Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. nóvember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðstæður barna hjá dagmæðrum

Út er komin á vegum félagsmálaráðuneytis skýrsla um aðstæður barna hjá dagmæðrum. Tæplega 2.400 börn eru í daggæslu í heimahúsum hér á landi, en starfandi dagmæður eru 460. Í skýrslunni er að finna niðurstöður könnunar sem ráðuneytið lét gera í öllum sveitarfélögum með 1.000 íbúa og fleiri og einnig á tveimur svæðum þar sem sveitarfélög hafa sameinast um félagsþjónustu sveitarfélaga. Skýrslan hefur meðal annars að geyma upplýsingar um heildarfjölda dagmæðra og fjölda, aldur og dvalartíma barnanna. Einnig er þar að finna upplýsingar um heimili dagmæðranna, aldur þeirra og starfsaldur og kannað var hvernig leyfisveitingum, eftirliti og stuðningi af hálfu sveitarfélaga er háttað. Könnunin var framkvæmd í desember 2001 og voru fyrstu niðurstöður kynntar á síðastliðnu vori, en nú hefur heildarskýrsla um þetta efni verið gefin út.

Í niðurstöðum kemur meðal annars fram að flestar dagmæðranna starfa á höfuðborgarsvæðinu og þar eru einnig hlutfallslega flest börn í gæslu miðað við fjölda barna á aldrinum 0 til 5 ára. Algengasti dvalartíminn er átta klukkustundir milli kl. 8 og 16 daglega, en dæmi eru um lengri dvalartíma, allt að 12 tímum. Í heild voru á þessum tíma um 215 börn umfram leyfilegan fjölda barna í daggæslu á einhverjum tíma dagsins sem er 9% af heildarfjölda barnanna. Algengast var að börnin væru of mörg fyrir hádegi, en fátítt að þau væru of mörg allan daginn. Félagsmálanefndir sveitarfélaganna veita leyfi til daggæslu barna í heimahúsum og felur leyfið í sér heimild til að hafa fjögur börn í gæslu fyrsta árið og fimm börn eftir eins árs farsælt starf.

Dagmæður þurfa að leggja fram ýmis gögn og uppfylla skilyrði áður en leyfi til daggæslu er veitt. Einungis 76% dagmæðranna höfðu lokið námskeiði sem er eitt af skilyrðunum. Langflestar höfðu skilað inn sakavottorði og læknisvottorði en skoðun eldvarnaeftirlits á heimili dagmæðranna lá fyrir hjá um 66% dagmæðranna.

Könnun félagsmálaráðuneytis:

Skjal fyrir Acrobat ReaderAðstæður barna hjá dagmæðrum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum