Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. apríl 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn 7. apríl 2003

Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
á morgunverðarfundi á Grand Hóteli



Góðir gestir.

Það er stundum sagt að heimurinn hafi skroppið saman á síðustu tíu til fimmtán árum, að vegalengdir hafi styst. Þegar rætt er um heilbrigðisþjónustuna í þessari merkingu þýðir það að alþjóðlegt samstarf, miðlun upplýsinga yfir landmærin og samanburður milli landa er orðin fastur liður í þróun heilbrigðisþjónustu landanna.

Fyrir nokkrum árum fannst e.t.v. sumum að Alþjóðaheilbrigðisdagurinn 7. apríl kæmi okkur ekkert sérstaklega mikið við. Þetta væri dagur sem alþjóðasamtökin WHO héldu upp á til þess fyrst og fremst að reyna að hafa áhrif á ástand heilbrigðisþjónustunnar í þriðja heims löndum. Þannig er þetta ekki lengur.

Almennt séð gera menn sér æ betur grein fyrir því að heilbrigðisþjónustan þar skiptir okkur líka máli.

Almennt séð gera menn sér betur grein fyrir að það er hægt að vinna stórvirki í þriðja heiminum á sviði heilbrigðismála með takmörkuðu fé. Þar er til dæmis hægt að bæta sóttvarnir, tryggja vatnsból og þar er hægt að bjarga lífi milljóna barna með tiltölulega einföldum og ódýrum ráðum.

Þetta er verið að benda okkur á í dag, 7. apríl, á Alþjóðaheilbrigðisdeginum.

Heilbrigt umhverfi – heilbrigð börn. Þetta er yfirskrift dagsins og þetta er það sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin vill að við beinum sjónum okkar að í dag og næstu daga.

Landlæknisembættið hefur undanfarið verið að kynna ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar á opinberum vettvangi í samræmi við þessar áherslur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og við höfum í dag ákveðið að beina sjónum okkar að nokkrum þáttum í umhverfi barnanna sem hafa og geta haft áhrif á heilsufar þeirra í bráð og lengd.

Hér á eftir munu þrír sérfræðingar flytja erindi sem öll snerta yfirskrift dagsins: Fyrst Vilborg Ingólfsdóttir frá Landlæknisembættinu sem fyrir utan það að vera afar vel heima í því hvernig félagslegar aðstæður hafa áhrif á heilsufar barna er einn af þeim sérfræðingum sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur leitað til til að vinna með heilbrigðisyfirvöldum víða um heim, síðan Erla Kristjánsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands sem fjallar um sjálfsmynd grunnskólabarna, en einmitt í skólanum – í næsta umhverfi barnanna – er oft lagður sá félagslegi, kerfislegi og einstaklingsbundni grunnur sem getur haft umtalsverð áhrif á heilsufar barna og í lokin ætlar Sigríður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Þróunarsviðs félagsþjónustunnar í Reykjavík að fjalla um fátækt og börn.

Víða um heim og ekki síst í nálægum löndum eru heilbrigðisyfirvöld í vaxandi mæli farin að beina sjónum sínum að þeim hópum sem af einhverjum ástæðum, t.d. vegna atvinnuleysis, örorku eða annarra þátta, standa höllum fæti í samfélaginu. Ástæðan er einmitt sambandið sem er á milli félagslegra aðstæðna og heilsufars, sambandið sem er á milli félagslegrar stöðu og lífshátta.

Það er að mínum dómi brýnt að gera sér grein fyrir þessum aðstæðum hér og tvinna saman þá þekkingu og þau góðu úrræði sem við ráðum yfir í heilbrigðisþjónustunni. Það sem við ræðum hér í dag er eitt skref á þeirri löngu leið.

Ég vil þakka Landlæknisembættinu sérstaklega fyrir þess þátt í undirbúningi dagsins, og vonast til að okkur hér takist að vekja menn til umhugsunar um gildi heilbrigðis umhverfis til að bæta heilbrigði barna.

Þakka ykkur fyrir.

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum