Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. nóvember 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 16.-22. nóvember 2002

Fréttapistill vikunnar
16.-22. nóvember 2002



Uppbygging heilsugæslunnar í Kópavogi

Tekið hefur verið á leigu 900 fermetra húsnæði undir starfsemi nýrrar heilsugæslustöðvar í Kópavogi í Salahverfi. Reksturinn verður boðinn út og er undirbúningur á lokastigi. Þjónustusvæði nýju heilsugæslustöðvarinnar nær til um 4.200 manns í dag. Þetta kom fram í svari heilbrigðisráðherra við þremur fyrirspurnum Gunnars Birgissonar, 2. þingmanns Reyknesinga, í vikunni.
NÁNAR...

Unnið að gerð leiðbeininga um meðferð vegna offitu barna
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, svaraði í vikunni fyrirspurn frá Sigríði Ingvarsdóttur, 4. þingmanni Norðurlands-vestra, sem spurði um lyfjagjöf til of feitra barna, hversu mörg börn séu á lyfjum við fylgikvillum offitu og hvaða úrræði önnur en lyfjagjöf séu tiltæk fyrir þessi börn. Í svari ráðherra kom m.a. fram að á vegum landlæknisembættisins er starfandi vinnuhópur sem vinnur að gerð leiðbeininga um meðferð vegna offitu barna og er niðurstaðna vinnuhópsins að vænta fyrir árslok.
NÁNAR...

Starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þökkuð viðbrögð við erfiðu ástandi þar
Starfsfólk á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á hrós skilið fyrir viðbrögð við erfiðu ástandi í Reykjanesbæ eftir að heilsugæslulæknarnir hurfu á brott, en bráðamóttaka var styrkt sérstaklega á sjúkrahúsinu svo sinna mætti öllum neyðartilvikum. Þetta kom fram í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, á Alþingi þegar hann svaraði fyrirspurn frá Margréti Frímannsdóttur um kostnað af heilsugæslu og þá einkum um kostnað íbúa á heilsugæslusvæðum þar sem heimilislæknar eru ekki við störf.
NÁNAR...

Ný könnun á heimtum barna til tannlækna
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið stóð nýlega fyrir könnun á því hverjar væru heimtur barna 18 ára og yngri til tannlækna. Könnunin náði yfir tímabilið 1. janúar 2001 - 30. júní 2002 og tók til allra sjúkratryggðra barna á Íslandi. Þetta er sambærileg könnun og gerð var fyrir ári og gefur því kost á samanburði. Niðurstöður nýju könnunarinnar leiddu í ljós að 35,9% barna á aldrinum 0 - 18 ára fóru aldrei til tannlæknis á því eina og hálfa ári sem könnunin tók til. Hlutfall grunnskólabarna (6 - 15 ára) sem ekki fóru til tannlæknis á tímabilinu var 19,2% og 22,5% barna á aldrinum 4 - 18 ára heimsóttu ekki tannlækni á þessu 18 mánaða tímabili. Miðað við niðurstöður sambærilegrar könnunarinnar sem gerð var fyrir jafn langt tímabil árið 2000 - 2001 eru heldur fleiri börn nú sem ekki fara til tannlæknis. Þegar niðurstöður könnunarinnar eru skoðaðar eftir landshlutum sýnir sig að fæst börn á aldrinum 4 - 18 ára skila sér til tannlækna á Vestfjörðum (22,3%) og á höfuðborgarsvæðinu (20,0%). Á Austurlandi eru heimtur hins vegar mun betri, en þar var hlutfall barna sem ekki skilaði sér til tannlæknis á tímabilinu 9,1%. Upplýsingar um heimtur barna til tannlæknis eru mikilvægar þegar unnið er að stefnumótun á sviði tannverndar. Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er bætt tannheilsa barna og unglinga meðal forgangsverkefna. Þar er stefnt að því að tannskemmdastuðull (DMFT) 12 ára barna verði minni en 1,0 árið 2010, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er nú talið að stuðullinn sé um 1,5 hjá 12 ára börnum á Íslandi.
GREININ...

Norrænir ráðherrar hafna því að leyfa notkun vímuefna sem nú eru ólögleg
Norrænir ráðherrar sem bera ábyrgð á vímuvörnum og baráttunni gegn meðferð og neyslu vímuefna samþykktu á fundi sínum í Osló sameiginlega yfirlýsingu þar sem áhersla er lögð á að veita fíkniefnaneytendum aðstoð og hjálp, en meginþema fundarins var "Opinber umræða um fíkniefnamál á Norðurlöndum". Í fréttatilkynningu ráðherranna segir meðal annars að "nauðsynlegt sé að hjálpa þeim eiturlyfjaneytendum sem lengst eru leiddir til að bjarga lífi þeirra og takmarka afleiðingar neyslunnar og að neyslan sjálf svipti menn ekki réttinum til hjálpar." Ráðherrarnir lýsa jafnframt yfir því að þeir hafni því að "leyfa notkun tiltekinna vímuefna sem eru ólögleg í dag." Fram kom á fundinum að norrænu ráðherrarnir eru uggandi vegna vaxandi fíkniefnaneyslu og tilheyrandi smitsjúkdóma meðal grannþjóða norrænna manna. Af því tilefni samþykktu ráðherrarnir áætlun um samvinnu Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Norðvestur-Rússlands á vímuvarnasviðinu. Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, var fulltrúi Íslands á fundinum, auk embættismanna frá félags-, dóms- og heilbrigðismálaráðuneytunum.

Ný heimasíða greiðsluþátttökunefndar
Greiðsluþátttökunefnd sem skipuð er af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra samkvæmt 41. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 hefur opnað heimasíðu til upplýsingar fyrir þá sem til nefndarinnar leita. Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um greiðsluþátttöku almannatrygginga í nýjum lyfjum sem veitt hefur verið markaðsleyfi hér á landi og innihalda virk efni sem ekki voru á markaði í júní árið 2000. Einnig fjallar nefndin um greiðsluþátttöku lyfja sem veitt hefur verið undanþága fyrir, samkvæmt lyfjalögum. Nefndin starfar samkvæmt reglugerð nr. 128/2002. Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn samkvæmt tilnefningu fjármálaráðuneytis, Landlæknis, Læknadeildar Háskóla Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins. Heilbrigðisráðherra skipar formann nefndarinnar. Í nefndinni skulu sitja fagmenn á sviði læknisfræði, lyfjafræði og fjármála. Á skrifstofu greiðsluþátttökunefndar er umsóknum um greiðsluþátttöku veitt móttaka af starfsmanni nefndarinnar. Hann er einnig tengiliður við nefndarmenn varðandi fyrirspurnir, bréfaskriftir o.fl. Einnig veitir hann leiðbeiningar um frágang umsókna og útfyllingu umsóknareyðublaða sem nota skal við gerð umsókna um greiðsluþátttöku. Eitt meginverkefni starfsmannsins er að vinna við hagrænar greiningar og upplýsingaöflun í sambandi við innsendar umsóknir og undirbúning fyrir umfjöllun þeirra á vegum nefndarinnar. Aðsetur greiðsluþátttökunefndar er í Reykjavík á Rauðarárstíg 31, 3. hæð.
HEIMASÍÐAN...

Starfshópi falið að staðfesta mörk milli greiðslna TR og stofnana fyrir hjálpartæki
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp, sem fær það hlutverk að staðfesta hvar mörkin eru milli þess hvað Tryggingastofnun ríkisins annars vegar og stofnanir (sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, hjúkrunar- og vistheimili, sambýli o.s.frv.) hins vegar ber að greiða af hjálpartækjum hverju sinni. Formaður starfshópsins er Björk Pálsdóttir, iðjuþjálfi. Auk hennar sitja í starfshópnum Stefán Yngvason, læknir og Vilborg Hauksdóttir, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.


Evrópuþingið samþykkir bann við tóbaksauglýsingum
Tillaga um bann við tóbaksauglýsingum var samþykkt með 311 atkvæðum gegn 202 á Evrópuþinginu í Strassborg í vikunni. Bannið á að taka til allra auglýsinga á tóbaki í dagblöðum, tímaritum og á internetinu. Þá verður tóbaksframleiðendum einnig bannað að styðja fjölþjóðlega íþróttaviðburði, eins og t.d. Formúlu 1. Evrópudómstóllinn úrskurðaði fyrir tveimur árum gegn fyrri tillögu um bann við tóbaksauglýsingum í Evrópusambandinu. Tillaga Evrópuþingsins sem er lítillega breytt frá hinni eldri, á enn eftir að fá samþykki ráðherraráðsins áður en bannið verður að veruleika. Tóbaksframleiðendur og blaðaútgefendur hafa þegar lýst því yfir að samþykki ráðherraráðið tillöguna verði bannið enn á ný kært til dómstólsins.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
22. nóvember 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum