Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. september 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 14. - 20. september 2002

Fréttapistill vikunnar
14. - 20. september 2002


Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri, kosinn í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar

Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu var kosinn í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á haustþingi Evrópudeildar stofnunarinnar sem haldið var í Kaupmannahöfn í vikunni. Fjörutíu af þeim fjörutíu og þremur þjóðum sem þátt tóku í atkvæðagreiðslunni greiddu fulltrúa Íslands atkvæði sitt. Heilbrigðisráðuneytið hefur unnið að því á liðnum misserum að tryggja stuðning við framboð og kosningu fulltrúa Íslands í framkvæmdastjórnina. Það hefur verið gert í nánu samstarfi við utanríkisþjónustuna. Þáttur hennar var afar veigamikill í allri kosningabaráttunni og hafa fjölmargir starfsmenn utanríkisráðuneytisins og sendiráða og fastanefnda Íslands unnið að málinu. Davíð Á. Gunnarsson mun sitja í framkvæmdastjórninni árin 2003 - 2006.

Fátækt og heilsa - The European Health Report 2002
Fjárhagslegir og félagslegir þættir ráða mestu um heilsufar þjóða, þjóðfélagshópa og einstaklinga. Fátækt og heilsufar er viðfangsefni nýútkominnar skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO); The European Healt Report 2002. Þetta var einnig megin umfjöllunarefnið á haustþingi Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem haldin var í Kaupmannahöfn í vikunni. Í skýrslunni er lögð áhersla á að heilbrigðismál verði að skoða í nánu samhengi við aðra málaflokka. Atvinnumál, menntun, húsnæðismál, félagsleg velferð, allt eru þetta þættir sem hafa afgerandi áhrif á heilbrigði einstaklinga og þjóða. Aðildarríki WHO í Evrópu eru 51 og íbúar þeirra um 870 milljónir. Í skýrslunni kemur fram að þótt staða heilbrigðismála í aðildarríkjunum sé með því besta sem þekkist í heiminum þegar á heildina er litið þá sé aftur á móti verulegur ójöfnuður í þessum efnum milli þjóða og einnig milli þjóðfélagshópa. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
WHO...

Breyttar fjármögnunaraðferðir í heilbrigðisþjónustu
Rætt var um breytta fjármögnun og mælingu á árangri í heilbrigðisþjónustu á ráðstefnu um framtíð DRG-fjármögnunarkerfisins á Íslandi sem Landspítali – háskólasjúkrahús og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið stóðu fyrir í vikunni. Í ræðu sem Magnús Pétursson, forstjóri LSH hélt þar sagði hann að flest eða öll nágrannalönd okkar hafi horfið frá föstum fjárveitingum sem fjármögnunaraðferð í heilbrigðisþjónustu og leitist nú við að tengja saman árangur og fjármuni, en DRG-fjármögnunarkerfið byggist einmitt á því. Magnús sagði það brennandi spurningu hvort mögulegt sé að taka upp flokkunarkerfi eins og DRG hér á landi og tengja fjárveitingar í meginatriðum niðurstöðum sem flokkunin leiðir fram. Í því felst að verðleggja heilbrigðisþjónustuna og beina fjármunum til þeirra sem þjónustuna veita eftir reglum DRG-kerfisins eða öðrum áþekkum. ,,Mér þætti álitlegt ef lokið yrði að kostnaðargreina starfsemi spítalans eigi síðar en um mitt ár 2004. Jafnhliða og ekki seinna en í fjárlögum fyrir árið 2005 hefði ég kosið að sjá gjörbreytta fjármögnun á rekstri spítalans alls" sagði forstjóri LSH meðal annars í ræðu sinni. Þá benti hann á að með breyttri fjármögnun þyrfti að taka allmarga veigamikla þætti með í reikninginn og sagði m.a. ,,...að ákveði stjórnvöld að taka upp fjármögnun skv. DRG-aðferðinni, þá spái ég því að skipting fjármagns milli sjúkrastofnana hins opinbera kunni að breytast allnokkuð. Það gæti vel leitt til þess að læknisverk sem hafa verið unnin á LSH væru betur komin annars staðar en það gæti líka leitt fram þá niðurstöðu að ýmsir smærri staðir teldust ekki fjárhagslega hagkvæmir og því ætti að beina þjónustunni til LSH. Við þessu verða menn að vera búnir."
ÖLL RÆÐAN...

Heilbrigðismálaráðherra BNA segir íslenska heilbrigðiskerfið skilvirkt og þjóna landsmönnum vel
Íslenska heilbrigðiskerfið er skilvirkara og ódýrara en það bandaríska og þjónar þegnunum vel, segir Tommy G Thompson, heilbrigðismálaráðherra Bandaríkjanna. Ráðherrann kom hingað til lands nýlega og þá undirrituðu hann og Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra viljayfirlýsingu sem miðar að því að efla samstarf þjóðanna á sviði líf- og læknisfræði, atferlisvísinda og skyldra greina á vettvangi heilbrigðisþjónustu. Ráðherrann ræddi um heilbrigðismál og samanburð á heilbrigðiskerfum Bandaríkjanna og Íslands. Í máli hans kom fram að ef heilbrigðiskerfi landanna séu borin saman komi í ljós að 8% af landsframleiðslu Íslendinga fari til heilbrigðismála samanborið við 14% í Bandaríkjunum. Heilbrigðiskerfið á Íslandi sé þar að auki mun skilvirkara en í Bandaríkjunum og þjóni landsmönnum vel. Íslendingar standi betur að vígi en Bandaríkjamenn í heilsugæslu og Bandaríkjamenn geti mikið af þeim lært.  Ráðherrann benti á að 85% af kostnaði Íslendinga vegna heilbrigðismála komi frá hinu opinbera en að í Bandaríkjunum þurfi hver einstaklingur að borga miklu hærri upphæð úr eigin vasa. Hann fengi ekki séð hvers vegna Íslendingar ættu að breyta sínu heilbrigðiskerfi og stefna á frekari einkavæðingu.

150 milljóna króna gjöf Kvenfélagsins Hringsins til byggingar Barnaspítala Hringsins
Kvenfélagið Hringurinn afhenti í vikunni 150 milljóna króna gjöf til byggingar Barnaspítala Hringsins. Fyrr á þessu ári afhenti Hringurinn 50 milljónir króna til kaupa á rúmum og búnaði og hefur því lagt barnaspítalanum til 200 milljónir króna á árinu. Vonast er til að fyrir tilstyrk Hringsins verði unnt að taka allar deildir spítalans í notkun samtímis, í byrjun næsta árs. Barnaspítalasjóður Hringsins var stofnaður 14. júní 1942.  Það hefur síðan verið aðal hugsjónamál Kvenfélagsins Hringsins að í Reykjavík verði byggður og rekinn sérhannaður spítali fyrir börn.
MEIRA...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
20. september 2000

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum