Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. maí 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 26. apríl - 2. maí 2003

Fréttapistill vikunnar
26. apríl - 2. maí 2003



Göngudeild barna- og unglingageðdeildar FSA fær fastan samastað með innréttingu húsnæðis í suðurálmu sjúkrahússins

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sagði frá því í ávarpi á ársfundi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri að heimild hefði verið veitt til þess að innrétta s.k. 0. hæð suðurálmu sjúkrahússins og sagði hann vonir standa til þess að hæðin verði tilbúin til notkunar á næsta ári. Halldór Jónsson, forstjóri FSA fagnaði þessu og sagði nýframkvæmdir í húsnæðismálum orðnar nauðsynlegar fyrir þjónustu og þróun stofnunarinnar. Hönnun hæðarinnar er að mestu lokið og því mögulegt að efna til útboðs fljótlega og hefja framkvæmdir í kjölfar þess. Gert er ráð fyrir að kostnaður við að innrétta húsnæðið nemi um 120 milljónum króna. Gert er ráð fyrir að göngudeild barna- og unglingageðdeildar fái þar aðstöðu, auk sjúkra- og iðjuþjálfunar, rannsóknardeildar og meinafræðideildar.
ÁVARP RÁÐHERRA...

Fyrstu nemendur Sjúkraflutningaskólans við FSA útskrifaðir
Í dag, föstudag, fór fram fyrsta útskriftarathöfn Sjúkraflutningaskólans eftir að FSA tók við rekstri hans í lok nóvember 2002. Í útskriftarhópnum eru 42 nemendur af öllu landinu sem lokið hafa grunnnámskeiði í sjúkraflutningum. Námskeiðið er bóklegt og verklegt og er markmið kennslunnar að gera þátttakendur færa um að tryggja öryggi á vettvangi, meta ástand sjúklings og sinna slösuðum og veikum á vettvangi. Námskeiðshaldið fór fram í Reykjavík og einnig var kennt á Selfossi með notkun fjarfundabúnaðar. Kennsla var í höndum lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraflutningamanna.

Árlegur fræðslufundur landlæknisembættisins með starfsfólki í heilbrigðisþjónustu
Föstudaginn 9. maí heldur landlæknisembættið árlegan fræðslufund sinn með starfsfólki í heilbrigðisþjónustu. Fjallað verður um þau mál sem efst eru á baugi í starfsemi embættisins um þessar mundir. Má þar nefna erindi um Heilkenni bráðrar langvinnrar lungnabólgu, forvarnir gegn sjálfsvígum, ofbeldi, hugleiðingar um lögleiðingu fíkniefna o.fl. Dagskráin er birt á heimasíðu landlæknisembættisins.
NÁNAR..

Skipun nefndar sem metur hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjórnar sjúkrahúsa
Með lögum nr. 78/2003 um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu var breytt ákvæði um skipun nefndar til að meta hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra sjúkrahúsa. 6. mgr. 30. gr. laganna er nú svohljóðandi: "Stefnt skal að því að framkvæmdastjórar sjúkrahúsa skv. 8. mgr. 29. gr. og forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss skv. 1. mgr. þessarar greinar hafi sérþekkingu á rekstri sjúkrahúsa. Ráðherra skal skipa þriggja manna nefnd til fjögurra ára í senn til að meta hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra sjúkrahúsa. Fulltrúar í nefndinni skulu hafa sérþekkingu á sviði rekstrar, starfsmannamála og stjórnsýslu. Engan má skipa til starfa nema nefndin hafi talið hann hæfan. Framkvæmdastjórar sjúkrahúsa ríkisins eru skipaðir af ráðherra til fimm ára í senn." Í kjölfar lagabreytingarinnar hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipað matsnefnd skv. 30. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990. Formaður nefndarinnar er Guðfinna Bjarnadóttir rektor. Samkvæmt lögunum skal nefndin einnig meta umsækjendur um stöður framkvæmdastjóra heilsugæslustöðva og þá skal hún einnig fjalla um framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnana. Þá getur ráðherra falið nefndinni að meta hæfni annarra forstöðumanna stofnana sem heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Sérstakri matsnefnd falið að meta hæfni umsækjenda um stöðu forstjóra Lýðheilsustöðvar
Sextán sóttu um stöðu forstjóra Lýðheilsustöðvar sem stofnuð verður í samræmi við lög um Lýðheilsustöð sem samþykkt voru á Alþingi í mars sl. Hlutverk Lýðheilsustöðvar er að efla og samræma störf sem miða að bættri lýðheilsu og samræma það, annast fræðslu til almennings í samstarfi við landlækni og aðra eftir atvikum, fylgjast með árangri af lýðheilsustarfi og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur falið matsnefndinni sem getið er hér að framan að meta hæfni umsækjendanna sextán.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum