Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. janúar 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 4. - 10. janúar 2003

Fréttapistill vikunnar
4. - 10. janúar 2003


Hjúkrunar-, dvalarheimili og dagvistir fá fjárframlög vegna viðhaldskostnaðar

Ákveðið hefur verið að greiða hjúkrunarheimilum, dvalarheimilum og dagvistarstofnunum ákveðið gjald til að mæta viðhaldskostnaði húsnæðis sem nýtt er undir reksturinn. Kveðið er á um þetta í nýrri reglugerð, nr. 921/2002, um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum, sem tók gildi 1. janúar. Húsnæðisgjaldið miðast við ákveðna upphæð á fermetra og reiknast að hámarki á 63 fermetra fyrir hvert hjúkrunar- og dvalarrými en á 30 fermetra fyrir hvert dagvistarrými. Gjaldið árið 2003 er 2.000 krónur fyrir hvern fermetra. Húsnæðisgjaldinu er ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi húsnæðis, en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiriháttar breytingum og endurbótum á húsnæði. Samkvæmt áætlunum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins mun húsnæðisgjald til umræddra stofnana nema samtals um 320 milljónum króna á þessu ári. Sú tala kann þó að breytast þegar allar upplýsingar frá stofnunum um fermetrafjölda liggja fyrir.
REGLUGERÐIN...

18 sækja um framkvæmdastjórastarf
18 umsækjendur eru um starf framkvæmdastjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Starfið var auglýst laust til umsóknar 1. desember s.l. og rann umsóknarfrestur út 20. desember. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um stöðu framkvæmdastjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar. Formaður nefndarinnar er Halldór Jónsson, forstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, en aðrir í henni eru Jóhannes Pálmason, formaður fagráðs Heyrnar- og talmeinastöðvar, og Björn Ástmundsson, forstjóri Reykjalundar. Þessi sóttu um starf framkvæmdastjóra HTÍ:Anna Lilja Sigurðardóttir, stjórnsýslufræðingur, Elín Þöll Þórðardóttir, aðstoðarprófessor, Friðrík Rúnar Guðmundsson, talmeina- og heyrnarfræðingur, Guðbrandur R. Leósson, deildarstjóri, Guðrún Gísladóttir, fjármála- og skrifstofustjóri, Helga S. Sigurðardóttir, sérfræðingur, Hulda Ólafsdóttir, markaðs- og rekstrarráðgjafi, Jón Sigurður Karlsson, deildarstjóri, Kristinn Jósep Gíslason, deildarstjóri, Magnús Sigurðsson, sérfræðingur, Marta Bergman, félagsráðgjafi, Páll Einar Halldórsson, hag- og rekstrarverkfræðingur, Pétur Björnsson, framkvæmdastjóri, Pétur J. Jónasson, sálfræðingur, Sigurður H. Engilbertsson, fjármálastjóri, Vilhjálmur G. Siggeirsson, deildarsérfræðingur, Þór Örn Jónsson, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur, og Þórður H. Sveinsson, lögmaður.

Hækkanir á greiðslum almannatrygginga
Allar greiðslur almannatrygginga hækkuðu um 3,2% þann 1. janúar 2003, samkvæmt reglugerð um hækkun bóta almannatrygginga. Að auki kom viðbótarhækkun á tekjutryggingu, kr. 3.028 og hækkun á tekjutryggingarauka, kr. 2.255. Samkvæmt breytingu á lögum um almannatryggingar var skerðingarhlutfall tekjutryggingarauka jafnframt lækkað úr 67% í 45%. Eftir hækkun er mánaðarleg upphæð elli og örörkulífeyris kr. 20.630. Tekjutrygging ellilífeyrisþega verður 38.500 kr. en örorkulífeyrisþega kr. 39.493. Heimilisuppbót á mánuði verður kr. 16.960; tekjutryggingarauki hærri kr. 18.000 og tekjutryggingarauki lægri kr. 14.066.

Landlæknisembættið flytur á Seltjarnarnes
Frá og með mánudeginum 13. janúar 2003 verður aðsetur Landlæknisembættisins að Austurströnd 5 á Seltjarnarnesi. Opnunartími skrifstofu embættisins verður sem fyrr frá kl. 8:00 - 16:00. Símanúmer, faxnúmer og tölvupóstföng verða einnig óbreytt. Ný póstáritun er; Landlæknisembættið, Austurströnd 5, 170 Seltjarnarnes.

Skýrsla líffæraflutninganefndar fyrir árið 2001
Fimm manna nefnd um líffæraflutninga hefur skilað skýrslu sinni fyrir starfsárið 2001. Í skýrslunni gerir nefnd grein fyrir líffæraflutningum og kostnaði vegna ígræðslna. Heildarkostnaður Tryggingastofnunar ríkisins vegna líffæraígræðslna sem fram fóru á árinu var tæpar 34 milljónir króna á móti 47,7 milljóna króna árið 2000. Líffæraígræðslur árið 2001 voru allt nýrnaígræðslur en sex slíkar aðgerðir fóru fram. Upplýsingar frá Scandiatransplant benda til þess að biðlisti eftir líffærum sé styttri í Noregi og Svíþjóð en í Danmörku. Líffæraflutninganefnd telur rétt að það verði kannað nánar, en Íslendingar eiga samstarf við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn um líffæraígræðslur. Í lok ársins 2001 voru þrettán Íslendingar á biðlista fyrir líffæragjöf. Fjórir biðu eftir lungnaígræðslu og níu eftir nýrnaígræðslu.
Skýrsla líffæraflutninganefndar fyrir árið 2001 (pdf.skjal)

Framkvæmdanefnd um breytingar á húsnæði Vífilsstaða
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað þriggja manna framkvæmdanefnd til að hrinda í framkvæmd og annast nauðsynlegar breytingar á húsnæði Vífilsstaða. Ákveðið hefur verið að koma þar á fót hjúkrunarrýmum fyrir aldraða í samræmi við niðurstöðu samráðshóps ríkisstjórnarinnar og aldraða sem fjallaði m.a. um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustu við aldraða. Formaður framkvæmdanefndar er Baldur Ólafsson, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu en auk hans eiga þar sæti Aðalsteinn Pálsson, verkfræðingur fyrir hönd Landspítala - háskólasjúkrahúss og Sveinn M. Skúlason, forstjóri Hrafnistu.

Komugjöld sjúklinga breytast 15. janúar
Ný reglugerð um breytingar á hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu tekur gildi 15. janúar. Hækkanir á hlut sjúklinga í komugjöldum eru mismiklar eftir eðli þjónustunnar, frá 50 krónum upp í 500 krónur.
NÁNAR...

Tilmæli til heilsugæslustöðva um tannvernd og flúornotkun
Landlæknir hefur sent frá sér tvö dreifibréf með tilmælum til heilsugæslustöðva, annars vegar um tannvernd og hins vegar um flúornotkun. Tilmælin eru unnin af nýstofnaðri Miðstöð tannverndar, sem aðsetur hefur í Heilsuverndarstöðinni, í samvinnu við Landlæknisembættið. Landlæknir gaf út tilmæli um flúornotkun árið 1996 (nr. 11/1996), en þau eiga ekki við lengur.
NÁNAR...





Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
10. janúar 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum