Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. desember 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-nóvember 2002. Greinargerð: 19. desember 2002.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-nóvember 2002 (PDF 17K)

Nú liggja fyrir tölur um greiðsluafkomu ríkissjóðs til nóvemberloka. Tölurnar hér á eftir sýna sjóðhreyfingar og eru sambærilegar við almenn sjóðstreymisyfirlit. Þær eru hins vegar ekki samanburðarhæfar við ríkisreikning eða fjárlög ársins sem eru sett fram á rekstrargrunni.

Tölurnar endurspegla í meginatriðum þá niðurstöðu fjárlaga ársins sem gerði ráð fyrir að staða ríkissjóðs myndi veikjast vegna samdráttar í þjóðarútgjöldum. Þannig er handbært fé frá rekstri neikvætt um 18,1 milljarð króna samanborið við 4,2 milljarða neikvæða stöðu á sama tíma í fyrra. Fjármunahreyfingar eru hins vegar jákvæðar um 8,1 milljarð króna í stað 18,5 milljarða neikvæðrar stöðu í fyrra. Þar munar mestu um 16 milljarða lánveitingu til Seðlabankans í fyrra, auk þess sem innstreymi vegna sölu hlutabréfa í Landsbanka Íslands í júní sl. nam um 5 milljörðum króna. Þá hækka innheimtar afborganir um 2,9 milljarða frá sama tíma í fyrra.

Heildartekjur ríkissjóðs námu 206,5 milljörðum króna og hækkuðu um 10,1 milljarð frá fyrra ári, eða um rúmlega 5%. Skatttekjur ríkissjóðs hækka mun minna, eða um 3S%. Skýringin á þessum mismun felst fyrst og fremst í auknum tekjum af sölu eigna á þessu ári. Þótt hækkun skatttekna sé heldur meiri en síðasta uppgjör sýndi stafar það fyrst og fremst af meiri innheimtu tekjuskatts lögaðila enda reyndist álagning vegna ársins 2001, sem kemur til innheimtu á síðustu mánuðum þessa árs og fyrstu mánuðum næsta árs, mun hærri en áætlað hafði verið. Flestir aðrir tekjuliðir sýna minni hækkun milli ára en í síðasta upppgjöri. Það gildir um tekjuskatt einstaklinga, tryggingagjald og virðisaukaskatt sem hafa dregist saman að raungildi milli ára. Þetta sýnir að þótt samdráttur í þjóðarbúskapnum sé ekki eins mikill og hann var er hann enn til staðar.

Greidd gjöld nema 221,4 milljörðum króna og hækka um 21 milljarð frá fyrra ári, eða um 10,5%. Miðað við fjárheimildir (án fjáraukalaga sem samþykkt voru í desember) eru gjöldin hins vegar 4,9 milljörðum umfram það sem ætlað var, eða 2,2%. Útgjöld til félagsmála (þ.m.t. heilbrigðis- fræðslumál og almannatryggingar) eru 137,4 milljörðum, en þau vega 62% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Þar munar mestu um útgjöld til heilbrigðismála, eða 56,4 milljarða króna og hækka um 6,7 milljarða frá fyrra ári. Þá nema greiðslur til almannatrygginga um 44,1 milljarði og hækka um 4,9 milljarða króna. Greiðslur til samgöngu- og atvinnumála eru 33 milljarðar og hækka um 1,2 milljarða, eða 3,8% frá fyrra ári. Vaxtagreiðslur eru 17,6 milljarðar og hækka um 1 milljarð króna milli ára.


Lántökur ríkissjóðs námu 46,8 milljörðum króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins. Þar af nema erlend langtímalán 34,4 milljörðum króna en þau voru tekin til endurfjármögnunar erlendra lána og til þess að mæta tímabundinni greiðslufjárþörf ríkissjóðs innan ársins. Á móti dregur úr erlendum skammtímalánum um 3,6 milljarða. Lántökur innanlands námu 16 milljörðum króna. Á móti lántökum vega afborganir að fjárhæð 32,5 milljarðar króna. Þá voru 8,3 milljarðar greiddir til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í því skyni að lækka framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum