Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess

    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, saman komið til 31. þingsetu sinnar í San Francisco 17. júní 1948 samkvæmt kvaðningu stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, hefur ákveðið að gera í samþykktarformi ákveðnar tillögur um félagafrelsi og verndun þess, en það er sjöunda mál á dagskrá þingsins, og með skírskotun til þess:

að í formála stjórnarskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er því lýst yfir, að „viðurkenning á grundvallarreglum um félagafrelsi“ stuðli að bættum lífsskilyrðum verkalýðsins og friði;

að Philadelphiuyfirlýsingin endurstaðfestir það, að „tjáningarfrelsi og félagafrelsi eru frumskilyrði fyrir áframhaldandi framförum“;

að Alþjóðavinnumálaþingið samþykkti einróma á 30. þingi sínu grundvallarreglur þær, sem vera skyldu undirstaða að alþjóðareglum; — og —

að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur á öðru þingi sínu fallist á þessar grundvallarreglur og óskað eftir því, að Alþjóðavinnumálastofnunin héldi áfram hvers konar viðleitni í þá átt, að hægt verði að gera eina eða fleiri alþjóðasamþykktir;

gerir það í dag, níunda júlí árið nítján hundruð fjörutíu og átta, eftirfarandi samþykkt, sem nefna ber Samþykkt frá 1948 um félagafrelsi og verndun þess:


I. KAFLI

Félagafrelsi.

1. gr.

     Hvert það aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem samþykkt þessi tekur til, undirgengst að framfylgja eftirfarandi ákvæðum.


2. gr.

     Verkamenn og vinnuveitendur skulu án undantekningar hafa rétt til þess að stofna og ganga í félög að eigin geðþótta án undangengins leyfis, og séu þeir aðeins háðir reglum hlutaðeigandi félags um inngöngu í það.


3. gr.

1. Félög verkamanna og vinnuveitenda skulu eiga rétt á að setja sér lög og reglur, að vera algerlega óháð í vali sínu á fyrirsvarsmönnum sínum, að skipuleggja stjórn sína og starfsemi og setja sér stefnuskrá.

2. Opinber stjórnvöld skulu forðast alla íhlutun, er skerða mundi þennan rétt eða hindra löglega beitingu hans.


4. gr.

     Handhafar framkvæmdarvalds skulu ekki geta leyst upp félög vinnuveitenda eða verkamanna fyrir fullt og allt eða um stundarsakir.


5. gr.

     Félög verkamanna og vinnuveitenda skulu eiga rétt á að stofna og ganga í félagasambönd, og hverju slíku félagi eða sambandi skal heimilt að ganga í alþjóðasamtök verkamanna og vinnuveitenda.


6. gr.

     Ákvæði 2., 3. og 4. gr. þessarar samþykktar taka til félagasambanda verkamanna- og vinnuveitendafélaga.


7. gr.

     Réttur verkamanna- og vinnuveitendafélaga og sambanda þeirra til að teljast persónur að lögum má ekki vera háður skilyrðum þess eðlis, að þau takmarki framkvæmdir á ákvæðum 2., 3. og 4. gr. þessarar samþykktar.


8. gr.

1. Við beitingu réttinda þeirra, sem kveðið er á um í þessari samþykkt, skulu verkamenn og vinnuveitendur og félagssamtök þeirra, svo og hverjar persónur aðrar eða félagssamtök, virða landslög.

2. Landslögum má ekki vera þann veg háttað, að þau skerði ákvæði samþykktar þessarar, né heldur má framkvæma þau á þann hátt.


9. gr.

1. Ákveða má með lögum eða reglugerðum hvers lands, að hve miklu leyti ákvæði samþykktar þessarar skuli ná til hermanna og lögreglumanna.

2. Í samræmi við grundvallarreglu 8. mgr. 19. gr. stjórnarskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skal fullgilding aðildarríkis á samþykkt þessari ekki talin hafa áhrif á nokkur gildandi lög, úrskurði, venju eða samkomulag, sem veita hermönnum eða lögreglumönnum einhver þau réttindi, sem tryggð eru með þessari samþykkt.


10. gr.

     Í samþykkt þessari þýðir orðið "félag" hvert það félag verkamanna eða vinnuveitenda, sem vinnur að því að bæta og vernda hag verkamanna eða vinnuveitenda.


II. KAFLI

Verndun félagafrelsis.

11. gr.

     Hvert það aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem samþykkt þessi tekur til, undirgengst að gera allar nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til tryggingar því, að verkamenn og vinnuveitendur geti óháðir neytt félagafrelsisins.


III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
12. gr.

1. Varðandi landsvæði þau, sem um getur í 35. gr. stjórnarskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, eins og hún er eftir stjórnarskrárbreytinguna frá 1946, að undanteknum þeim landsvæðum, sem talin eru í 4. og 5. mgr. nefndrar greinar þannig breyttrar, skal hvert það aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, láta fullgildingarskjali sínu fylgja eða senda aðalforstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, svo fljótt sem unnt er eftir fullgildingu, yfirlýsingu, er greini:

     a. landsvæði þau, sem það undirgengst að láta ákvæði samþykktarinnar ná til án takmarkana,

     b. landsvæði þau, sem það undirgengst að láta ákvæði þessarar samþykktar ná til með takmörkunum og hverjar þær séu,

     c. landsvæði þau, sem samþykktin tekur ekki til, ásamt upplýsingum um ástæður til þess,

     d. landsvæði þau, sem það áskilur sér rétt til að taka ákvörðun um síðar.

2. Yfirlýsingar þær, sem greindar eru í stafliðum a. og b. í fyrstu málsgrein þessarar greinar, skulu teljast raunverulegur hluti fullgildingarinnar og hafa sama gildi og hún.

3. Sérhvert aðildarríki getur hvenær sem er ógilt að nokkru eða öllu leyti með síðari yfirlýsingu fyrirvara þá, sem það hefur gert í upprunalegri yfirlýsingu sinni í samræmi við stafliðina b., c. eða d. í fyrstu málsgrein þessarar greinar.

4. Í hvert skipti, sem segja má upp samþykkt þessari í samræmi við ákvæði 16. gr., getur hvert aðildarríki sent aðalforstjóranum yfirlýsingu um hvers konar aðrar breytingar, er dragi úr ákvæðum fyrri yfirlýsinga þess, enda lýsi það því ástandi, sem þá ríkir á þeim landsvæðum, sem það kann að tiltaka.


13. gr.

1. Þegar mál þau, sem samþykkt þessi fjallar um, heyra undir valdsvið heimastjórnar ófullvalda lands, getur aðildarríki það, sem ábyrgð ber á utanríkismálum þess lands, með samþykki heimastjórnarinnar, sent aðalforstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar yfirlýsingu um það, að skuldbindingar þessarar samþykktar skuli gilda fyrir það land.

2. Yfirlýsingar um gildistöku skuldbindinga samþykktar þessarar geta aðalforstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar borist frá:

     a. tveim eða fleiri aðildarríkjum stofnunarinnar varðandi lönd, sem eru undir sameiginlegum yfirráðum þeirra, eða

     b. fjölþjóðlegu stjórnvaldi, varðandi land, sem það ber stjórnarábyrgð á í samræmi við stofnskrá Sameinuðu þjóðanna eða á annan hátt.

3. Í yfirlýsingum þeim, sem sendar eru aðalforstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í samræmi við fyrri málsgreinar þessarar greinar, skal fram tekið, hvort ákvæðum samþykktarinnar verði beitt til fullnustu eða með takmörkunum í landi því, sem um er að ræða. Þegar yfirlýsingin ber með sér, að samþykktinni skuli beitt með takmörkunum, skulu þær greindar í einstökum atriðum.

4. Aðildarríki eitt eða fleiri eða fjölþjóðlegt stjórnvald, sem í hlut eiga, geta hvenær sem er með síðari yfirlýsingu ógilt að nokkru eða öllu leyti áskilin réttindi til hvers konar takmarkana, er fyrri yfirlýsingin tiltók.

5. Í hvert skipti, sem segja má upp samþykkt þessari í samræmi við ákvæði 16. gr., geta aðildarríki eða fjölþjóðleg stjórnvöld, sem í hlut eiga, sent aðalforstjóra yfirlýsingu þess efnis, að þau dragi á einhvern annan hátt úr ákvæðum sinna fyrri yfirlýsinga, enda lýsi þau því ástandi, sem þá ríkir um framkvæmd samþykktarinnar.

 

IV. KAFLI
Lokaákvæði.
14. gr.

     Formlegar fullgildingar á samþykkt þessari skal senda aðalforstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.


15. gr.

1. Samþykkt þessi skal einungis vera bindandi fyrir þá meðlimi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem látið hafa aðalforstjóra skrá fullgildingar sinar.

2. Hún skal öðlast gildi 12 mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá aðalforstjóra.

3. Eftir það öðlast samþykktin gildi, að því er snertir hvern meðlim, 12 mánuðum eftir að fullgilding hans hefur verið skráð.


16. gr.

1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, má segja henni upp að 10 árum liðnum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda aðalforstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en einu ári eftir skrásetningu hennar.

2. Hver sá meðlimur, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, en notfærir sér ekki innan þess árs, er kemur næst á eftir þeim 10 ára fresti, sem um getur í fyrri málsgrein, réttindi þau til uppsagnar, sem ráð er fyrir gert í þessari grein, skal bundinn af henni í önnur 10 ár, en má að þeim loknum segja henni upp, og síðan að hverju 10 ára tímabili liðnu, svo sem gert er ráð fyrir í þessari grein.


17. gr.

1. Aðalforstjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum meðlimum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skrásetningu allra fullgildinga, yfirlýsinga og uppsagna, sem meðlimir stofnunarinnar hafa sent honum.

2. Þegar aðalforstjóri tilkynnir meðlimum stofnunarinnar skrásetningu hinnar annarrar fullgildingar, sem honum er send, skal hann vekja athygli þeirra á, hvaða dag samþykktin öðlast gildi.


18. gr.

     Aðalforstjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna, til skrásetningar skv. 102. gr. stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar, yfirlýsingar og uppsagnir, sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði næstu greina hér á undan.


19. gr.

     Í lok hvers 10 ára tímabils frá gildistöku samþykktar þessarar skal stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd samþykktarinnar, og skal hún jafnframt athuga það, hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins tillögur um endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.


20. gr.

1. Ef þingið gerir nýja samþykkt um breytingar á samþykkt þessari allri eða hluta hennar, skal:

     a. fullgilding meðlims á hinni nýju, endurskoðuðu samþykkt ipso jure skoðast sem tafarlaus uppsögn á þessari samþykkt, hvað sem ákvæðum 16. gr. hér að framan líður, frá þeim tíma er hin nýja, endurskoðaða samþykkt hefur öðlast gildi;

     b. meðlimum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt, frá því er hin nýja endurskoðaða samþykkt öðlast gildi; enda sé ekki öðruvísi ákveðið í hinni nýju samþykkt.

2. Samþykkt þessi skal, hvað sem öðru líður, vera í gildi, eins og hún er nú að formi til og efni, hvað snertir þá meðlimi, sem hafa fullgilt hana, en ekki hina endurskoðuðu útgáfu hennar.


21. gr.

     Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar skulu jafngildir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum