Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. mars 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 22. - 28. mars 2003

Fréttapistill vikunnar
22. - 28. mars 2003


Hvað borða Íslendingar? Landskönnun á mataræði 2002

Mataræði Íslendinga hefur færst nær manneldismarkmiðum. Fita hefur minnkað, neysla grænmetis og ávaxa aukist. Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum viðamikillar könnunar á mataræði landsmanna sem Manneldisráð birti nýlega. Í samantekt á helstu niðurstöðum segir einnig. "Dæmi um neikvæða þróun er hins vegar aukin sykurneysla og er neysla gosdrykkja gífurleg, einkum meðal ungra stráka, sem drekka að meðaltali tæpan lítra af gosdrykkjum á dag. Sykurneysla þeirra er jafnframt óheyrilega mikil eða 143 grömm af viðbættum sykri á dag. Stúlkur drekka minna af gosi og meira af vatni en strákar og velja fituminni vörur. Mjólkurneysla þeirra er hins vegar lítil, fiskneyslan er hverfandi og næringarefni í fæði bera þess merki: Kalk, D-vítamín og joð eru dæmi um nauðsynleg efni sem eru undir ráðleggingum í fæði stúlkna. Fiskneysla hefur minnkað um 45% frá 1990 og er nú litlu meiri en gerist og gengur í flestum nágrannalöndum. Fólk á höfuðborgarsvæðinu borðar fituminna fæði og er grennra en fólk í þéttbýlisstöðum eða dreifbýli." Niðurstöður könnunarinnar og umfjöllun um þær má lesa á heimasíðu Manneldisráðs Íslands.
http://www.manneldi.is

Máli Félags íslenskra bæklunarlækna gegn TR vísað frá dómi
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá máli Félags íslenskra bæklunarlækna gegn Tryggingastofnun ríkisins (TR). Félagið höfðaði umrætt mál í kjölfar deilna við stofnunina sl. haust um gjaldtöku fyrir læknisaðgerðir; hvort bæklunarlæknum væri heimilt að krefja sjúklinga um fullt verð fyrir aðgerð. Frávísun héraðsdóms byggist á því að sakarefni sé ekki afmarkað nægilega skýrt. Aðeins sé leitað úrlausnar dómsins um túlkun á tilteknu ákvæði samnings án þess að krafan tengist afmörkuðu sakarefni. Héraðsdómur skeri ekki úr um lögfræðileg álitamál nema til úrlausnar um ákveðna kröfu og því verði að vísa málinu frá. Frá þessu er sagt á heimasíðu TR.
NÁNAR...

Stjórnunarupplýsingar Landspítala - háskólasjúkrahúss janúar - febrúar
Rekstraruppgjör, námsferðakostnaður, sjúklingaflokkun, fjöldi skurðaðgerða og biðlistar. Þetta er meðal efnis í stjórnunarupplýsingunum. Í þeim kemur líka fram að nærri 170 einstaklingar bíða eftir varanlegri vistun utan LSH.
NÁNAR Á HEIMASÍÐU LSH...

45% slysa eru svokölluð heima- og frítímaslys samkvæmt nýju yfirliti Slysaskrár Íslands
Átta mánaða yfirlit úr Slysaskrá Íslands hefur verið birt á heimasíðu landlæknisembættisins. Byggt er á skráningu slysadeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi, Tryggingamiðstöðvarinnar og Vinnueftirlits ríkisins. Upplýsingarnar sýna meðal annars að um 45% skráðra slysa í tímabilinu eru svokölluð heima- og frímtíaslys. Umferðarslys eru tæp 20% og vinnuslys 17%. Á heimasíðu landlæknis er bent á að þessi háa tíðini heima- og frítímaslysa gefi ótvíræðar vísbendingar um að gefa þurfi þeim meiri gaum og reyuna að draga úr tíðni þeirra með markvissum forvarnaraðgerðum. Miklu fleiri karlmenn lenda í slysum en konur og á það við um alla flokka sem skráningin tekur til. Ekki dregur saman með kynjunum að þessu leyti fyrr en um ellilífeyrisaldur.
NÁNAR...

Nýsir með hæstu einkunn í útboði nýrrar heilsugæslustöðvar
Fyrirtækið Nýsir fékk hæstu einkunn fimm fyrirtækja sem buðu í rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar í Salarhverfi í Kópavogi. Verðtilboðin voru opnuð hjá Ríkiskaupum í vikunni sem sá um útboðið fyrir hönd heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins. Um er að ræða nýja heilsugæslustöð sem fyrirhugað er að opna um mitt þetta ár og var reksturinn boðinn út til 8 ára. Reiknað er með að ráðuneytið láti væntanlegum verksala í té innréttað húsnæði. Sá sem samið verður við mun síðan sjá stjórnun og rekstur stöðvarinnar, kaupa alla lausamuni og standa straum af útgjöldum hennar á grundvelli þess sem hið opinbera leggur fram. Á grundvelli einkunna verður á næstu dögum gengið til skýringaviðræðna við lægstbjóðendur. Tilboðið Nýsis er um 130 milljónum undir efri mörkum kostnaðaráætlunar. Tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á 610 milljónir. Næst var Frumafl með tæpar 663 milljónir, Heimilislæknastöðin með um 724 milljónir króna, Heilsuvaki með um 746 milljónir en hæsta tilboðið átti Liðsinni sem hljóðaði upp á tæpar 837 milljónir. Skýringaviðræður verða teknar upp við lægstbjóðendur á næstunni.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
28. mars 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum