Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. september 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-ágúst 2002. Greinargerð: 19. september 2002

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-ágúst 2002 (PDF 17K)

Nú liggja fyrir tölur um greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrstu átta mánuði ársins. Uppgjörið hér á eftir sýnir sjóðhreyfingar og er sambærilegt við almenn sjóðstreymisyfirlit. Tölurnar eru því ekki samanburðarhæfar við ríkisreikning eða fjárlög ársins sem eru sett fram á rekstrargrunni.

Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 16,3 milljarða króna samanborið við 6,9 milljarða neikvæða stöðu á sama tíma í fyrra. Breyting frá fyrra ári skýrist af 9,4 milljarða króna hækkun gjalda umfram hækkun tekna milli ára. Fjármunahreyfingar voru hins vegar jákvæðar um 7,1 milljarð króna í stað 1,3 milljarða neikvæðrar stöðu í fyrra. Þar munar mestu um sölu hlutabréfa í Landsbanka Íslands, en innstreymi vegna hlutafjársölu nam um 4,8 milljörðum króna. Auk þess hækka innheimtar afborganir um 3 milljarða frá sama tíma í fyrra.

Heildartekjur ríkissjóðs námu tæplega 152S milljarði króna og hækka um 9,7 milljarða frá fyrra ári, eða tæplega 7%. Skatttekjur ríkissjóðs hækka mun minna, eða um 6 milljarða króna, 4S%. Skýringin á þessum mismun felst fyrst og fremst í auknum tekjum af sölu eigna. Til samanburðar má nefna að verðlag hækkaði um 6S% á þessu tímabili og launavísitalan um tæplega 8%. Áfram gætir því samdráttar að raungildi þegar þróun skatttekna á fyrstu átta mánuðunum er skoðuð. Nánari skoðun á þróuninni innan ársins sýnir hins vegar að samdrátturinn fer ört minnkandi og að ýmsir helstu tekjuliðir ríkissjóðs, eins og virðisaukaskattur, tekjuskattur einstaklinga og tryggingagjald, hafa aukist að raungildi síðustu mánuði. Þessi þróun bendir til þess að ákveðin veðrabrigði séu að verða í efnahagslífinu og að samdrátturinn sem tók að gæta á fyrstu mánuðum ársins 2001 sé að baki.

Greidd gjöld nema 165,8 milljörðum króna og hækka um tæpa 16 milljarða frá fyrra ári, eða um 10,6%. Útgjöld til félagsmála eru um 101 milljarður, en þau vega rúmlega 60% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Þar munar mestu um útgjöld til heilbrigðismála, sem nema 40,7 milljörðum króna og hækka um 5 milljarða króna frá fyrra ári. Þá nema greiðslur til almannatrygginga um 33 milljörðum og hækka um 3,2 milljarða króna. Greiðslur til atvinnumála eru 24 milljarðar sem er nær óbreytt frá fyrra ári, þar sem lækkun greiðslna til orku- og sjávarútvegsmála vegur að hluta til upp á móti hækkun til samgöngumála. Vaxtagreiðslur hækka um tæplega 0,8 milljarða króna, eða sem nemur 5% milli ára.




Lántökur ríkissjóðs námu 32,2 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins. Þar á meðal var tekið erlent langtímalán að andvirði 21,6 milljarðar króna. Tilgangurinn er að auka vægi langtímalána sem hlutfall af heildarfjármögnun ríkissjóðs á kostnað erlendra skammtímalána. Lántökur innanlands námu 9,3 milljörðum króna. Á móti lántökum vega afborganir að fjárhæð 22,1 milljarður króna þar sem rúmlega 12 milljarðar fóru til greiðslu erlendra langtímalána og 10 milljarðar króna til niðurgreiðslu spariskírteina. Þá voru 6 milljarðar greiddir til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í því skyni að lækka framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs. Greiðsluafkoma ríkissjóðs er nú neikvæð um 5,2 milljarða króna, samanborið við 4,1 milljarðs neikvæða stöðu á sama tíma í fyrra.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum