Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. janúar 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýrari réttur námsmanna við töku fæðingarorlofs

Markmið laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eru samkvæmt 2. gr. laganna að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður, svo og að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Félagsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Það var gert með reglugerð nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með setningu laganna var stigið mikilvægt skref í átt til umbóta, sem felst í því að börn eiga þess nú frekar kosts en áður að njóta atlætis bæði móður og föður. Einnig var um að ræða mikilvæga þróun í átt til jafnréttis þar sem körlum er gert kleift að taka meiri þátt í uppeldi barna sinna.

Stöðugt er unnið að því að bæta stöðu þeirra sem óska eftir greiðslum vegna töku fæðingarorlofs. Með breytingu nr. 915/2002 á reglugerð nr. 909/2000, sem tók gildi 1. janúar 2003, var réttur þeirra sem uppfylla skilyrði þess að fá greiðslu sem námsmenn í fæðingarorlofi bættur. Af breytingunum leiðir m.a. að heimilt er að taka tillit til þess þegar námsmaður veikist á meðgöngu og getur ekki í framhaldi að því stundað nám sitt sem skildi. Einnig er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% námi á síðustu önn og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu. Þá er og heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Eins og sjá má er réttur námsmanna til greiðslu fæðingarstyrks að mörgu leyti skýrari nú en áður. Með þessum breytingum ætti hagur foreldra sem eru í námi við töku fæðingarorlofs og barna þeirra að breytast til hins betra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum