Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. maí 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Ársfundur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

    Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ársfundi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri
    29. apríl 2003



    Ágætu starfsmenn og ársfundargestir.
    Það er mér sérstakt ánægjuefni að fá tækifæri til ávarpa ykkur hér á Fjórðungssjúkrahúsinu sem heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra. Framundan er stóra prófið sem við stjórnmálamenn undirgöngumst á fjögurra ára fresti, og víst er að enginn veit "hvar við dönsum um næstu jól". Þeim mun ánægjulegra er að vera með ykkur hér í dag.

    Ég vil byrja á því að óska þeim starfsmönnum til hamingju sem hér fengu viðurkenningu fyrir 25 ára starf við stofnunina. Það hefur vakið athygli mín, þau skipti sem ég hef setið ársfundi FSA, hversu margir ná háum starfsaldri við Fjórðungssjúkrahúsið. Ein skýring þess er auðvitað að FSA er eina hátæknisjúkrahúsið á landsbyggðinni og því ekki fyrir hendi sú samkeppni um sérhæft starfsfólk sem ella yrði. Að mínu mati er þó veigameiri sú fullvissa mín að Fjórðungssjúkrahúsið sé góður vinnustaður. Hér ríkir góður andi; hér er mikill metnaður stjórnenda og starfsfólks til að gera sífellt betur í þjónustunni; mikil velvild bæjaryfirvalda og bæjarbúa stuðlar að jafnvægi í starfinu; og síðast en ekki síst hefur sjúkrahúsið verið einstaklega heppið með stjórnendur og annað starfsfólk. Stjórnendur hafa lagt sig fram um að skapa hér góð vinnuskilyrði, stundum í húsnæði sem annars staðar þætti ekki heppilegt, en með góðum vilja starfsmanna og góðum starfsanda vinnst vel úr þeim aðstæðum sem búið er við. Ég mun reyndar víkja nánar að húsnæðismálum Fjórðungssjúkrahússins hér á eftir.

    Þá vil ég einnig bætast í hóp þeirra sem hér hafa þakkað því starfsfólki sem nú lætur af störfum vegna aldurs, fyrir þeirra störf og trygglyndi við stofnunina. Þó starfsaldur þeirra sé mislangur og störfin sem sinnt var mismunandi, þá er hver starfsmaður dýrmætur og hvert starf mikilvægt í þeirri klukku sem ég hef áður líkt starfsemi sjúkrahússins við, klukku þar sem fjölmörg mismunandi tannhjól, öll mikilvæg, verða að vinna saman.

    Ágætu ársfundargestir.

    Ég greindi frá því í ávarpi mínu á ársfundinum hér í fyrra að ég hygðist skipa nefnd til að gera tillögur að uppbyggingu og skipulagi húsnæðis Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, nefnd sem kölluð hefur verið framtíðarnefnd FSA. Aðstoðarmaður minn, Elsa B. Friðfinnsdóttir hefur veitt þessari nefnd forstöðu en auk hennar eru í nefndinni Halldór Jónsson, forstjóri; Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri; Bjarni Hjarðar, fyrrverandi formaður stjórnar FSA; Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu; Þórarinn Sigurðsson, deildarforseti Háskólanum á Akureyri; og Guðmundur Ómar Guðmundsson, fulltrúi Akureyrarbæjar. Nefndin hefur notið dyggrar aðstoðar Valtýs Sigurbjarnarsonar, sem verið hefur ritari nefndarinnar.

    Nefndin hefur unnið ötullega að málinu síðustu mánuði og skilaði til mín áfangaskýrslu þann 5. mars síðast liðinn. Ég hef þegar falið nefndinni að vinna áfram að málinu á nótum þeirrar áfangaskýrslu.

    Helsta tillaga nefndarinnar er að byggð verði ný álma sem hýsi alla legudeildarstarfsemi sjúkrahússins. Það er kunnara en frá þurfi að segja hér að á þeim tíma sem liðið hefur frá því að sú álma sem við erum hér í, Suðurálman, var hönnuð og byggð hafa orðið miklar breytingar á hugmyndum manna um skipulag legudeilda. Við, sem sjúklingar, sættum okkur ekki lengur við að liggja á sex manna stofu með sameiginlega snyrtingu frammi á gangi. Nú er gerð krafa um eins til tveggja manna stofur, helst hver með sinni snyrtingunni. Einnig höfum við stækkað nokkuð síðustu ár og áratugi, bæði á lengd og breidd, og því þarf að gera ráð fyrir meira rými fyrir hvern og einn en áður var. Þá ráða vinnuverndarsjónarmið einnig nokkru en því ber að fagna að nú er í auknum mæli hugsað um vinnuaðstöðu starfsmanna þegar sjúkrahús eru hönnuð og byggð. Þá má ekki gleyma rekstrarlega þættinum en möguleiki á sveigjanleika í allri starfsemi stofnana eins og þessarar er nauðsynlegur. Hér, sem annars staðar, tíðkast að fækka sjúkrarúmum á sumrin og yfir jól og þá er nauðsynlegt að húsnæðið styðji slíkar aðgerðir fremur en hindri.

    Allmörg ár eru síðan ljóst varð að auka þyrfti við húsnæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Í áætlunum sem uppi voru um 1970 var gert ráð fyrir tveimur viðbyggingum í líkingu við þá sem við erum í núna. Seinna var síðan gert ráð fyrir að byggð yrði stjórnsýsluálma, m.a. með fulltingi Íslenskrar erfðagreiningar. Framtíðarnefndin tekur, í sinni áfangaskýrslu, undir sjónarmið þeirra hópa og nefnda sem undanfarin misseri hafa skoðað húsnæðismál Fjórðungssjúkrahússins sérstaklega, þ.e. að skynsamlegra sé að nýta 1. og 2. hæð Suðurálmunnar fyrir þá þætti starfseminnar sem áttu að vistast í svo kallaðri stjórnsýsluálmu, en byggja þess í stað legudeildaálmu sem tæki mið af nútímakröfum í aðbúnaði og sveigjanleika í rekstri. Framtíðarnefndin vinnur nú að frekari útfærslu þessarar lausnar og hvernig húsnæði sjúkrahússins muni nýtast til framtíðar, með hliðsjón af þeim hugmyndum sem settar eru fram í framtíðarsýn fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

    Önnur, ekki síður mikilsverð tillaga nefndarinnar er að þegar verði hafinn undirbúningur að innréttingu 0. hæðar Suðurálmu. Þeirri hæð er m.a. ætlað að hýsa barna- og unglingageðdeild. Mikil umræða hefur að undanförnu verið um vanda í geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga. Fyrir stuttu samþykkti ríkisstjórnin verulega aukið framlag til Barna- og unglingageðdeildar Landspítala háskólasjúkrahúss. Þá þegar var mér full kunnugt um þær áætlanir sem hér voru uppi um bætta aðstöðu barna- og unglingageðlækninga hér á þessu sjúkrahúsi og þann farveg sem það mál var þá í.

    Það er mér sérstakt ánægjuefni að geta greint frá því hér að ekkert er því nú til fyrirstöðu að hefja undirbúning á innréttingu 0. hæðar Suðurálmu. Áætlaður kostnaður við það verk er um 120 miljónir króna og er það von mín að hæðin verði komin í fulla notkun eigi síðar en um mitt næsta ár.

    Ágætu ársfundargestir.

    Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er ein mikilvægasta stofnunin á landsbyggðinni. Í allri umræðu um byggðaþróun er mikilvægt að hlú að svo góðri og sterkri stofnun því góð og víðtæk heilbrigðisþjónusta er einn þeirra þátta sem fólk leggur til grundvallar við búsetuval sitt. Þau góðu tengsl og samstarf sem náðst hefur við Háskólann á Akureyri er einnig mikilsvert. Þannig styðja stofnanirnar hvor aðra, geta samnýtt sitt starfsfólk að einhverju leyti og efla til muna menntunarstig svæðisins. Þá vil ég lýsa ánægju minni með það samkomulag sem undirritað verður hér á eftir milli Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og Háskóla Íslands. Fjórðungssjúkrahúsið hefur eflst mjög undanfarin ár og er nú fært um að taka enn frekari þátt í menntun heilbrigðisstétta en verið hefur til þessa. Slíkt mun efla sjúkrahúsið og svæðið allt.

    Ég vil að lokum endurtaka hamingjuóskir mínar til þeirra starfsmanna sem hér fengu viðurkenningu fyrir langan starfsaldur við stofnunina. Ég vil einnig óska öðru starfsfólki til hamingju með það góða starf sem hér er unnið, dag frá degi. Ég þakka það ágæta samstarf sem ég hef átt við stjórnendur og annað starfsfólk sjúkrahússins á þeim tíma sem ég hef gengt störfum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Það er ómetanlegt í stjórnsýslunni að trúnaður og traust ríki á milli manna og slíku hefur sannarlega verið að dreifa í samskiptum okkar.

    Ég óska ykkur velfarnaðar í ykkar mikilvægu störfum.


    (Talað orð gildir)











Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum