Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. október 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 5. - 11. október 2002

Fréttapistill vikunnar
5. - 11. október


Skýrara og skilvirkara eftirlit með ávana- og fíknilyfjum

Stýrihópur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði í júlí 2002 til að skilgreina og meta þarfir Landlæknisembættisins, Lyfjastofnunar og TR (Tryggingastofnunar ríkisins) fyrir upplýsingar úr lyfjagagnagrunni TR hefur skilað tillögum sínum. Í skýrslun hópsins eru gerðar tillögur að breyttu fyrirkomulagi eftirlits með ávana- og fíknilyfjum, verkaskipting gerð skýrari og eftirlitið skilvirkara að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða. Gerðar eru tillögur að breytingum á lyfja- og læknalögum til að skjóta stoðum undir breytt fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir að geti tekið gildi eftir 2ja ára aðlögunartíma. Einnig gerir starfshópurinn tillögur að auknu samstarfi þeirra aðila sem sem koma að almennu faglegu og fjárhagslegu eftirliti með lyfjaávísunum. Þá fylgja skýrslunni einnig drög að reglum um meðhöndlun upplýsinga í lyfjagagnagrunnum (s.40-41). Stýrihópnum var falið að: 1) skilgreina sameiginlega fleti varðandi eftirlit með lyfjaávísunum lækna á eftirritunarskyld lyf og aðgang að gagnagrunninum, og greina nákvæmlega; 2) hvaða upplýsingar hver stofnun þarf á að halda, 3) hverskonar vinnsla á upplýsingum verði framkvæmd á hverjum stað, 4) hversu lengi þarf að geyma upplýsingarnar, 5) kanna að hve miklu leyti lagastoð fyrir vinnslunni er fyrir hendi, 6) og semja tillögur að þeim lagabreytingum sem kunna að reynast nauðsynlegar. Fyrrnefndar undirstofnanir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins koma að eftirliti varðandi lyfjaávísanir, lyfjanotkun og lyfjakostnað en hver með sínum hætti eftir hlutverki þeirra. Tillögur stýrihópsins taka mið af ólíku hlutverki þessara stofnana og ræðst aðgangur þeirra að gagnagrunnum af því. Tillögurnar miða að því að efla skilvirkt eftirlit með ávana- og fíknilyfjum en áhersla er jafnframt lögð á að gæta persónuverndarsjónarmiða. Einnig eru gerðar tillögur að lagabreytingum sem skilgreina lyfjagagnagrunn og tilgang hans ásamt því að skjóta lagastoðum undir þá vinnslu með persónuupplýsingar sem stýrihópurinn telur nauðsynlegar og eru rökstuddar í þarfagreiningum stofnananna. Stýrihópurinn leggur til aukið samstarf við almennt eftirlit með lyfjaávísunum lækna eins og þekkist víða í löndunum í kringum okkur. ,,Um er að ræða nýja hugsun og nýtt verklag sem byggist á upplýsingamiðlun til lækna og samstarfi þeirra aðila sem koma að faglegu og fjárhagslegu eftirliti." segir í skýrslu stýrihópsins.
SKÝRSLANi... (Pdf.skjal)

Fjölskyldan í brennidepli á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins 2002
Er velferðarkerfið fjölskylduvænt? Þessi spurning var umfjöllunarefni ársfundar TR (Tryggingastofnunar ríkisins) sem haldinn var í Salnum í Kópavogi í dag. Á fundinum fluttu erindi Ingibjörg Georgsdóttir, barnalæknir, Lára Björnsdóttir, félagsmálastjóri og séra Þórhallur Heimisson og fjölluðu þau öll um fjölskylduna og velferðarkerfið en frá ólíkum sjónarhornum. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði fundinn og lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi félagsfræðilegra rannsókna á sviðum sem tengjast ýmsum þáttum í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins. Nefndi hann í því sambandi að TR hefði átt þátt í að sett var saman félagsfræðileg úttekt á tilteknum þáttum íslenska velferðarkerfisins sem bar heitið Íslenska leiðin og mikið var fjallað um á sínum tíma. Ráðherra sagði að þótt ekki hefðu allir verið jafn ánægðir með allar niðurstöður höfunda bókarinnar hefði hún orðið tilefni lýðræðislegrar umræðu um velferðarmálin og það væri nauðsynlegt í þjóðfélagi eins og okkar. Ýmis tiltekin velferðarmál hefðu með henni verið sett í brennipunkt. Ráðherra sagði enn fremur: ,,Félagsfræðilegar rannsóknir á sviðum sem tengjast ýmsum þáttum í starfssemi Tryggingastofnunar ríkisins eru ekki aðeins nauðsynlegar til að efla umræður á opinberum vettvangi. Rannsóknirnar eru til dæmis líka nauðsynlegar til geta lagt drög að fyrirbyggjandi aðgerðum á sviði heilbrigðis-og tryggingamála. Ég er eindreginn hvatamaður þess að samfélagslegar rannsóknir, sem Tryggingastofnun ríkisins gæti þess vegna verið aðili að, til dæmis í þríhliða samstarfi TR, fyrirtækja og félagsvísindamanna, verði efldar. Og ég er raunar líka þeirrar skoðunar að TR gæti haft ákveðið frumkvæði að því að leiða saman þessa aðila til hagsbótar fyrir alla. Rannsóknir á sviði fjölskyldumála sýnist mér tilvalið verkefni og upplagt til þess í framhaldinu að geta tekið pólitískar ákvarðanir á grundvelli staðreynda eða rannsóknaniðurstaðna." Á heimasíðu Tryggingastofnunar eru aðgengileg erindi þeirra sem fluttu erindi á ársfundinum, ásamt ávarpi Bolla Héðinssonar, formanns Tryggingaráðs. Aðgangur að ræðu ráðherra er hér fyrir neðan.
RÆÐA RÁÐHERRA...

Þörf fyrir hormómameðferð verður endurmetin þar sem hættumat vegna hormónameðferðar hefur breyst
Landlæknisembættið hefur sent dreifibréf til allra lækna þar sem lagt er til að þörf fyrir hormónameðferð verði endurmetin. Þetta er gert í kjölfar viðamikillar bandarískrar rannsóknar sem sýndi að hormónameðferð eykur hættu á hjartaáfalli, blóðtappa og brjóstakrabbameini. Heilbrigðisyfirvöld víða um heim hafa brugðist við þessum upplýsingum. Hormónameðferð af því tagi sem hér er fjallað um hefur einkum verið beitt við tíðahvarfaeinkennum, sem forvörn eða meðferð við beinþynningu og sem möguleg vörn við hjarta- og æðasjúkdómum. í dreifibréfi Landlæknisembættisins til íslenskra lækna er skorað á þá að endurmeta þörf sjúklinga fyrir hormónameðferð með tilliti til þess að áhættumat hefur breyst og að í sumum tilfellum þurfi að hætta meðferð. Hér á landi hefur meira en helmingur kvenna 45 ára og eldri tekið hormóna. Landlæknir ítrekar í dreifibréfi sínu þau tilmæli að meðferð af þessu tagi sé endurskoðuð hjá þeim konum sem hennar njóta, að konan sé upplýst um kosti og galla meðferðarinnar og að ákvörðun í þessu efni eins og svo mörgu öðru sé sameiginleg ákvörðun læknis og sjúklings.
DREIFIBRÉF LANDLÆKNISEMBÆTTISINS...

Sjúkrahús á Landakoti í 100 ár
Liðin eru 100 ár síðan St. Jósefsspítali á Landakoti hóf rekstur. Tímamótanna verður minnst á afmælisdaginn sjálfan, miðvikudaginn 16. október, með kaffisamsæti sem haldið verður starfsfólki öldrunarsviðs og fyrrverandi starfsfólki Landakots. Öldrunarsvið stendur síðan fyrir fræðslu- og vísindadegi föstudaginn 18. október í Súlnasal Hótels Sögu. Dagskráin stendur frá kl. 09:00 til 14:30 og er öllum opin meðan húsrúm leyfir. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra og Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss flytja ávörp, Matthías Johannessen skáld og fyrrverandi ritstjóri  rekur minningar um Landakot og Ólafur H. Torfason rithöfundur rifjar upp orsakir og afleiðingar þess að St. Jósefssystur komu til Íslands.  Síðan verður fjallað um öldrunarsjúkdóma og  rannsóknir og vísindi sem tengjast þjónustu við aldraða og starfinu á Landakoti. Fjallað verður um Rannsóknarstofu í öldrunarfræðum, öldrunarteymi, líknardeild, heilabilun og byltur og beinvernd.

Bólusetningarátak gegn meningókokkum C
Sóttvarnarlæknir stendur fyrir bólusetningarátaki gegn meningókokkasjúkdómi af gerð C og hefst átakið 15. nóvember. Öll börn frá sex mánaða aldri og unglingar 18 ára og yngri fá ókeypis bólusetningu gegn sjúkdóminum á næstu mánuðum, alls um 80.000 einstaklingar. Framkvæmd átaksins er í höndum heilsugæslunnar í landinu. Á heimasíðu Landlæknisembættisins kemur fram að á undanförnum árum hefur sýkingum af völdum meningókokka C fjölgað hér á landi og hafa að meðaltali greinst 10 - 15 tilfelli á ári. Það er talsvert meiri tíðni en í flestum nágrannalöndum okkar. Sjúkdómurinn veldur lífshættulegri heilahimnubólgu og sýkingu í blóði. Hann dregur einn af hverjum tíu smitaðra til dauða og veldur alvarlegum afleiðingum hjá álíka stórum hópi. Heilahimnubólga af völdum meningókokka C herjar einkum á börn og unglinga.
NÁNAR Á HEIMASÍÐU LANDLÆKNISEMBÆTTISINS

...

Endurskoðun á skipulagi LSH
Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur samþykkt "Endurskoðun skipulags LSH" sem forstjóri sjúkrahússins lagði fyrir hana á fundi 9. október 2002. Þessi endurskoðun hófst skipulega um miðjan maí síðastliðinn en þegar klínískt sviðakerfi var samþykkt í júní 2000 var jafnframt ákveðið að endurskoða skipulag LSH eigi síðar en 1. október 2002. Nánar er fjallað um þetta á heimasíðu Landspítala - háskólasjúkrahúss. Þar er einnig hægt að lesa meginmál skýrslunnar þar sem fjallað er um endurskoðun skipulags sjúkrahússins, ásamt tillögum og tímasetningum og að auki er skýrslan birt í heild sem pdf. skjal.
HEIMASÍÐA LSH...


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
11. október 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum