réttlátar og hagstæðar aðstæður og að þeir eigi rétt á vernd gegn atvinnuleysi.“

     Þingið bendir á að ákvæði gildandi samþykkta og tillagna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa bein áhrif á stefnu í atvinnumálum, sérstaklega ákvæði Samþykktar og Tillögu um vinnumiðlun frá 1948, Tillögu um starfsfræðslu frá 1949, Tillögu um iðnfræðslu frá 1962 og Samþykktar og Tillögu frá 1958 varðandi mismunun í atvinnu og starfi.

     Lítur þingið svo á að þessar samþykkir og tillögur eigi að notfæra sem lið í umfangsmeiri alþjóðlegri áætlun um aukinn hagvöxt á grundvelli nægrar og arðbærrar atvinnu, eftir frjálsu vali.

     Því hefur þingið samþykkt ákveðnar tillögur varðandi stefnu í atvinnumálum, en tillögur þessar voru 8. mál á dagskrá þingsins, og þar sem þingið hefur jafnframt ákveðið að tillögur þessar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar, gerir þingið í dag, hinn 9. júlí 1964, eftirfarandi samþykkt, sem nefnist Samþykkt um stefnu í atvinnumálum, 1964:


l. gr.

1. Í þeim tilgangi að efla hagvöxt og efnahagsþróun, bæta lífskjör, uppfylla þörfina fyrir vinnuafl og vinna bug á þeim vandamálum, sem stafa af atvinnuleysi og of lítilli atvinnu, skal sérhvert aðildarríki lýsa því yfir sem meginmarkmiði að framfylgja virkri stefnu, er miði að því að veita öllum næga, arðbæra atvinnu eftir frjálsu vali.

2. Fyrrgreind stefna skal miða að því að tryggja —

     a. atvinnu handa öllum þeim, sem eftir vinnu leita,

     b. að slík atvinna sé eins arðbær og mögulegt er,

     c. frelsi í vinnuvali og jafnframt að sérhver starfsmaður hafi sem víðtækust tækifæri til þess að afla sér þjálfunar og sérmenntunar og til þess að nota hæfni sína og gáfur við þau störf, sem honum henta vel, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kyns, trúar, stjórnmálaskoðunar og þjóðernislegs eða félagslegs uppruna.

3. Fyrrgreind stefna skal miðast við það stig efnahagsþróunar, sem fyrir hendi er og það gagnkvæma samband, er ríkir milli stefnunnar í atvinnumálum, annars vegar, og stefnunnar í efnahags- og félagsmálum, hins vegar. Einnig skal framkvæmd hennar hagað á þann veg, að slíkt samræmist aðstæðum og venjum í hverju einstöku landi.


2. gr.

     Sérhvert aðildarríki skal, á þann hátt og að því marki, sem samræmist aðstæðum þeim, er fyrir hendi eru —

     a. ákveða, innan takmarka samræmdrar stefnu á sviði efnahags- og félagsmála, hvaða ráðstafanir skuli gera til að ná því markmiði, sem tilgreint er í 1. gr., og skulu þær ráðstafanir endurskoðaðar öðru hverju;

     b. grípa til þeirra úrræða, sem þörf er á, til að hrinda slíkum ráðstöfunum í framkvæmd, þar með talin gerð áætlana, þegar slíkt þykir við eiga.


3. gr.

     Við framkvæmd ákvæða þessarar samþykktar skal haft samráð við fulltrúa þeirra, sem þau varða og einkum skal haft samráð við fulltrúa vinnuveitenda og vinnuþega varðandi stefnuna í atvinnumálum í því skyni að taka fullt tillit til reynslu þeirra og skoðana, og til þess að tryggja fullkomna samvinnu þeirra í mótun slíkrar stefnu og þeirri viðleitni að vinna henni fylgi.


4.–11. gr.

     Þessar greinar eru samhljóða gr. 20–27 í samþykkt nr. 120 (fylgiskjal I).

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum