Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. október 2002 Innviðaráðuneytið

Gagnaflutningsþjónusta í dreifbýli á Íslandi

Gagnaflutningsþjónusta í dreifbýli á Íslandi



Björn Davíðsson hjá Snerpu ehf. á Ísafirði
Ræða haldin á málþingi norræna ráðherraráðsins um upplýsingatækni í Osló 10. okt. 2002

Kæru ráðherrar og aðrir gestir.

Ég vil byrja á að þakka Tore Aarones fyrir hrósyrðin áðan og vil í því sambandi segja að mikið kallar á meira. Þeir sem ekki hafa DSL-aðgang eru í dreifbýlinu. Ég er úr dreifbýlinu.

Í dreifbýlinu erum við fá og það er langt á milli okkar. Þetta er vandi dreifbýlisins - fjarlægðir og fólksfæð. Fjarlægðir milli okkar eru miklar og frá okkur til þéttbýlisins. Fjarlægðin á hinn veginn, þ.e. frá þéttbýlinu til okkar er auðvitað mikið meiri. Það er hins vegar staðreynd að fólk í dreifbýli gerir sömu kröfur til upplýsingabyltingarinnar og þeir sem búa í þéttbýlinu.

Það er líka staðreynd að það er nauðsynlegt fyrir þjóðfélög okkar að landssvæðum sé öllum haldið í byggð. Ef aðgangur að meiri bandbreidd til að tengjast Netinu og myndfundakerfi til fjarnáms eru einungis aðgengileg í þéttbýli þá hefur tilgangur þessarar tækni glatað merkingu sinni. Við megum nefnilega ekki gleyma því að drifkrafturinn á bak við upplýsingatæknina er viljinn til að sigrast á fjarlægðum. Að það skipti ekki máli hvort við erum á Tálknafirði eða í Timbuktú.

Gagnaflutningskostnaður er hugtak sem lagt er út af í ræðu íslenska samgönguráðherrans. Það kemur ekki á óvart, því að dreifbýlið hefur í gegn um tíðina þurft að greiða umtalsvert hærri kostnað vegna gagnaflutninga og þar áður talsímakostnað en þeir sem þéttar búa. Skiptar skoðanir hafa verið um raunverulegan mun á tilkostnaði og hafa sumir bent á að það er t.d. ódýrara að plægja niður 10 km af ljósleiðara í dreifbýli en að brjóta upp 1 km af götum og gangstéttum í þéttbýli til að koma fyrir ljósleiðara fyrir 10 sinnum fleira fólk.

Það er grundvallarforsenda fyrir jöfnun búsetuskilyrða að þessi mismunur sé jafnaður út.

Á norðvesturhorni Íslands, þar sem ég bý og starfa, búa um átta þúsund íbúar á svipað mörgum ferkílómetrum lands, mestmegnis í litlum þorpum sem telja 200-500 íbúa auk byggðakjarnans Ísafjarðar en þar búa um 3.000 manns.

Sveitarfélagið Ísafjarðarbær nær yfir fimm firði alls þar sem áður voru átta sveitarfélög fyrir 15 árum síðan. Sú mikla landfræðilega stækkun á sveitarfélögum á Íslandi sem hefur orðið með sameiningu þeirra leiðir til þess að stjórnsýslan hefur nú þjappast saman. Hins vegar er líka hægt að segja það að stjórnsýslan heima á Íslandi er nú mikið nær almenningi, þar sem allar upplýsingar um gang mála, til dæmis fundargerðir, skráningar og samskipti við bæjaryfirvöld eru nú aðgengileg um Netið.

Netnotkun er mjög almenn en tvennt hefur þó virkað hamlandi. Í fyrsta lagi hefur ekki alls staðar verið hægt að notast við hærri hraða en ISDN á heimilum almennt. Í öðru lagi hefur verið mjög kostnaðarsamt að koma upp sítengdu sambandi með meiri bandbreidd þar sem þess er raunverulega þörf.

Fyrirtæki mitt, Snerpa, hefur talið sig verða að jafna kostnaði út á alla okkar notendur en halda samt sama verði og kollegar okkar á höfuðborgarsvæðinu bjóða. Auðvitað höfum við ekki verið í þeirri aðstöðu að geta boðið sömu bandbreidd en hámarkssamband sem við bjóðum í þessum þorpum, t.d. til fyrirtækja, heilsugæslu og grunnskóla er 512 kílóbit á sekúndu sem er á við áttfalt ISDN-samband.

Það segir sig sjálft að ef smáfyrirtæki eins og Snerpa geta jafnað kostnaði út á þennan hátt, að þá hljóta stóru símafélögin að geta gert það líka. - Þarna er tilvalið að bæta nýtingu á t.d. ATM-netunum.

Þegar að kemur að allir borgarar hafa aðgang að gagnaflutningsleiðum - jafnan aðgang - þá verður upplýsingaflæðið í samfélaginu betra, stjórnsýslan virkar betur og sá mismunur sem felst í fjarlægðum jafnast út. Stór hluti af virku lýðræði er aðgangur að fjölmiðlum og þessi grein á eftir að reiða sig mun meira á gagnaflutninga en upplýsingabyltingin.

Nú eru að fjölmargar sjónvarpsstöðvar að taka í notkun stafræna dreifingu með tækni sem gerir mögulegt að senda t.d. sjónvarpsrás á einum tíunda af þeirri bandbreidd sem áður þurfti. Núna sjást t.d. í heimabæ mínum fjórar sjónvarpsstöðvar og tvær í flestum þorpunum í kring með "gömlu" analog tækninni. Þessi nýja tækni þýðir að með sömu burðargetu í langlínukerfum er hægt að bjóða 40 rása sjónvarpsdagskrár. Þetta skiptir gífurlegu máli í norðlægu landi þar sem firðirnir eru svo þröngir að ekki er möguleg móttaka frá gerfihnöttum sem staðsettir eru yfir miðbaug.

Það verður óhjákvæmilega krafa á næstu mánuðum í dreifbýli, jafnt sem þéttbýli að íbúarnir eigi góðan, en fyrst og fremst jafnan aðgang að gagnaflutningi og það er ljóst að það mun einnig auðvelda til muna alla opinbera starfsemi, nokkuð sem allir eiga sjálfsagðan rétt á.

Góða og ódýra gagnaflutningsþjónustu fyrir alla.

Takk fyrir áheyrnina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum