Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 155 um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 155 um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi

Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 67. þingsetu sinnar í Genf 3. júní 1981 eftir kvaðningu stjórnar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,

     hefur samþykkt ákveðnar ábendingar varðandi öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, sem er sjötta mál á dagskrá þessa þings, og

     þar sem þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar, gerir það í dag 22. júní 1981 eftirfarandi samþykkt, sem nefnist Samþykkt um öryggi og heilbrigði við vinnu, 1981:

  

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

     1. Þessi samþykkt tekur til allra atvinnugreina.

     2. Að höfðu samráði, svo snemma sem verða má, við aðalsamtök hlutaðeigandi atvinnurekenda og starfsmanna getur aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, undanskilið framkvæmd hennar að nokkru eða öllu leyti einstakar atvinnugreinar svo sem siglingar eða fiskveiðar, þar sem slík framkvæmd er sérstökum vandkvæðum bundin.

     3. Hvert það aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skal í fyrstu skýrslu um framkvæmd hennar, sem gefin er skv. 22. grein stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, skrá þær atvinnugreinar, sem kunna að hafa verið undanskildar í samræmi við 2. málsgrein þessarar greinar og skýra frá ástæðum fyrir því. Enn fremur skulu þau lýsa þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að veita starfsmönnum í undanskildum greinum nægilega vernd og í síðari skýrslum skal skýra frá þeirri þróun, sem orðið hefur í átt til víðtækari framkvæmda.


2. gr.

     1. Samþykkt þessi gildir um alla starfsmenn í þeim atvinnugreinum, sem hún tekur til.

     2. Að höfðu samráði við aðalsamtök hlutaðeigandi atvinnurekenda og starfsmanna, sem eigi sér stað svo snemma sem við verður komið, getur aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, undanskilið framkvæmd hennar að nokkru eða öllu leyti takmarkaða flokka starfsmanna vegna sérstakra annmarka varðandi þá.

     3. Hvert það aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt skal í fyrstu skýrslu um framkvæmd hennar sem gefin er skv. 22. grein stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, tilgreina sérhvern takmarkaðan flokk starfsmanna, sem kann að hafa verið undanskilinn skv. 2. málsgrein þessarar greinar. Gera skal það grein fyrir ástæðum slíkra undanþága og í síðari skýrslum skal það skýra frá hverri þeirri framför sem orðið hefur til víðtækari framkvæmda samþykktarinnar.


3. gr.

     Í þessari samþykkt:

a. tekur orðið „atvinnugreinar“ til allra greina, sem starfsmenn vinna í, þar með talin opinber þjónusta;

b. tekur orðið „starfsmenn“ til allra sem eru í atvinnu þar með taldir opinberir starfsmenn;

c. tekur orðið „vinnustaður“ til allra staða sem starfsmenn þurfa að vera á eða fara til vegna vinnu sinnar og eru undir beinni eða óbeinni stjórn atvinnurekandans;

d. tekur orðið „reglugerðir“ til allra ákvæða, sem hlutaðeigandi stjórnvald eða stjórnvöld hafa veitt lagagildi;

e.  táknar orðið „heilbrigði“ í sambandi við vinnu ekki einungis að ekki sé um að ræða sjúkdóma eða veikindi. Það tekur einnig til líkamlegra og sálrænna þátta, sem áhrif hafa á heilsu manna og beinlínis tengjast öryggi og heilbrigði við vinnu.

    

II. KAFLI

Meginreglur í stefnuskrá.

4. gr.

     1. Með tilliti til aðstæðna og venju í landinu og í samráði við aðalsamtök atvinnurekenda og starfsmanna, skal sérhvert aðildarríki semja og framkvæma samfellda stefnuskrá varðandi öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi og endurskoða hana á vissum fresti.

     2. Markmið stefnuskrárinnar skal vera að koma í veg fyrir slys og heilsutjón, sem orsakast af eða er í tengslum við vinnu eða verður meðan hún fer fram með því svo sem með góðu móti er unnt að draga úr orsökum þeirrar hættu sem vinnuumhverfinu fylgir.


5. gr.

     Í stefnuskrá þeirri, sem um ræðir í 4. grein þessarar samþykktar, skal taka tillit til eftirfarandi aðalstarfsþátta að svo miklu leyti sem þeir snerta öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi:

a. hönnun, prófun, val, umskipti, uppsetning, skipan, notkun og viðhald efnislegra aðalþátta í sambandi við vinnu (vinnustaðir, starfsumhverfi, áhöld, vélar og búnaður, efnafræðileg, eðlisfræðileg og lífeðlisfræðileg efni og tæki, starfsaðferðir);

b. samband milli efnislegra þátta í sambandi við vinnu og þeirra manna, sem inna starfið af höndum eða annast eftirlit með því og aðhæfingu véla, búnaðar, vinnutíma, skipulag vinnu og starfsaðferða að líkamlegri og andlegri getu starfsmannanna;

c. þjálfun, þar með talin nauðsynleg framhaldsþjálfun, hæfileikar og hvatning manna, sem á einn eða annan hátt eiga þátt í því að koma öryggi og heilbrigði á nægilega hátt stig;

d. samband og samvinna er miðist við starfshóp og fyrirtæki og hvaða önnur viðeigandi mörk sem er, allt til þess að ná til landsins alls;

e. vernd starfsmanna og fulltrúa þeirra gegn ögun fyrir það sem þeir hafa réttilega gert í samræmi við þá stefnuskrá sem um getur í 4. grein þessarar samþykktar.


6. gr.

     Í stefnuskrá þeirri, sem um getur í 4. grein þessarar samþykktar skal tilgreina hlutverk og ábyrgð stjórnvalda, atvinnurekenda, starfsmanna og annarra, hverra fyrir sig, varðandi öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi. Skal það gert með tilliti til aðstæðna og venju í landinu og einnig þess að slík ábyrgð skarast.


7. gr.

     Ástand mála varðandi öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi skal endurskoða á hæfilegum fresti annaðhvort í heild eða á sérstökum sviðum í því skyni að greina aðalvandamál, finna raunhæf ráð til þess að leysa þau og hvaða aðgerðir skuli hafa forgang svo og að meta árangurinn.


III. KAFLI

Aðgerðir innanlands.

8. gr.

     Sérhvert aðildarríki skal með lögum eða reglugerðum eða hverjum þeim ráðum öðrum sem samrýmast aðstæðum og venju í landinu og í samráði við aðalsamtök hlutaðeigandi atvinnurekenda og starfsmanna gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að gefa 4. grein þessarar samþykktar gildi.


9. gr.

     1. Framkvæmd laga og reglugerða varðandi öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi skal tryggja með viðeigandi eftirliti.

     2. Í sambandi við framkvæmdina skal kveðið á um hæfileg viðurlög við brotum á lögum og reglugerðum.


10. gr.

     Ráðstafanir skulu gerðar til þess að veita atvinnurekendum og starfsmönnum leiðsögn í því skyni að hjálpa þeim til að fullnægja lagaskyldum.


11. gr.

     Til þess að framfylgja þeirri stefnuskrá, sem um getur í 4. grein þessarar samþykktar, skulu stjórnvöld tryggja það að eftirfarandi ætlunarverk séu framkvæmd stig af stigi:

a. að þar sem eðli hættunnar og hættustig krefst þess, séu sett skilyrði um hönnun, byggingu og teiknun vinnustaða, upphaf framkvæmda, meiri háttar breytingar, sem snerta þá og breytingar á tilgangi þeirra, öryggi tæknibúnaðar, sem notaður er við vinnu svo og starfshættir, sem hlutaðeigandi stjórnvöld mæla fyrir um;

b. ákvörðun um það hvaða vinnsluaðferðir, efni og efnahvatar eru þess eðlis að koma ætti í veg fyrir skaðleg áhrif þeirra með banni, takmörkun eða skilyrði um leyfisveitingu hlutaðeigandi stjórnvalds eða stjórnvalda. Hætta á heilsutjóni, sem stafar frá fleiri efnum samtímis skal tekin til athugunar;

c. setja skal og framkvæma reglur um það hvernig atvinnurekendur og þar sem það á við tryggingastofnanir og aðrir sem beinlínis eiga hlut að máli, skuli tilkynna vinnuslys og atvinnusjúkdóma og hvernig árlegar skýrslur um vinnuslys og atvinnusjúkdóma skuli úr garði gerðar;

d. að framkvæma rannsókn þegar vinnuslys, atvinnusjúkdómur eða hvert annað heilsutjón, sem verður við vinnu eða í sambandi við hana, virðist benda til hættulegra aðstæðna;

e. árleg útgáfa upplýsinga um aðgerðir í samræmi við þá stefnuskrá, sem um getur í 4. grein þessarar samþykktar svo og um vinnuslys, atvinnusjúkdóma og annað heilsutjón, sem verður við vinnu eða í sambandi við hana;

f. að innleiða eða efla kerfi í samræmi við aðstæður og möguleika í landinu til þess að rannsaka efnafræðileg, eðlisfræðileg og lífeðlisfræðileg efni með tilliti til hættu á heilsutjóni fyrir verkamenn.


12. gr.

     Í samræmi við landslög og landsvenju skal gera ráðstafanir í því skyni að tryggja það að þeir, sem hanna, framleiða, flytja inn, útvega eða flytja vélar, búnað eða efni til notkunar í atvinnu:

a. gangi úr skugga um það, eftir því sem við verður komið, að vélar, búnaður eða efni hafi ekki í för með sér hættu fyrir heilbrigði og öryggi þeirra sem það nota á réttan hátt;

b. hafi til reiðu upplýsingar um rétta uppsetningu og notkun véla og búnaðar og rétta notkun efna, enn fremur upplýsingar um hættu frá vélum og búnaði og hættulega eiginleika efnafræðilegra, eðlisfræðilegra og lífeðlisfræðilegra efna eða framleiðslu og jafnframt leiðbeiningar um hvernig varast megi þekktar hættur.

c. annist kannanir og rannsóknir eða fylgist á annan hátt með vísindalegri og tæknilegri þekkingu, sem nauðsynleg er til þess að fullnægja stafliðum a og b í þessari grein.


13. gr.

     Starfsmaður, sem farið hefur úr vinnu, sem hann hefur gilda ástæðu til að ætla að hafi í för með sér yfirvofandi alvarlega hættu fyrir líf hans og heilbrigði, skal njóta verndar fyrir óréttmætum afleiðingum í samræmi við aðstæður og venju í landinu.


14. gr.

     Á þann hátt sem hæfir aðstæðum og venju í landinu skal gera ráðstafanir með það fyrir augum að stuðla að því að atriði varðandi heilbrigði og öryggi á vinnustöðum og vinnuumhverfi verði felld inn í öll stig menntunar og þjálfunar, þar á meðal æðri tæknilegrar, læknisfræðilegrar og starfslegrar menntunar, á þann hátt sem hæfir þörf allra starfsmanna fyrir þjálfun.


15. gr.

     1. Í því skyni að tryggja samræmi milli þeirrar stefnuskrár sem um getur í 4. grein þessarar samþykktar og framkvæmdar hennar, skal sérhvert aðildarríki, að höfðu samráði svo snemma sem við verður komið við aðalsamtök atvinnurekenda og verkamanna, svo og aðra aðila eftir því sem við á, gera ráðstafanir, er hæfa aðstæðum og venju í landinu, til þess að tryggja nauðsynlegt samræmi milli hinna ýmsu stjórnvalda og aðila, sem falið er að framfylgja ákvæðum II. og III. kafla þessarar samþykktar.

     2. Þessar ráðstafanir skulu fela það í sér að sett sé á fót miðstjórn, hvenær sem þörf krefur og aðstæður og venjur leyfa.

    

IV. KAFLI

Aðgerðir innan fyrirtækja.

16. gr.

     1. Atvinnurekendum skal skylt að tryggja það, eftir því sem við verður komið að vinnustaðir, vélar, búnaður og framleiðsla, sem er undir umsjá þeirra sé öruggt og hættulaust heilbrigði manna.

     2. Atvinnurekendum skal skylt að tryggja það, eftir því sem við verður komið að efnafræðileg, eðlisfræðileg og lífeðlisfræðileg efni og efnahvatar undir umsjá þeirra séu hættulaus heilbrigði manna þegar viðeigandi varnarráðstafanir eru gerðar.

     3. Þar sem þess gerist þörf skal atvinnurekendum skylt að leggja til viðeigandi hlífðarfatnað og varnarbúnað til þess að verjast, svo sem við verður komið slysahættu og skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna.


17. gr.

     Hvenær sem tvö eða fleiri fyrirtæki annast samtímis starfsemi á sama vinnustað skulu þau starfa saman að því að framfylgja ákvæðum þessarar samþykktar.


18. gr.

     Þar sem þess gerist þörf skal atvinnurekendum skylt að annast aðgerðir gegn neyðartilvikum og slysum þar á meðal skyndihjálp.


19. gr.

     Innan fyrirtækja skal málum þannig skipað:

a. að í störfum sínum vinni starfsmenn með atvinnurekendanum að því að uppfylla þær skyldur sem á hann eru lagðar;

b. að fulltrúar starfsmanna í fyrirtækinu starfi með atvinnurekandanum að öryggi og heilbrigði við vinnu;

c. að fulltrúum starfsmanna í fyrirtæki séu gefnar nægar upplýsingar um aðgerðir atvinnurekandans til þess að tryggja öryggi og heilbrigði við vinnu og að þeir geti ráðfært sig við samtök sín um slíkar upplýsingar að því tilskildu að þeir ljóstri ekki upp viðskiptaleyndarmálum;

d. að starfsmönnum og fulltrúum þeirra í fyrirtækinu sé veitt nægileg fræðsla um öryggi og heilbrigði við vinnu;

e. að starfsmönnum eða fulltrúum þeirra og eftir atvikum samtökum þeirra innan fyrirtækis sé í samræmi við landslög og venju gert kleift að kanna allar hliðar öryggis- og heilbrigðismála í sambandi við störf þeirra og að atvinnurekandinn hafi þessa aðila með í ráðum. Í þessu skyni má með gagnkvæmu samkomulagi fá til tæknilega ráðgjafa utan fyrirtækisins;

f.  að starfsmaður skýri næsta yfirmanni sínum þegar í stað frá hverju því ástandi sem hann hefur gilda ástæðu til að ætla að feli í sér yfirvofandi alvarlega hættu fyrir líf sitt eða heilsu. Fyrr en atvinnurekandinn hefur hafist handa um úrbætur ef þær eru nauðsynlegar, getur hann ekki krafist þess að verkamenn hverfi aftur til vinnuaðstæðna, sem fela í sér stöðuga yfirvofandi og alvarlega hættu fyrir líf eða heilsu.


20. gr.

     Samstarf milli stjórnenda og starfsmanna og/eða fulltrúa þeirra í fyrirtækinu skal vera höfuðatriði í skipulagslegum og öðrum aðgerðum sem gerðar eru í samræmi við 16.–19. grein þessarar samþykktar.


21. gr.

     Öryggis- og heilbrigðisráðstafanir í sambandi við vinnu skulu ekki hafa í för með sér neinn kostnað fyrir verkamennina.

   

V. KAFLI

Lokaákvæði.

22. gr.

     Samþykkt þessi breytir engri alþjóðlegri vinnumálasamþykkt né tillögu.


23. gr.

     Formlegar fullgildingar á þessari samþykkt skulu sendar forstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.


24. gr.

     1. Þessi samþykkt skal einungis bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem hafa látið forstjórann skrá fullgildingar sínar.

     2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.

     3. Síðan gengur þessi samþykkt í gildi, að því er snertir hvert aðildarríki, tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.


25. gr.

     1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.

     2. Hvert það aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar, sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, og síðan getur það sagt þessari samþykkt upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.


26. gr.

     1. Forstjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna, sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.

     2. Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á, hvaða dag samþykktin gangi í gildi.


27. gr.

     Forstjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir, sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.


28. gr.

     Þegar stjórn Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt, skal hún leggja fyrri allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt, hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins breytingar á henni allri eða hluta hennar.


29. gr.

1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt að meira eða minna leyti og sú samþykkt mælir ekki fyrir á annan veg, þá skal:

a. fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, hvað sem ákvæði 25. greinar hér að framan líður, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma er það gerist;

b. aðildarríkjum er ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt eftir að hin nýja samþykkt gekk í gildi.

2. Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu eins og hún er að formi og efni hvað snertir þau aðildarríki, sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.


30. gr.

     Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar eru jafngildir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum