Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. desember 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 31. nóv. - 6. des. 2002

Fréttapistill vikunnar
31. nóv. - 6. des. 2002



Ríkið yfirtekur 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva

Ríkið mun yfirtaka 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva verði nýtt frumvarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu að lögum. Ráðherra kynnti frumvarpið á fundi ríkisstjórnar í dag (6. des.) og verður það lagt fram á Alþingi á næstunni. Frumvarpið er samið í samráði við fjármálaráðuneytið í framhaldi af samkomulagi ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem undirritað var 4. desember sl. Ákvæði laganna um hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiriháttar viðhaldi og tækjakaupum mun haldast óbreytt að því er varðar hjúkrunarheimili. Í framhaldi af samkomulaginu verða stjórnir heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa lagðar niður. Sveitarstjórnir munu fá fulltrúa í nefnd sem meta skal hæfi umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra. Áætlað er að árlegur kostnaður sveitarfélaga sem ríkið yfirtekur með þessari breytingu nemi að meðaltali um 100 milljónum króna og verður framlag ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga lækkað til samræmis við það.

Athugasemd frá ráðuneytinu: Persónuvernd hefur aldrei mælt gegn lyfjagagnagrunni
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gerir athugasemd við frétt í Fréttablaðinu í dag 6. desember sem birtist undir fyrirsögninni "Persónuvernd mælir gegn lyfjagrunni". Ráðuneytið vill koma því á framfæri að þetta er ekki rétt. Persónuvernd hefur aldrei mælt gegn lyfjagagnagrunni en hefur aftur á móti í bréfi til ráðuneytisins, dags. 18. nóvember sl. gert efnislegar tillögur og athugasemdir við frumvarp heilbrigðisráðherra um lyfjagagnagrunna.
NÁNAR...

Frumvörp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á 128. löggjafarþingi
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fram eftirtalin frumvörp á 128. löggjafarþingi sem nú stendur yfir. Frumvarp um breytingu á lyfjalögum og læknalögum bíður fyrstu umræðu á Alþingi. Í athugasemd með frumvarpinu segir að megintilgangur þess sé "að skjóta lagastoð undir starfrækslu Tryggingastofnunar ríkisins á lyfjagagnagrunnum og mæla fyrir um aðgangsheimildir stofnunarinnar, landlæknisembættisins og Lyfjastofnunar að slíkum grunnum í nánar tilgreindum tilvikum. Þá er hlutverk landlæknisembættisins og Lyfjastofnunar til eftirlits á sviði ávana- og fíknilyfja aukið. Þá bíður einnig fyrstu umræðu frumvarp um Lýðheilsustöð og frumvarp um breytingu á lögum um tóbaksvarnir sem miðar að því að breyta lögum um tóbaksvarnir til samræmis við tilskipun 2001/37/EB frá Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins um framleiðslu, kynningu og sölu tóbaksvarnings. Þá er til umfjöllunar í heilbrigðis- og trygginganefnd frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar sem varðar lækkun skerðingarprósentu tekjutryggingarauka vegna annarra tekna úr 67% í 45%. Annarrar umræðu bíður frumvarp um breytingu á lögum um málefni aldraðra þar sem lagt er til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað úr 4.826 kr.í 5.440 kr. Ef miðað er við 163.000 gjaldendur á árinu 2003 hækka ríkistekjur frá fjárlögum þessa árs um 123 m.kr. sem renna til Framkvæmdasjóðs aldraðra verði frumvarpið að lögum.

Bætur almannatrygginga hækka umfram árlega almenna hækkun
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur staðfest reglugerð nr. 823 um hækkun bóta almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, og skulu þær hækka frá 1. janúar um 3,2% frá því sem þær eru nú í desember. Að auki er í reglugerðinni kveðið á um hækkanir tekjutryggingar og tekjutryggingarauka umfram almennu hækkunina.
REGLUGERÐIN...

Nýr bæklingur, Leiðbeiningar um getnaðarvarnir er kominn út hjá Landlæknisembættinu
Landlæknisembættið hefur gefið út nýjan bækling, Leiðbeiningar um getnaðarvarnir. Hann leysir af hólmi eldri bækling um sama efni; Tíu aðferðir til að koma í veg fyrir getnað. Í nýja bæklingnum hafa bæst við upplýsingar um þrjár tegundir getnaðarvarna sem komið hafa fram á síðustu árum. Yngsta nýjungin, hormómahringurinn, kom á markað hér á landi fyrir aðeins fáeinum vikum. Bæklingnum er dreift endurgjaldslaust og verður hægt að nálgast hann m.a. á heilsugæslustöðvum og hjá Landlæknisembættinu.  Prentsmiðjan Oddi annast dreifingu bæklingsins til heilbrigðisstofnana og annarra stofnana. Þar má panta bæklinginn og þarf aðeins að greiða fyrir sendingarkostnað. Einnig er hægt að nálgast bæklinginn á heimasíðu landlæknisembættisins.
NÁNAR...

Fyrirhugað að byggja við Blóðbankann
Vinnuhópur sem forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss setti á fót í júní sl. til að kanna leiðir til úrbóta í húsnæðismálum Blóðbankans hefur skilað tillögum sínum. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að byggt verði við Blóðbankann 992 fermetra bygging, en núverandi húsnæði er 654 fermetrar. Teikning af viðbyggingunni liggur fyrir og er nú verið að leita heimildar í fjárlögum vegna hennar. Áætlaður kostnaður er 250 milljónir króna að meðtöldum kostnaði við endurbætur á núverandi húsnæði. Málið hefur verið unnið í samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins og er hugmynd að vinna verkið í einkaframkvæmd.
NÁNAR...

Blóðgjafar brugðust skjótt við neyðarástandi
Aldrei hafa fleiri gefið blóð á jafnskömmum tíma og undanfarna daga í kjölfar neyðarkalls Blóðbankans vegna blóðskorts. Þetta kemur fram á heimasíðu Landspítala - háskólasjúkrahúss. Frá mánudegi til föstudags komu yfir 750 manns í Blóðbankann og 100 manns í blóðsöfnunarbílinn. Vikulega leggja að jafnaði um 350 manns leið sína í Blóðbankann til að gefa blóð. Lagerstaða í Blóðbankanum er aftur góð en þótt vel hafi til tekist vekur Blóðbankinn athygli á mikilli og stöðugri þörf á blóði. Starfsfólk Blóðbankans þakkar fyrir góð viðbrögð og væntir þess að sem allra flestir líti þar inn nú fyrir jólin og gefi blóð. Allar upplýsingar um blóðgjöf er að finna á heimasíðu Blóðbankans.
BLÓÐBANKINN...



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
06. desember 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum