Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. október 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Jafnréttisáætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins

Jafnréttisáætlun
heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins


Markmið
Markmið jafnréttisáætlunar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins (HTR) er að stuðla að jafnrétti kynjanna, jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla innan ráðuneytisins sem og á málasviði ráðuneytisins. Ennfremur er áætluninni ætlað að minna stjórnendur og annað starfsfólk ráðuneytisins á mikilvægi þess að allir fái notið sín án tillits til kynferðis. Ráðuneytið telur mikilvægt að nýta til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum kvenna og karla.

Í öllu starfi ráðuneytisins skal unnið gegn viðhorfum sem leiða til aðstöðumunar kvenna og karla eða einstakra minnihlutahópa í þjóðfélaginu. Jafnréttismál skal vera virkur þáttur í starfsmannastefnu ráðuneytisins.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið leggur áherslu á eftirfarandi:

Launajafnrétti
Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og hvers konar frekari þóknanir, beinnar og óbeinnar, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti. Einnig skulu þau njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár, sbr. 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.

Þátttaka í nefndum og ráðum
Markvisst skal unnið að því að jafna fjölda kvenna og karla í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins. Þegar óskað er eftir tilnefningum í opinberar nefndir og ráð skal minnt á ákvæði 20. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 þar sem segir, að þar sem því verði við komið sitji því sem næst jafnmargar konur og karlar í nefndum, ráðum og stjórnum.

Auglýsingar
Í auglýsingum skulu störf ókyngreind og þess gætt að hafa bæði kynin í huga við gerð auglýsinga. Heimilt er að hvetja sérstaklega annað kynið að sækja um ef tilgangurinn er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni.

Stöðuveitingar og störf
Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar.

Stefnt skal að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í hinum ýmsu störfum innan ráðuneytisins.

Þess skal gætt við úthlutun verkefna, tilfærslu í störfum, tækifæri til að axla ábyrgð og framgang í störfum að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis.

Starfsþjálfun og endurmenntun
Tryggt skal að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið er haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Leitast skal við að gera starfsmönnum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið. Feðrum verði sérstaklega kynnt sú afstaða ráðuneytisins að gengið sé út frá því að þeir taki sér það fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á og séu heima hjá veikum börnum til jafns við mæður.

Starfsandi og líðan starfsmanna
Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki áreitni af neinu tagi s.s. kynferðisleg áreitni* (sjá skilgreiningu aftast í áætluninni).

Jöfnun hlutfalla kynjanna í öllum heilbrigðisstéttum
Unnið verði með menntastofnunum, fagfélögum og öðrum aðilum að því að jafna kynjahlutfall þeirra sem sækja sér menntun á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Með markvissum hvatningaraðgerðum skal unnið að ofangreindu markmiði með sérstaka áherslu á að auka sókn karla í nám í umönnunarstéttum.

Hlutverk jafnréttisfulltrúa
Jafnréttisfulltrúi HTR fjallar um og hefur eftirlit með stöðu jafnréttismála á málasviði ráðuneytisins. Auk þess skal jafnréttisfulltrúinn, eftir því sem mögulegt er, fylgjast með þróun jafnréttismála hjá stofnunum á stjórnsýslusviði ráðuneytisins.

Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins skal fylgjast sérstaklega með að ofangreindum áhersluatriðum sé fylgt eftir.

Auk þess skal jafnréttisfulltrúi sinna eftirfarandi verkefnum:
  • Taka saman árlegt yfirlit um stöðu jafnréttismála innan ráðuneytisins og á málasviði ráðuneytisins. Yfirlitið skal kynnt fyrir yfirstjórn og starfsmönnum ráðuneytisins.
  • Setja fram mælikvarða um ofangreind áhersluatriði og hafa eftirlit með framgangi þeirra.
  • Gera drög að reglum um viðbrögð við kvörtunum starfsmanna ráðuneytisins um áreiti eða mismunun. Reglurnar skulu staðfestar af ráðuneytisstjóra.
  • Taka þátt í hvatningaraðgerðum til að jafna kynjaskiptingu innan heilbrigðisstétta.
  • Veita umsagnir um styrkbeiðnir til ráðherra er varða jafnréttismál.
  • Taka þátt með beinum eða óbeinum hætti í erlendu samstarfi í jafnréttismálum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála. Auk þess skal jafnréttisfulltrúinn fylgjast með þætti jafnréttismála í þeim málum sem aðrir starfsmenn ráðuneytisins taka þátt í á alþjóðavettvangi.

Jafnréttisfulltrúi skal vera tengiliður við Jafnréttisstofu og skila þangað árlega skýrslu um framgang framkvæmdaáætlunar og aðra þróun jafnréttismála á sviði ráðuneytisins.

Hlutverk jafnréttisnefndar HTR
Jafnréttisnefnd ráðuneytisins er jafnréttisfulltrúa til aðstoðar og ráðgjafar. Í jafnréttisnefnd eiga sæti 4 einstaklingar, 2 karlar og 2 konur. Jafnframt skal í nefndinni vera a.m.k. einn skrifstofustjóri, einn deildarstjóri eða sérfræðingur og einn úr hópi stuðningsstarfsliðs ráðuneytisins (stjórnarráðsfulltrúar, skjalaverðir o.fl.).

Jafnréttisnefnd skal aðstoða jafnréttisfulltrúa við að móta framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum, mótun fjölskyldustefnu ráðuneytisins og fylgjast með stöðu jafnréttismála hjá stofnunum ráðuneytisins.

Jafnréttisfulltrúi sér um að kalla nefndina saman til fundar a.m.k. tvisvar á ári.

Endurskoða skal jafnréttisáætlun HTR fyrir árslok 2004.



* Skilgreining á kynferðislegri áreitni skv. 17. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla:
Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum