Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. nóvember 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 9. - 15. nóvember 2002

Fréttapistill vikunnar
9. - 15. nóvember 2002


Notkun blóðfitulækkandi lyfja hefur margfaldast á fáum árum

Veruleg aukning hefur orðið í notkun blóðfitulækkandi lyfja af tegundinni HMG CoA redúktasa helma, öðru nafni statín, á undanförnum tíu árum. Þetta kemur fram í samantekt skrifstofu lyfjamála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Árið 1993 voru skilgreindir dagskammtar á hverja 1000 íbúa af blóðfitulækkandi lyfjum af tegundinni statín 2,9. Árið 2001 voru dagskammtarnir um 45 og á þessu ári er reiknað með að skilgreindir dagskammtar verði um 50. Nýgengi hjarta- og æðasjúkdóma fer minnkandi hér á landi en þeir eru engu að síður ein helsta dánarorsök Íslendinga. Notkun blóðfitulækkandi lyfja hefur forvarnargildi. Þrátt fyrir mikinn kostnað vegna vaxandi notkunar blóðfitulækkandi lyfja verður þessi þróun að teljast jákvæð því allt bendir nú til þess að þeir sem mest þurfa á þessum lyfjum að halda séu einmitt að fá þau. Kostnaður vegna blóðfitulækkandi statín - lyfja var árið 1993 á milli 50 og 60 milljónir króna miðað við apóteksverð. Reiknað er með að kostnaðurinn fari yfir 600 milljónir króna á þessu ári. Sex mismunandi statín hafa verið á markaði hér en notkunin er langmest á Simvastatín og Atorvastatín. Notkun atorvastatíns hefur farið vaxandi en benda má á að dagskammtur þess lyfs er að meðaltali ódýrastur.
NÁNAR... (Pdf.skjal)

Nýr samningur við tannlækna markar tímamót í samskiptum þeirra og heilbrigðisyfirvalda
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálráðherra, sagði á Alþingi að með tannlæknasamningnum sem undirritaður var á dögunum á milli samninganefnda hans og Tannlæknafélags Íslands hafi orðið tímamót í samskiptum heilbrigðisyfirvalda og tannlækna. Lét ráðherra þessi orð falla þegar hann svaraði fyrirspurn frá Margréti Frímannsdóttur, 3. þingmanni Sunnlendinga sem lagði eftirfarandi spurningar fyrir ráðherra: Hefur verið gengið frá samningum milli Tryggingastofnunar og tannlækna um gjaldskrá fyrir endurgreiðslu á tannlæknaþjónustu? Ef svo er, hvað felst í þeim samningi, og ef ekki, má vænta breytinga á gildandi gjaldskrá Tryggingastofnunar fyrir tannlæknaþjónustu?
SVAR RÁÐHERRA...

Nauðsynlegt að fylgja þróun annarra þjóða í notkun rafrænna samskipta á heilbrigðissviði
Velheppnaðri ráðstefnu heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins um Íslenska heilbrigðisnetið lauk í Salnum í Kópavogi síðdegis á fimmtudag. Tíu yfirlitsræður og erindi voru flutt á ráðstefnunni sem lauk með fyrirspurnum og umræðum um stöðu og framtíðarhorfur Íslenska heilbrigðisnetsins. Í umræðum á ráðstefnunni kom fram að halda þyrfti vel á spöðunum á þessu sviði til að dragast ekki aftur úr öðrum þjóðum sem leggja vaxandi áherslu á að byggja upp heilbrigðisnet svo nýta megi rafræn samskipti á heilbrigðissviði. Hér að neðan má nálgast dagskrá ráðstefnunnar, ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálraáðherra, og erindi eða útdrætti úr erindum ásamt glærum frá ráðstefnunni.
NÁNAR...

Ríkisstjórnin hefur staðfest framhald á forvarnarverkefni sem fram fer í Gamla apótekinu á Ísafirði
Framhald verður á starfseminni í Gamla apótekinu á Ísafirði en þar hefur verið unnið að forvörnum fyrir unglinga og hafa ýmsir lykilaðilar komið sameiginlega að málinu. Samkomulag um þetta var staðfest á fundi ríkisstjórnarinnar í dag, föstudag. Þrjú ráðuneyti standa að verkefninu, þ.e. heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Hvert þeirra leggur verkefninu til 1,5 milljónir króna ár ári í tvö ár, fyrst árið 2003. Verkefnið er unnið í samstarfi við lögreglu, félagsmálayfirvöld, skóla, foreldrafélög, heilsugæslu og fleiri. Gamla apótekið er menningarmiðstöð þar sem áhersla er lögð á metnaðarfullt starf, sérsniðið að þörfum ungs fólks í þroskandi, skapandi, heilbrigðu og krefjandi umhverfi. Hver einstaklingur á að fá að njóta sín sem fullgidlur þátttakandi í starfseminni á sínum eigin forsendum, svo framarlega sem þær stangast ekki á við grundvallarreglur starfseminnar.

Ný og bætt vefsíða Landspítala - háskólasjúkrahús stóreykur möguleika á upplýsingamiðlun til almennings
Í vikunni var opnaður nýr upplýsingavefur Landspítala - háskólasjúkrahúss. Nýtt og endurbætt útlit mætir notendum þar sem auðvelt er að nálgast hafsjó upplýsinga um Landspítala - háskólasjúkrahús. Á forsíðu eru fréttir af starfsemi sjúkrahússins, dagbók um helstu viðburði ásamt flýtileiðum að margskonar fróðleik. Áhersla er lögð á aðgengilegar upplýsingar til sjúklinga og aðstandenda sem eiga að geta fundið það helsta sem þeir þurfa að vita um sjúkrahúsið á Netinu. Formleg opnun fór fram í lok fundar framkvæmdastjórnar LSH með fulltrúum nokkurra samtaka sjúklinga. Fundurinn var liður í röð kynningarfunda sem framkvæmdastjórn sjúkrahússins hefur staðið fyrir að undanförnu með ýmsum hópum í samfélaginu.
LSH.IS...

Stjórnarnefnd LSH hefur staðfest skipulagsskrá og starfsreglur lífsýnasafns sjúkrahússins
Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) hefur staðfest skipulagsskrá og starfsreglur lífsýnasafns sjúkrahússins á Rannsóknastofu Háskólans í meinafræðum (RHM). Safnið er hluti af sjúkrahúsinu. Markmið þess er að varðveita öll vefja- og frumusýni sem send eru RHM til sjúkdómsgreiningar og/eða vísindarannsókna. Lífsýnasafnið veitir aðgang að sýnum safnsins vegna þjónustu við sjúklinga og til vísindarannsókna í samræmi við lög og reglur þar að lútandi.
SKIPULAGSSKRÁ OG STARFSREGLUR...



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
15. nóvember 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum