Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. nóvember 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 2. - 8. nóvember 2002

Fréttapistill vikunnar
2. - 8. nóvember 2002


Tryggingastofnun og tannlæknar semja
Samninganefndir heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra og Tannlæknafélags Íslands gerðu í vikunni samskiptasamning f.h. Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands til tveggja ára, en samningur hefur ekki verið í gildi milli aðila frá árinu 1998. Samskiptasamningurinn felur í sér að endurgreiðslur til þeirra sem eiga rétt á þeim hækka allt að 22% frá áramótum þegar ný gjaldskrá heilbrigðismálaráðherra tekur gildi með nýrri reglugerð.
Hjartavernd gerir samninga við bandarískar heilbrigðisstofnanir um viðamiklar rannsóknir á sviði öldrunar

Hjartavernd hefur gert rannsóknarsamninga við bandarískar heilbrigðisstofnanir um öldrunarrannsóknir fyrir rúma tvo milljarða króna. Í fyrra gerði Hjartavernd samning við Öldrunarstofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins vegna umfangsmikillar öldrunarrannsóknar og nam styrkur stofnunarinnar rúmum 1.700 milljónum króna. Samningarnir sem Hjartavernd hefur nú undirritað eru við Heyrnarrannsóknarstofnun og Augnstofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins. Verðmæti þessara samninga er um 350 milljónir króna og veita þeir Hjartavernd einstakt tækifæri til að kanna aldursbundnar breytingar á sjón og heyrn sem hvoru tveggja eru þættir er ráða miklu um færni og lífsgæði einstaklinga á efri árum. Hluta styrkfjárins verður varið til kaupa á fullkomnum búnaði til rannsókna á sjón og heyrn.

Rúmlega 50% sængurkvenna fara heim innan sólarhrings eftir fæðingu barns
Undanfarin ár hafa fæðingar verið nokkuð á fimmta þúsund hér á landi og voru samtals 4.369 árið 2000. Um 70% fæðinga fara fram á kvennadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss en tekið er á móti börnum á 15 stöðum á landinu. Þetta er meðal þess sem fram kom í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi nýlega. Spurt var hvaða leiðir ráðherra sæi færar til að auka val kvenna á fæðingaraðstæðum og hvort hann hyggðist beita sér fyrir fleiri möguleikum, t.d. með áherslu á heimafæðingar eða fæðingar á minni stofnunum utan hátæknisjúkrahúsa. Í svari ráðherra kom einnig fram að rúmlega helmingur sængurkvenna velur að fara heim innan sólarhrings eftir fæðingu og njóta heimaþjónustu. Boðið er upp á góða heimaþjónustu við sængurkonur á Akureyri og í Reykjavík. Ráðherra segir heimaþjónustu annars staðar af skornum skammti og þurfi að efla hana til að konur sem ekki fæða í heimabyggð geti farið sem fyrst heim. Brýnt sé að auka umfang heimaþjónustu og skerpa á skilyrðum sem ljósmæður þurfa að uppfylla til að geta sinnt henni. Af þeim fimmtán stöðum á landinu þar sem tekið er á móti börnum eru fæðingar hundrað eða fleiri á fimm þeirra, um 50 á tveimur stöðum en mun færri annars staðar. Ráðherra benti á að nágrannaþjóðirnar notast við ákveðið viðmið um fjölda fæðinga að lágmarki svo starfsfólk haldi eðlilegri þjálfun og er t.d. í Noregi miðað við 100 fæðingar á ári en 400 í Svíþjóð. Ráðherra sagði það skoðun sína að valmöguleikar kvenna um fæðingaraðstæður væru margir og: ,,Þó að víða sé nauðsynlegt að svokölluð hátækni sé til staðar þá er meiri hluti fæðinga venjuleg fæðingarhjálp þar sem reynt er að gera umhverfið allt hið alúðlegasta þó að eðlilegri tækja- og tækniþróun sé fylgt. Á þessum forsendum tel ég ekki þörf á að leggja sérstaka áherslu á fjölgun heimafæðinga eða á fæðingar á minni stofnunum."

Framtíðaruppbygging Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að skipa nefnd um framtíðaruppbyggingu, þróun og skipulag Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA). Í nefndinni eru þau Elsa B. Friðfinnsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, formaður, Halldór Jónsson, forstjóri FSA, varaformaður, Bjarni Hjarðar, formaður stjórnar FSA, Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu, Þórarinn J. Sigurðsson, deildarforseti, af hálfu Háskólans á Akureyri, Guðmundur Ómar Guðmundsson, af hálfu bæjarráðs Akureyrarbæjar, og Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA.
NÁNAR...

Landlæknisembættið auglýsir eftir styrkumsóknum úr tveimur sjóðum

Landlæknisembættið hefur auglýst til umsóknar styrki úr Jólagjafasjóði Andrésar Guðmundssonar, gullsmiðs. Samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins er tilgangur hans að veita styrki til verkefna sem stofnað er til í þeim tilgangi að bæta umönnun barna og aldraðra sem dvelja langtímum á stofnunum (nánar). Þá er einnig auglýstur til umsóknar rannsóknarstyrkur úr Minningarsjóði Bergþóru Magnúsdóttur og Jakobs B. Bjarnasonar en tilgangur hans er að styrkja kaup á lækninga- og rannsóknartækjum til sjúkrastofnana og að veita vísindamönnum í læknisfræði styrki til framhaldsnáms eða sjálfstæðra vísindaiðkana (nánar). Frestur til að sækja um í báða framantalda sjóði rennur út 1. desember.

Opnun nýrrar hjarta- og lungnaskurðlækningadeildar við Hringbraut
Hjartalækningar við Landspítala - háskólasjúkrahúss sameinuðust formlega í dag með opnun nýrrar hjarta- og lungnaskurðlækningadeildar sjúkrahússins á deild 12E við Hringbraut. Með opnun deildarinnar lýkur mikilli endurskipulagningu sem þurft hefur að gera á starfsemi sjúkrahússins og húsnæði þess vegna sameiningar hjartalækninga. Á 12E verður einnig legudeild fyrir augnsjúklinga.



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
8. nóvember 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum