Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. febrúar 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 1 - 7. febrúar 2003

Fréttapistill vikunnar
1. - 7. febrúar 2003



Heilbrigðisráðuneytið fundar með undirstofnunum vegna lyfjamála

Lyfjakostnaður Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) er annar stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri sjúkrahússins. Kostnaður vegna kaupa á lyfjum nam í fyrra nærri 2,3 milljörðum króna sem er nærri þriðjungur af rekstrargjöldum sjúkrahússins. Forstjóri og lækningaforstjóri LSH segja að það verði að hemja lyfjakostnaðinn. Í greinargerð deildar lyfjamála við LSH segir að samkeppni á þessu sviði sé lítil. Dreifingaraðilar séu aðeins þrír og hver þeirra dreifi aðeins fyrir ákveðna umboðsaðila en ekki öllum lyfjum eins og lyfjaheildsalar víðast erlendis. Þetta leiði til minni samkeppni hér á landi. Í greinargerðinni segir að leita þurfi allra löglegra leiða til að halda lyfjakostnaði í skefjum. Lækka þurfi innkaupsverð lyfja til sjúkrahússins, endurskoða vinnulag við ákvörðun um hámarksverð lyfja, bæta gæðaeftirlit með notkun lyfja og lyfjavali inni á sjúkrahúsinu og auka kostnaðarvitund starfsmanna. Þá segir að erlendis sé alþekkt að sjúkrahús kaupi inn lyf á afsláttarverði, ekki opinberu hámarksverði og nauðsynlegt sé að hefja viðræður við lyfjafyrirtæki hér á landi um þetta. Einnig beri að kanna hvort beinn innflutningur á lyfjum til spítalans sé framkvæmanlegur og hagkvæmur kostur. Lyfjamál hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu og síðustu daga hefur ráðuneytið fundað með undirstofnunum vegna þeirra.

Staða heilsugæslumála á Suðurnesjum
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, gerði á Alþingi grein fyrir stöðu heilsugæslumála á Suðurnesjum þegar hann svaraði nokkrum fyrirspurnum um málið frá Kristjáni Pálssyni, 8. þingmanni Reyknesinga. Kom meðal annars fram í máli ráðherra að hann vonaðist til að senn rofaði til í málefnum heilsugæslunnar.
Svar ráðherra...

Lífeyrisgreiðslur til Íslendinga erlendis
Í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um lífeyrisgreiðslur til Íslendinga erlendis kemur fram að Íslendingar hafa gert samkomulag um almannatryggingar við 19 ríki. Ef samningar takast við Evrópusambandið og Bandaríkin bætast 11 ríki við og verða ríkin sem Ísland hefur gert samkomulag við því 30 talsins.
Svar ráðherra...

Umræður á Alþingi um úrskurð ráðherra vegna Norðlingaölduveitu
Umræður voru á Alþingi í vikunni um úrskurð Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, vegna Norðlingaölduveitu. Umræðan var að frumkvæði Steingríms J. Sigfússonar, 3. þingmanns Norðurlands eystra. Lagði þingmaðurinn fyrir ráðherra nokkrar spurningar vegna úrskurðarins, sem ráðherra var hrósað fyrir í umræðunum á Alþingi. Fram kom í svörum ráðherra að hann hefði talið rétt að taka málið til efnislegrar afgreiðslu en hafna ekki framkvæmdinni né samþykkja án skilyrða.
Ræða ráðherra...

Landspítali - háskólasjúkrahús fær rúmar 50 milljónir króna til hjartalækninga
Stjórn Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur hefur ákveðið að verja árið 2003 rúmum 50 milljónum króna í þágu hjartalækninga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, að því er fram kemur á heimasíðu sjúkrahússins. Þetta fé kemur til viðbótar um 80 milljóna króna framlagi sjóðsins til hjartalækninga síðan stofnað var til hans í júlí 2000. Jónína S. Gísladóttir er ekkja Pálma Jónssonar í Hagkaupum og var sjóðurinn stofnaður með 200 milljóna króna framlagi hennar auk þess sem hún hefur styrkt sjóðinn enn frekar um 17 milljónir króna. Meginhlutverk sjóðsins er að efla hjartalækningar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
Nánar...


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
7. febrúar 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum