Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. október 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 19. - 25. október 2002

Fréttapistill vikunnar
19. - 25. október 2002


Gerð mannaflaspár fyrir allar heilbrigðisstéttir í landinu í undirbúningi

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur hafið þróun mannaflaspár fyrir allar heilbrigðisstéttir sem starfa í íslenska heilbrigðiskerfinu. Með gerð mannaflaspár sem mun ná til næstu 10 ára og ennfremur spá um horfur næstu 30 árin er markmiðið að ráðuneytið geti metið væntanlegar breytingar í mönnun heilbrigðisþjónustunnar og brugðist við þeim í tíma. Verkefnið er mjög umfangsmikið og er því skipt upp í nokkra áfanga. Í fyrsta áfanga verkefnisins verður gerð mannaflaspá fyrir lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Samhliða því fer fram stærstur hluti nauðsynlegrar grunnvinnu til undirbúnings mannaflaspár fyrir allar aðrar heilbrigðisstéttir í landinu. Stefnt er að því að fyrsta áfanga verkefnisins verði lokið fyrir árslok 2003 og að eftir þrjú til fimm ár verði lokið þeirri undirbúninsvinnu sem er nauðsynlegt til þess að ráðuneytið geti reglulega gert spár um mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins. Allt verkefnið verður byggt á innlendum og erlendum fyrirmyndum en sérstaklega verður leitað í reynslubrunn annarra Norðurlandaþjóða á þessu sviði. Áætlana- og þróunarskrifstofa ráðuneytisins hefur umsjón með verkefninu.

Grunnlyfjalisti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar
Jón Kristjánsson , heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, ritaði á dögunum grein í Morgunblaðið í tilefni þess að nú eru 25 ár frá því Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út fyrsta grunnlyfjalistann (essential drug list). Hugsunin að baki útgáfu listans er sú í stuttu máli að með því að nota grunnþjónustu, sem fyrsta úrræði fyrir sjúka, og grunnlyf í stað dýrari lyfja þar sem áhrif eru sambærileg mætti tryggja öllum sama rétt til heilbrigðisþjónustu án þess að ofgera efnahag þjóða heims.
GREIN RÁÐHERRA...

Gro Harlem Brundtland, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, um alþjóðlegt mikilvægi grunnlyfjalistans
Í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá því Alþjóðaheilbrigðismálanefndin gaf út fyrsta formlega grunnlyfjalistann (essential drug list) hélt aðalframkvæmdastjóri samtakanna (WHO) Gro Harlem Brundtland ræðu þar sem hún undirstrikaði alþjóðlegt mikilvægi lyfjalistans. Í ræðunni vakti hún athygli á að 38 lönd í heiminum verðu minna en tveimur dölum (190 krónum) á mann á ári í lyf þrátt fyrir að alnæmi væri útbreiddur sjúkdómur í þessum löndum. Hún benti líka á að löndin verðu sum hver aðeins 1000 krónum á mann á ári til heilbrigðismála í heild. Til fróðleiks má geta þess að Íslendingar eru, einir Norðurlandaþjóða, í hópi fimm Evrópuþjóða, sem nota lyf fyrir meira en 300 dollara á mann á ári samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem birtar voru fyrir skemmstu. Hinar þjóðirnar eru: Þjóðverjar, Frakkar, Belgar, Svisslendingar, og Austurríkismenn. Gro Harlem Brundtland benti í ræðu sinni á að að lyfta mætti Grettistaki í hjartalækningum í heiminum fyrir 14 dollara meðferð á sjúkling á ári. Til væru ódýr hjartalyf á lyfjalistanum – lyf sem bjargað gætu lífi milljóna í heiminum án mikilla fjárútláta.
RÆÐAN...

Nýjar og bættar aðferðir við lögbundið eftirlit með heilbrigðisstofnunum
Hjá landlæknisembættinu er verið að ýta úr vör framkvæmd nýrra og bættra aðferða við lögbundið eftirlit embættisins með heilbrigðisstofnunum, en Landlækni ber samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu að hafa faglegt eftirlit með heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki. Fyrsta skrefið er úttekt á fjórum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni þar sem heilsugæslustöð og sjúkrahús eru starfrækt sem ein stofnun. Fyrir valinu urðu heilbrigðisstofnanirnar á Akranesi og í Vestmannaeyjum, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Þegar reynsla er fengin af skilvirkni hinna nýju aðferða er ráðgert að hefja skipulegt eftirlit með öllum heilbrigðisstofnunum í landinu. Nánar er sagt frá þeim nýju aðferðum sem beitt verður við eftirlitið á heimasíðu landlæknisembættisins.
NÁNAR...

Velferðarsjóður barna ætlar að koma á fót hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik börn

Velferðarsjóður barna hefur að undanförnu unnið að undirbúningi þess að koma á fót hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik börn í samvinnu við Umhyggju, stuðningsfélag langveikra barna. Vilyrði hefur fengist fyrir lóð undir heimilið í Kópavogi, þar sem hluti Kópavogshælis var. Talið er að leggja þurfi um fimmtíu milljónir króna í húsnæði og tækjakaup og er þetta eitt stærsta verkefni Velferðarsjóðsins um þessar mundir sem hefur um 80 milljónir króna til ráðstöfunar á ári. Takist samningar um rekstur heimilisins er stefnt að því að heimilið verði tekið í notkun næsta haust. Framkvæmdastjóri Velferðarsjóðs barna er Ingibjörg Pálmadóttir.
SKIPULAGSSKRÁ FYRIR VLEFERÐARSJÓÐ BARNA...

Tekjutenging styrkja og uppbóta felld niður með nýrri reglugerð um styrki hreyfihamlaðra til bifreiðakaupa
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur undirritað nýja reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Markmið nýju reglugerðarinnar er að auðvelda umsækjendum að sækja um lögbundna styrki og uppbætur frá TR. Jafnframt er með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða leitast við að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, eða skóla, þó önnur sjónarmið geti einnig réttlætt slíkar bætur, s.s. hvort sækja þurfi reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð. Þá er markmið með styrkveitingu til ökuþjálfunar að aðstoða mikið hreyfihamlaðra einstaklinga til að verða betri bílstjórar og stuðla með því að öryggi þeirra og annarra í umferðinni. Veigamikil breyting skv. nýju reglugerðinni er að tekjutenging á styrkjum og uppbótum er felld niður, ekki er gert ráð fyrir að eignir umsækjenda hafi áhrif á matið og nú verður styrkjum og uppbótum vegna bifreiðakaupa úthlutað fjórum sinnum á ári í stað einu sinni áður. Er með þessum breytingum komið til móts við óskir samtaka öryrkja og aldraðra.
NÁNAR...

Efnt til fræðslu- og forvarnarátaks í baráttunni gegn ristilkrabbameini
Félag sérfræðinga í meltingarsjúkdómum, landlæknisembættið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið efna nú til forvarnarverkefnis í því skyni að fræða almenning um ristilkrabbamein og auka árvekni fólks gagnvart sjúkdómnum. Tilgangurinn er að fækka dauðsföllum af völdum ristilkrabbameins en lífshorfur sjúklinga eru mjög háðar því á hvaða stigi sjúkdómurinn greinist. Fjörutíu til fimmtíu manns deyja árlega hér á landi úr ristilkrabbameini. Ristilkrabbamein er önnur algengasta dánarorsökin af völdum krabbameina á Íslandi. Það er jafnframt þriðja algengasta krabbameinið hér á landi hvað nýgengi varðar og hefur nýgengi þess aukist um nær helming undanfarna áratugi. Nýgengi meinsins er lágt meðal fólks undir fimmtugu en fer vaxandi eftir að þeim aldri er náð. Á næstunni verður fræðslubæklingur um ristilkrabbamein sendur inn á hvert heimili í landinu auk þess sem fræðslu til almennings verður komið á framfæri í fjölmiðlum. Þá hefur verið settur á fót vinnuhópur sem á að meta hvort ástæða sé til að efna til skipulegrar leitar eða skimunar vegna ristilkrabbameins líkt og gert hefur verið í baráttunni við leghálskrabbamein með góðum árangri.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
25. október 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum