Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. ágúst 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu eða skylduvinnu

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu eða skylduvinnu

    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, saman komið til 14. þingsetu sinnar í Genf 10. júní 1930, eftir kvaðningu Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, hefur ákveðið að samþykkja ákveðnar tillögur varðandi nauðungarvinnu eða skylduvinnu, sem er þáttur í fyrsta dagskrármáli þessa þings, og þar sem það hefur ákveðið að þessar tillögur skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar, gerir þingið í dag, hinn 28. júní 1930, eftirfarandi samþykkt, sem nefna má Nauðungarvinnusamþykktina 1930, til þess að aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar megi fullgilda hana í samræmi við ákvæði stjórnarskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar:


1. gr.

     1. Hvert það aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem fullgildir samþykkt þessa, skuldbindur sig til þess að útrýma hvers konar nauðungarvinnu eða skylduvinnu á eins skömmum tíma og unnt er.

     2. Með þessa fullkomnu útrýmingu fyrir augum, má nota nauðungar- eða skylduvinnu meðan ástandið er að breytast, en einungis í opinberum tilgangi og sem undantekning, og með þeim skilyrðum og tryggingu, sem greinir hér á eftir.

     3. Að loknum fimm árum frá gildistöku samþykktar þessarar og þegar stjórn Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar semur skýrslu þá, sem um ræðir í 31. gr. hér á eftir, skal nefnd stjórn kanna möguleikana á útrýmingu hvers konar nauðungar- eða skylduvinnu án frekari frests til umskiptanna og einnig hvort æskilegt sé að taka þetta mál á dagskrá þingsins.


2. gr.

     1. Að því er tekur til þessarar samþykktar skal hugtakið „nauðungar- eða skylduvinna“ merkja alla vinnu eða þjónustu sem krafizt er af manni með hótun um einhvers konar refsingu og hann hefur ekki gefið sig sjálfviljugur fram til þess að inna af hendi.

     2. Þó skal hugtakið „nauðungar- eða skylduvinna“, að því er tekur til þessarar samþykktar, ekki fela í sér:

(a)  neins konar vinnu eða þjónustu, sem krafizt er samkvæmt lögum um herskylduþjónustu, að því er tekur til starfa, sem eru algerlega hernaðarlegs eðlis;

(b)  neins konar vinnu eða þjónustu, sem er þáttur í borgaralegum skyldum borgara í algerlega sjálfstæðu landi;

(c)  neins konar vinnu eða þjónustu, sem krafizt er af manni á grundvelli dóms uppkveðins í rétti, enda sé nefnd vinna eða þjónusta framkvæmd undir eftirliti og stjórn opinbers stjórnvalds og umræddur maður sé ekki leigður eða afhentur til umráða einstaklingum, fyrirtækjum eða félögum;

(d)  neins konar vinnu eða þjónustu, sem krafizt er í neyðartilfellum, þ.e.a.s. þegar um er að ræða styrjaldir, voða eða ógn um voða, svo sem eldsvoða, flóð, hungursneyð, jarðskjálfta, svæsnar farsóttir í mönnum eða málleysingjum, innrásir dýra, skordýra eða jurtasjúkdóma og yfirleitt sérhvert atvik, sem mundi stofna í hættu lífi eða velferð þjóðarinnar allrar eða hluta hennar;

(e)  minni háttar störf í þágu sveitarfélaga, þ.e.a.s. þau störf, sem meðlimir sveitarfélags vinna beint í þágu þess og má því líta á sem venjulega borgaraskyldu meðlima sveitarfélagsins, enda eigi íbúar sveitarfélagsins eða beinir fulltrúar þeirra rétt á því, að álits þeirra sé leitað um þörfina fyrir slík störf.


3. gr.

     Að því er tekur til þessarar samþykktar skal hugtakið „hlutaðeigandi stjórnvald“ tákna annaðhvort stjórnvald í móðurlandinu eða æðsta stjórnvald á hlutaðeigandi landsvæði.


4. gr.

     1. Hlutaðeigandi stjórnvald má ekki leggja á eða leyfa að lögð sé á nauðungar- eða skylduvinna í þágu einstaklinga, stofnana eða félaga.

     2. Þar sem slík nauðungar- eða skylduvinna í þágu einstaklinga, stofnana eða félaga viðgengst á þeim tíma er framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skráir fullgildingu aðildarríkis á samþykkt þessari, skal aðildarríkið að fullu útiloka slíka nauðungar- eða skylduvinnu frá þeim degi er samþykkt þessi gengur í gildi fyrir það aðildarríki.


5. gr.

     1. Ekkert sérleyfi veitt einstaklingum, stofnunum eða félögum skal hafa í för með sér neins konar nauðungar- eða skylduvinnu við að framleiða eða safna saman vörum, sem slíkir einstaklingar, stofnanir eða félög nota eða verzla með.

     2. Þar sem til eru sérleyfi, sem innihalda ákvæði, er hafa í för með sér þess háttar nauðungar- eða skylduvinnu, skulu slík ákvæði afnumin eins fljótt og unnt er, til þess að fullnægt verði ákvæðum 1. gr. þessarar samþykktar.


6. gr.

     Jafnvel þar sem embættismönnum er skylt að hvetja íbúa, sem eru undir þeirra stjórn, til þess að ráða sig í einhverja vinnu, skulu þeir ekki þvinga þessa íbúa eða einstaka þeirra til þess að vinna fyrir einstaklinga, stofnanir eða félög.


7. gr.

     1. Höfðingjum, sem ekki hafa stjórnarstörf með höndum, skal ekki heimilt að færa sér nauðungar- eða skylduvinnu í nyt.

     2. Höfðingjum, sem hafa stjórnarstörf með höndum, skal heimilt að færa sér í nyt nauðungar- eða skylduvinnu, að fenginni skýlausri heimild hlutaðeigandi stjórnvalds, enda sé farið eftir ákvæðum 10. gr.

     3. Höfðingjar, sem eru tilhlýðilega viðurkenndir og fá ekki hæfileg laun í öðru formi, mega njóta persónulegrar þjónustu, enda sé þá farið eftir viðeigandi reglugerðum og gerðar séu allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misbeitingu.


8. gr.

     1. Ábyrgðin á sérhverri ákvörðun um að nota nauðungar- eða skylduvinnu, hvílir á æðsta borgaralegu stjórnvaldi á hlutaðeigandi landsvæði.

     2. Þó má það stjórnvald gefa æðstu héraðsstjórnum umboð til þess að krefjast nauðungar- eða skylduvinnu, ef það hefur ekki í vör með sér að verkamennirnir séu fluttir frá heimkynnum sínum. Fyrrnefnt stjórnvald getur einnig um tíma og með þeim skilyrðum, sem sett kunna að verða í reglugerðum skv. 23. gr. þessarar samþykktar gefið æðstu héraðsstjórnum umboð til þess að krefjast nauðungar- eða skylduvinnu, sem hefur í för með sér flutning á verkamönnum frá heimkynnum þeirra, enda sé það gert til þess að greiða fyrir flutningi embættismanna stjórnarinnar þegar þeir eru að skyldustörfum og til flutnings á vörum stjórnarinnar.


9. gr.

     Með þeim undantekningum, sem greinir í 10. gr. þessarar samþykktar, skal hvert það stjórnvald, sem er bært til þess að krefjast nauðungar- eða skylduvinnu, áður en það ákveður að notfæra slíka vinnu fullvissa sig um:

(a)  að vinna sú eða þjónustu, sem látin skal í té, sé í beinar og brýnar þarfir þess samfélags, sem hennar er krafizt af;

(b)  að vinnunnar eða þjónustunnar sé bráð eða yfirvofandi nauðsyn;

(c)  að ekki hafi verið unnt að fá frjálst vinnuafl til þess að inna af hendi vinnuna eða þjónustuna með því að bjóða kaup eða vinnukjör, sem eigi séu lakari en þau, sem tíðkast á hlutaðeigandi landsvæði fyrir slíka vinnu eða þjónustu; og

(d)  að vinnan eða þjónustan muni ekki leggja of þunga byrði á íbúana með tilliti til þess vinnuafls, sem tiltækt er, og möguleika þeirra til þess að taka að sér vinnuna.


10. gr.

     1. Smátt og smátt skal útrýma nauðungar- eða skylduvinnu, sem krafizt er sem skattgreiðslu, og nauðungar- eða skylduvinnu, sem höfðingjar, er hafa stjórnarstörf með höndum, notfæra sér við framkvæmd starfa í þágu almennings.

     2. Þar sem nauðungar- eða skylduvinnu er krafizt sem skattgreiðslu og höfðingjar, er hafa stjórnarstörf með höndum, notfæra sér nauðungar- eða skylduvinnu við framkvæmd starfa í almenningsþágu, skal hlutaðeigandi stjórnvald fyrst fullvissa sig um:

(a)  að vinna sú eða þjónusta, sem látin skal í té, sé í beinar og brýnar þarfir þess samfélags, sem hennar er krafizt af;

(b)  að vinnunnar eða þjónustunnar sé bráð eða yfirvofandi nauðsyn;

(c)  að vinnan eða þjónustan muni ekki leggja of þunga byrði á íbúana með tillit til þess vinnuafls, sem tiltækt er, og möguleika þeirra til þess að taka að sér vinnuna;

(d)  að vinnan eða þjónustan hafi ekki í för með sér flutning verkamannanna frá heimkynnum þeirra;

(e)  að framkvæmd vinnunnar eða þjónustunnar sé stjórnað eftir kröfum trúarbragða, félagslífs og landbúnaðar.


11. gr.

     1. Til nauðungar- eða skylduvinnu má einungis kalla fullfæra karlmenn, sem augljóst er að séu ekki yngri en 18 ára og ekki eldri en 45 ára. Að undanskildum þeim tegundum vinnu, sem greinir í 10. gr. þessarar samþykktar, skulu eftirfarandi takmarkanir og skilyrði gilda:

(a)  Þegar því verður við komið skal læknir tilnefndur af stjórnvöldunum fyrirfram úrskurða hvort hlutaðeigandi menn séu ekki haldnir neinum smitandi sjúkdómi og að þeir séu líkamlega færir til þeirrar vinnu, sem þeim er ætluð, við þau skilyrði, sem hún fer fram við;

(b)  undanskildir eru kennarar, nemendur og starfsmenn stjórnarinnar yfirleitt;

(c)  í hverju samfélagi skal haldið eftir eins mörgum fullfærum karlmönnum og ómissandi eru fjölskyldu- og félagslífi;

(d)  virða skal hjúskapar- og fjölskyldutengsl.

     2. Með tilliti til stafliðs c í undanförnum tölulið, skulu reglugerðir þær, sem um ræðir í 23. gr. þessarar samþykktar, ákveða hve mikinn hluta fullorðinna vinnufærra karla megi á hverjum tíma taka til nauðungar- eða skylduvinnu, þó má þessi hluti aldrei vera meiri en 25%. Við ákvörðun þessa hlutfalls, skal hlutaðeigandi stjórnvald taka tillit til þess hve fólkið býr þétt, hversu það er þroskað félagslega og líkamlega, árstíða, og þeirrar vinnu, sem hlutaðeigandi fólk verður að framkvæmda sjálfs sín vegna í heimahéraði sínu, og yfirleitt skal hafa í huga efnahagslegar og félagslegar nauðsynjar fyrir eðlilegt líf hlutaðeigandi samfélags.


12. gr.

     1. Hámarkstími sá, sem taka má mann til nauðungar- eða skylduvinnu, hverrar tegundar sem er, á hverju tólf mánaða tímabili, skal ekki fara fram úr sextíu dögum að meðtöldum þeim tíma, sem fer til ferða til og frá vinnustað.

     2. Hver sá, sem krafinn er nauðungar- eða skylduvinnu, skal fá í hendur skírteini, er greini þau tímabil er hann hefur innt af hendi slíka vinnu eða þjónustu.


13. gr.

     1. Venjulegur vinnutími sérhvers manns, sem vinnur nauðungar- eða skylduvinnu, skal vera hinn sami og tíðkast í frjálsri vinnu og fyrir vinnu fram yfir þann tíma skal greiða eftir sama taxta og greitt er eftir fyrir yfirvinnu í frjálsri vinnu.

     2. Allir þeir, sem vinna einhvers konar skylduvinnu, skulu fá vikulegan hvíldardag og skal hann, ef mögulegt er, vera sá sami og venjulegur frídagur á hlutaðeigandi landsvæði.


14. gr.

     1. Að undantekinni þeirri nauðungar- eða skylduvinnu, sem um ræðir í 10. gr. þessarar samþykktar, skal greiða fyrir hvers konar nauðungar- eða skylduvinnu í reiðu fé og ekki eftir lægri taxta en greitt er eftir fyrir sams konar vinnu, annaðhvort þar sem unnið er eða þar sem vinnuaflið er frá, eftir því hvor er hærri.

     2. Að því tekur til vinnu, sem höfðingjar notfæra sér við framkvæmd stjórnarstarfa, skal komið á launagreiðslum í samræmi við ákvæði undanfarandi töluliðs eins fljótt og unnt er.

     3. Launin skulu greidd hverjum einstökum verkamanni fyrir sig, en ekki höfðingja kynflokks hans eða neinu öðru stjórnvaldi.

     4. Við útreikning launa skulu dagar þeir, sem fara í ferðir til og frá vinnustað, teljast vinnudagar.

     5. Ekkert í þessari grein skal vera því til fyrirstöðu, að venjulegt fæði sé látið upp í kaup, en slíkt fæði skal vera a.m.k. jafnmikið að verðgildi og þar er reiknað, en ekki má draga frá kaupi til greiðslu á sköttum eða fyrir sérstöku fæði, fatnaði eða húsnæði, sem verkamanninum er látið í té til þess að halda honum hæfum til að stunda vinnu sína við sérstakar aðstæður í einhverju starfi, eigi heldur fyrir verkfærum.


15. gr.

     1. Sérhver lög eða reglugerðir varandi bætur verkamanns fyrir slys eða sjúkdóm, sem stafar af vinnu hans, og sérhver lög eða reglugerðir, er kveða á um bætur til skylduliðs látinna eða slasaðra verkamanna eða öryrkja, sem eru eða skulu vera í gildi á hlutaðeigandi landsvæði, skulu taka jafnt til þeirra, sem vinna nauðungar- eða skylduvinnu, og frjálsra verkamanna.

     2. Jafnan skal það skylda sérhver stjórnvalds, sem hefur í þjónustu sinni verkamann í nauðungar- eða skylduvinnu, að tryggja framfærslu sérhvers slíks verkamanns, sem vegna slyss eða sjúkdóms, er stafar af vinnu hans, er algerlega eða að nokkru leyti ófær til þess að sjá fyrir sér sjálfur, svo og að gera ráðstafanir til þess að tryggja framfærslu sérhvers manns, sem er raunverulega á framfæri slíks verkamanns, ef vinna hans veldur honum örorku eða dauða.


16. gr.

     1. Eigi skulu menn, sem vinna nauðungar- eða skylduvinnu, fluttir til staða, þar sem fæði og loftslag er svo frábrugðið því, sem þeir hafa átt að venjast, að heilsu þeirra stafi hætta af, nema þegar sérstök brýn nauðsyn krefur.

     2. Aldrei skal leyfa flutning slíkra verkmanna á þess að hægt sé að gera allar þær ráðstafanir varandi heilbrigði og húsnæði, sem þeir hafa átt að venjast, að heilsu þeirra stafi hætta af, nema þegar sérstök brýn nauðsyn krefur.

     3. Þegar ekki er hægt að komast hjá slíkum flutningum skulu gerðar ráðstafanir eftir ráði þar til bærs læknis til þess að venja verkamennina smátt og smátt við hið nýja fæði og loftslag.

     4. Þegar verkamenn, sem hér um ræðir, eru látnir vinna reglulega vinnu, sem þeir eru ekki vanir, skulu verðar ráðstafanir til þess að venja þá við hana, einkum að því er varðar þjálfun þeirra smátt og smátt, vinnutíma og veitingu hvíldartíma svo og hvers konar aukningu eða bót á fæði eftir því sem nauðsynlegt kann að vera.


17. gr.

     Áður en leyft er að nota nauðungar- eða skylduvinnuafl við byggingar eða viðhald, sem hefur það í för með sér að verkamennirnir verða að dvelja á vinnustað um lengri tíma, skal hlutaðeigandi stjórnvald fullvissa sig um:

(1)  að gerða séu allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að vernda heilsu verkamanna og tryggja nauðsynlega læknishjálp og sérstaklega: a) að verkamennirnir gangi undir læknisskoðun áður en þeir hefja vinnu og á vissum fresti á starfstímanum, b) að við höndina sé nægilegt læknalið, lyfjabúðir, sjúkrahús og útbúnaður, sem nauðsynlegt er til þess að fullnægja öllum þörfum, og c) að hollustuhættir á vinnustöðunum, drykkjarvatn, matur, eldsneyti og eldunartæki svo og húsnæði klæðnaður, þar sem það á við, séu fullnægjandi;

(2)  að tilteknar ráðstafanir séu gerðar til þess að tryggja framfærslu fjölskyldna verkamannanna, sérstaklega með því að greiða fyrir sendingu hluta kaupsins á tryggan hátt til fjölskyldunnar eftir beiðni verkamannsins eða með samþykki hans;

(3)  að ferðir verkamannanna til og frá vinnustað séu á kostnað og ábyrgð stjórnarinnar, sem skal greiða fyrir þessum flutningum með því að færa sér fullkomlega í nyt alla möguleika til flutnings;

(4)  að þegar verkamaður veikist eða verður fyrir slysi, sem veldur vanhæfi til vinnu um tiltekinn tíma, sé hann fluttur heim til sín á kostnað stjórnarinnar;

(5)  að sérhverjum verkamanni, sem kann að óska þess að halda áfram vinnu sem frjáls verkamaður að loknum nauðungar- eða skylduvinnutíma sínum, sé það heimilt án þess að hann missi rétt til heimsendingar sér að kostnaðarlausu um tveggja ára skeið.


18. gr.

     1. Útrýma skal eins fljótt og unnt er nauðungar- og skylduvinnu við flutning á mönnum eða vörum, svo sem vinnu burðarkarla eða ferjumanna. Á meðan á þessari útrýmingu stendur skal hlutaðeigandi stjórnvald setja reglugerð, sem meðal annars kveði á um: a) að slíkt vinnuafl skuli einungis nota til þess að greiða fyrir flutningum starfsmanna stjórnarinnar, þegar þeir eru að skyldustörfum, eða flutningum á vörum stjórnarinnar eða flutningum á öðrum embættismönnum þegar mjög brýna nauðsyn ber til, b) að verkamennirnir, sem eru í slíkri vinnu, hafi læknisvottorð um að þeir séu líkamlega hæfir til hennar, þegar því verður við komið, en þegar svo er ekki skal vinnuveitandi þeirra vera ábyrgur fyrir því að þeir séu líkamlega færir til starfa og þjáist ekki af neinum smitandi sjúkdómi, c) hámarksbyrði, sem þessir verkamenn mega bera, d) hversu langt frá heimilum þeirra megi í mesta lagi flytja þá, e) hámarksdagafjölda á hverjum mánuði eða öðru tímabili, sem halda megi þeim í vinnu, þar með taldir dagar, er fara til heimferðar þeirra, og f) hvaða menn hafi heimild til þess að krefjast þessarar tegundar nauðungar- eða skylduvinnu og hve langt sú heimild nær.

     2. Við ákvörðun þess hámarks, sem greinir í stafliðunum c), d) og e) í fyrirfarandi tölulið, skal hlutaðeigandi stjórnvald taka tillit til allra atriða, sem máli skipta, þ.á m. líkamlegs þorska landsmanna þar sem verkamennirnir eru teknir, náttúru landsins, sem þeir verða að ferðast yfir, og loftslags.

     3. Hlutaðeigandi stjórnvald skal enn fremur sjá um, að venjulegar dagleiðir slíkra verkamanna séu ekki lengri en svo að samsvari að meðaltali átta stunda vinnudegi og sé þá undirskilið að ekki sé einungis tekið tillit til þeirra byrða, sem bera þarf, og vegalengdirnar, heldur einnig þess, hvernig vegurinn er, árstíðarinnar og allra annarra atriða, er máli skipta, svo og þegar menn eru á ferð fram yfir venjulegan tíma á dag, skuli greitt fyrir þann tíma eftir hærri taxta en hinum venjulega.


19. gr.

     1. Hlutaðeigandi stjórnvald skal því aðeins leyfa notkun nauðungarvinnu við jarðrækt, að um sé að ræða varúðarráðstafanir gegn hungursneyð eða matvælaskorti og aðeins með því skilyrði að matvælin eða framleiðslan verði eign einstaklinganna eða samfélagsins, sem framleiðir þau.

     2. Þessa grein má ekki skýra á þann veg að hún afnemi skyldu meðlima samfélags til að inna af höndum störf, sem samfélagið krefst af þeim samkvæmt lögum eða venju, þegar framleiðslan er skipulögð á félagslegum grundvelli í samræmi við lög eða venju og framleiðslan eða ágóði af sölu hennar verður eign samfélagsins.


20. gr.

     Lög um fjöldarefsingar, samkvæmt hverjum er hægt að refsa samfélagi fyrir afbrot, sem einhver meðlima þess hefur framið, skulu ekki hafa að geyma ákvæði um að nauðungar- eða skylduvinna sé lögð á samfélagið sem refsing.


21. gr.

     Eigi má nota nauðungar- og skylduvinnu neðanjarðar í námum.


22. gr.

     Ársskýrslur þær, sem aðildarríki, er fullgilda þessa samþykkt, undirgangast að senda Alþjóðavinnumálaskrifstofunni í samræmi við 22. gr. stjórnarskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um ráðstafanir, sem þau hafa gert til þess að framfylgja ákvæðum þessarar samþykktar, skulu hafa að geyma eins fullkomnar upplýsingar og mögulegt er, að því er tekur til hvers einstaks hlutaðeigandi landsvæðis, um það hversu mikið nauðungar- eða skylduvinnuafl hafi verið hagnýtt á landsvæðinu, til hvers það hafi verið notað, sjúkra- og dánartölu, vinnutíma, greiðslumáta launa og kauptaxta og hverjar aðrar upplýsingar, sem máli skipta.


23. gr.

     1. Til þess að framfylgja ákvæðum þessarar samþykktar, skal hlutaðeigandi stjórnvald gefa út nákvæmar reglugerðir um notkun nauðungar- eða skylduvinnu.

     2. Þessar reglugerðir skulu meðal annars hafa að geyma reglur, er heimili sérhverjum manni, sem krafinn er nauðungar- eða skylduvinnu, að bera fram við stjórnvöldin kvartanir varðandi vinnuskilyrði og tryggi það að slíkar kvartanir séu rannsakaðar og teknar til athugunar.


24. gr.

     Í öllum tilfellum skulu gerðar viðeigandi ráðstafanir til tryggingar því að reglugerðunum um notkun nauðungar- eða skylduvinnu sé stranglega framfylgt, annaðhvort með því að láta það vinnueftirlit, sem hefur með höndum eftirlit með frjálsri vinnu, einnig ná til nauðungar- og skylduvinnu eða á annan hátt, sem við á. Ráðstafanir skulu einnig gerðar til tryggingar því að reglugerðirnar komi til vitundar þeirra, sem slíka vinnu láta í té.


25. gr.

     Ólögleg notkun nauðungar- eða skylduvinnu skal vera refsiverð og það skal vera skylda sérhvers aðildarríkis, sem fullgildir samþykktina, að tryggja það, að refsing sú, sem lög ákveða, sé fullnægjandi og stranglega beitt.


 26. gr.

     1. Hvert það aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem fullgildir þessa samþykkt, skuldbindur sig til þess að láta hana taka til landsvæða, sem eru undir yfirráðum þess, lögsögu, vernd, lénsdæmi, eftirliti eða stjórn, að svo miklu leyti sem það hefur rétt til þess að taka á sig skyldur varðandi réttarskipun innanlands. Ef slíkt aðildarríki kann að óska þess að færa sér í nyt ákvæði 35. gr. stjórnarskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, skal það þó láta fullgildingarskjali sínu fylgja yfirlýsingu, er greini:

(1)  landsvæði þau, sem það ætlar sér að láta ákvæði þessarar samþykktar ná til án takmarkana;

(2)  landsvæði þau, sem það ætlar að láta ákvæði samþykktarinnar ná til með takmörkunum og hverjar þær takmarkanir séu;

(3)  landsvæði, sem það áskilur sér rétt til að taka ákvörðun um síðar.


27. gr.

     Formlegar fullgildingar á samþykkt þessari samkvæmt þeim skilyrðum, sem sett eru í stjórnarskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, skulu sendar framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.


28. gr.

     1. Þessi samþykkt skal einungis bindandi fyrir aðildarríki er fullgildingar þeirra hafa verið skráðar hjá Alþjóðavinnumálaskrifstofunni.

     2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa verið skráðar hjá framkvæmdastjóranum.

     3. Síðan gengur samþykkt þessi í gildi, að því er snertir hvert einstakt aðildarríki, tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.


29. gr.

     Um leið og fullgildingar tveggja aðildarríkja Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa verið skráðar hjá Alþjóðavinnumálaskrifstofunni, skal framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar tilkynna það öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.


30. gr.

     1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að tíu árum liðnum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunni.

     2. Hvert það aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar, sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í fimm ára tímabil og síðan getur það sagt þessari samþykkt upp að liðnu hverju fimm ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.


31. gr.

     Að loknu sérhverju fimm ára tímabili frá gildistöku samþykktar þessarar, skal stjórn Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar gefa allsherjarþinginu skýrslu um áhrif þessarar samþykktar og athuga hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins breytingar á henni allri eða hluta hennar.


32. gr.

     1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt allri eða hluta hennar, skal fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér uppsögn þessarar samþykktar án tafar, hvað sem ákvæðum 30. gr. hér að framan líður, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi, og þá frá þeim tíma er það gerðist.

     2. Eftir gildistöku hinnar nýju samþykktar, skal aðildarríkjunum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt.

     3. Þessi samþykkt skal þó gilda áfram fyrir þau aðildarríki, sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.


33. gr.

     Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar skulu báðir vera fullgildir.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum