Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. febrúar 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 8. - 14. febrúar 2003

Fréttapistill vikunnar
8. - 14. febrúar 2003



Umræður norrænna fjármálaráðherra um velferðarmál

Íslendingar hafa góðar forsendur fyrir því að viðhalda velferðarkerfinu og þróa það áfram. Þeir njóta góðs af því að fólksfjölgun er mest á Íslandi miðað við hinar Norðurlandaþjóðirnar og skattar eru lágir. Þetta kom fram á námsstefnu um framtíð norræna velferðarkerfisins sem haldin var að frumkvæði norrænu fjármálaráðherranna í Stokkhólmi nýlega. Gunnar Lund, staðgengill sænska fjármálaráðherrans lýsti eftir nýsköpun og tilraunaverkefnum innan heilbrigðis- og ummönnunargeirans þar sem nýjustu tækni væri beitt til að ná fram hagkvæmni. Norski fjármálaráðherran Per-Kristian Foss nefndi í þessu sambandi telemedicin-verkefnið sem unnið er í Tromsö og sagði það skref í rétta átt. Hann ræddi jafnframt um að stjórnmálamenn á öllum Norðurlöndunum stæðu frammi fyrir því að taka óvinsælar ákvarðanir eftir því sem aldur íbúanna hækkaði og skattfé minnkaði að sama skapi. Ole Vagn Christensen sem talaði fyrir hönd Norðurlandaráðs sagði aðgerðir Norðurlandaþjóðanna á sviði velferðarmála gera Norðurlöndin að fyrirmynd annarra Evrópuríkja.

Nýtt fyrirkomulag örorkumats hjá Tryggingastofnun ríkisins
Læknasvið Tryggingastofnunar ríkisins (TR) hefur samið við fimm lækna um að annast örorkumat samkvæmt nýjum starfsaðferðum sem eiga að skila hlutlægara og samræmdara mati en unnt hefur verið fram að þessu. Læknarnir munu annast verkefnið sem verktakar í samvinnu við tryggingayfirlækni. Fyrirkomulag þessa nýja fyrirkomulags er sótt til Bretlands en lagað að íslenskum almannatryggingalögum. Nánar er sagt frá þessu á heimasíðu TR.
Nánar...

Nýtt boðunarkerfi fyrir blóðgjafa Blóðbankans
Verið er að taka í notkun nýtt boðunarkerfi hjá Blóðbankanum til að auka skilvirkni við innköllun og bókun blóðgjafa. Leiðir nýja boðunarkerfisins eru fjölbreyttar og gerir mögulegt að bóka tíma eða staðfesta boðun í gegnum Netið eða farsíma. Blóðgjafar geta valið á milli þess að fá boðun með tölvupósti, SMS-skeytum, skilaboðum í GSM-síma með svonefndri GPRS-tækni eða þá látið hringja í sig eins og áður. Fyrirtækið Framtíðartækni ehf. hefur þróað boðunarkerfið í samstarfi við starfsfólk Blóðbankans. Samhliða aukinni skilvirkni við boðun blóðgjafa mun þetta fyrirkomulag auka hagkvæmni því hingað til hefur mikill kostnaður legið í símhringingum og póstsendingum. Þá standa einnig vonir til þess að auðveldara verði að ná til yngra fólks eftir þessum leiðum, en meðalaldur fastra blóðgjafa hefur farið hækkandi undanfarin ár.

Skurðaðgerðum við LSH fjölgaði um 9% árið 2002 frá fyrra ári
Starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) jókst verulega árið 2002 miðað við árið á undan. Þetta kemur fram í stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins fyrir allt árið 2002. Skurðaðgerðum fjölgaði um tæp 9% eða um 1.150 aðgerðir í öllum sérgreinum, utan brjóstholsskurðlækninga sem stóðu nánast í stað. Bæklunaraðgerðum fjölgaði um 12%, augnaðgerðum um 10%, háls-nef- og eyrnaaðgerðum um tæp 23% og heila- og taugaaðgerðum um tæp 15%. Jafnframt því sem fjölgun aðgerða kemur sjúklingum til góða er hún mjög hagkvæm þar sem fastur kostnaður á skurðstofum er umtalsverður og viðbótarkostnaður við fjölgun aðgerða er talsvert lægri en meðalkostnaður. Fækkað hefur á biðlista eftir bæklunaraðgerðum og einnig á biðlistum eftir hjartaþræðingu. Biðlisti eftir augnaðgerðum hefur lengst þrátt fyrir fjölgun aðgerða og sömuleiðis biðlisti eftir almennum skurðaðgerðum, t.d. vegna vélindabakflæðis og þindarslits. Í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga með stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins kemur fram að rekstrarframlög fyrir árið 2003 eru samkvæmt fjárlögum ársins og miðað við niðurstöðu rekstrar ársins 2003 verði að hagræða í rekstri þessa árs um 2,5 - 3%. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri ársins 2002 voru heildargjöld sjúkrahússins 26,158 m.kr. Farið var fram úr fjárheimildum um 496 m.kr. sem er 1,9% frávik. Launaútgjöld ársins reyndust nánast í samræmi við áætlanir spítalans og fjárveitinga til þeirra. Frávik voru helst á rekstrarliðum, einkum vegna hækkunar sérhæfðra sjúkrahúsvara og lyfja umfram almenn vísitöluviðmið fjárlaga. 145 m.kr. fóru í vaxtagreiðslur vegna erfiðrar lausafjárstöðu sjúkrahússins á síðari hluta ársins. Tekið var á fjárhagserfiðleikum sjúkrahússins við afgreiðslu fjáraukalaga á Alþingi með 700 m.kr. aukaframlagi.
Stjórnunarupplýsingar LSH...

Starfsemi LSH kostnaðargreind og fjármögnuð samkvæmt s.k. DRG kerfi
Umfangsmikil kostnaðargreining á starfsemi einstakra deilda Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) stendur nú yfir. Þetta er liður í því að undirbúa fjármögnun starfseminnar samkvæmt svonefndu DRG kerfi, eigi síðar en í fjárlögum 2005. DRG-flokkun er sjúkdómstengd flokkun sem notuð er til að lýsa starfsemi og framleiðni sjúkrahússins. Byggt er á um 10.000 sjúkdómsgreiningum og um 6.000 aðgerðarkóðum og á grundvelli þeirra er legusjúklingum skipt í tæplega 500 DRG-flokka. Hver DRG-flokkur hefur tiltekið vægi sem endurspeglar þarfir sjúklingahópsins og kostnað við meðhöndlun tiltekinna sjúkdómsgreininga eða sjúkdóma. Flokkunin segir til um kostnað vegna sjúklinga í hverjum flokki. Til dæmis er kostnaður vegna sjúklings sem fer í gerviliðaaðgerð á mjöð 4,5 sinnum meiri en vegna konu í eðlilegri fæðingu. Stefnt er að því að flokkunar- eða framleiðslumælikvarðakerfi verði komið í notkun á öllum klínískum sviðum sjúkrahússins um mitt næsta ár og að fjármögnun sjúkrahússins árið 2005 verði að hluta byggð á framleiðni.
Nánar á vef LSH...

Skipað í sérfræðinefnd samkvæmt reglugerð um sérfræðileyfi sálfræðinga
Sérfræðinefnd um sérfræðileyfi sálfræðinga hefur verið skipuð frá 12. febrúar 2003. Fulltrúi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og formaður nefndarinnar er Gyða Haraldsdóttir, yfirsálfræðingur. Fulltrúi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands er Dr. Jakob Smári, prófessor og einnig á sæti í nefndinni Halldór Kr. Júlíusson, sálfræðingur, formaður námsmatsnefndar Sálfræðingafélags Íslands. Nefndin er skipuð samkvæmt reglugerð um sérfræðileyfi sálfræðinga nr. 158/1990.

Úrskurðum vegna kærumála vegna afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins fækkaði um fjórðung milli ára
Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur birt yfirlit um starfsemi sína árið 2002. Nefndin úrskurðaði í 206 málum eða tæplega 25% færri málum en árið á undan þegar 273 mál komu til afgreiðslu nefndarinnar. Af þessum 206 málum var afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins (TR) staðfest í 134 málum, afgreiðslu TR var breytt í 46 málum, tólf málum var vísað frá og 14 var vísað aftur til stofnunarinnar. Flest kærumál ársins voru á sviði slysa- og almannatrygginga. Úrskurðarnefnd almannatrygginga tók til starfa árið 1999 og heyrir undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Hlutverk hennar er að úrskurða í málum einstaklinga sem ekki una afgreiðslu TR og kæra af þeim sökum til úrskurðarnefndarinnar.

Reykingar grunnskólanema hafa minnkað um meira en þriðjung á fjórum árum
Innan við 7% grunnskólanema á aldrinum 12 - 16 ára reykja, samkvæmt könnun sem gerð var á vegum héraðslækna í fyrravor, í samvinnu við Krabbameinsfélag Reykjavíkur og með stuðningi Tóbaksvarnarráðs. Árið 1998 reyktu 11,4% í þessum aldurshópi, þannig að verulega hefur dregið úr reykingum meðal ungmenna. Könnunin náði til rúmlega tuttugu þúsund nemenda um allt land og var sambærileg við kannanir sem gerðar hafa verið á fjögurra ára fresti á landsvísu síðan 1990 og í Reykjavík frá árinu 1974. Reykvísk ungmenni reykja mest jafnaldra sinna en engur að síður hefur verulega dregið úr reykingum í þeirra hópi á liðnum árum. Árið 1974 reyktu 32% reykvískra unglinga á umræddum aldri en samkvæmt könnun héraðslæknanna var þetta hlutfall 7,7% árið 2002.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
14. febrúar 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum