Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. maí 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 17. - 23. maí 2003

Fréttapistill vikunnar

17. - 23. maí 2003

Helstu markmið nýrrar ríkisstjórnar á sviði heilbrigðismála
Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag, föstudag. Jón Kristjánsson verður áfram heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra en hann tók við ráðuneytinu af Ingibjörgu Pálmadóttur vorið 2001. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem nú hefur verið kynnt segir meðal annars: ,,Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vill enn bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu og auka skilvirkni í einstökum þáttum þess". Meðal helstu markmiða ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er að allir hafi greiðan og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, að fjármunum sé sem best varið og kostir breyttra rekstrarforma séu nýttir þar sem það á við. Efld heilsugæsla, aukin þjónusta við geðfatlaða, bætt og aukin heimaþjónusta við aldraða og áframhaldandi uppbygging hjúkrunar- og dvalarheimila eru einnig þættir sem stefnt er að, auk endurskoðunar almannatryggingakerfisins með einföldun þess í huga. Áhersla verður lögð á að tryggja sérstaklega hag þeirra öryrkja, fatlaðra og aldraðra sem lægstar tekjur hafa. Unnt er að lesa stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í heild sinni á vefsíðu forsætisráðuneytisins.
STEFNUYFIRLÝSINGIN...

Íslendingur kjörinn í stjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar
Davíð Á Gunnarsson, ráðuneytisstjóri, var í dag (föstudag) formlega kosinn fulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á 56. þingi samtakanna sem nú stendur yfir í Genf. Davíð hyggst leggja megináherslu á þrennt í stjórnartíð sinni: Í fyrsta lagi á málefni barna og ungmenna sem víða um heim búa við bág kjör. Í öðru lagi ætlar hann að láta málefni kvenna til sín taka og í þriðja lagi að leggja lið baráttunni gegn ofneyslu áfengis enda séu heilsufars- og félagslegar afleiðingar af hennar völdum geigvænlegar.
NÁNAR... Ekki lengur varað við ferðum til Hong Kong vegna HABL
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) ræður fólki ekki lengur frá því að ferðast til Hong Kong og Guangdong-héraðs í Kína þar sem stofnunin telur að yfirvöldum á þessum svæðum hafi tekist að hefta útbreiðslu lungnabólgufaraldursins HABL. Gro Harlmen Brundtland, fráfarandi framkvæmdastjóri WHO tilkynnti þetta í morgun á 56 þingi WHO sem nú stendur yfir í Genf. Gro sagði gleðilegt að tilkynna að vegna aðgerða kínverskra heilbrigðisyfirvalda og með aðstoð WHO hefði tekist að hefta útbreiðslu veikinnar.
NÁNAR Á VEF WHO... Rúmum 35 milljónum króna úthlutað úr Forvarnarsjóði
Sjötíu verkefni sem hafa forvarnir að markmiði fengu samtals úthlutað rúmum 35 milljónum króna úr Forvarnarsjóði í gær, 21. maí. Að auki styrkir Forvarnarsjóður tíu áfangaheimili um samtals 10 milljónir króna. Athöfnin fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur. Veittar voru viðurkenningar fyrir störf í þágu forvarna á Íslandi en þær hlutu Dr. Tómas Helgason, prófessor og Snjólaug Stefánsdóttir, verkefnisstjóri áætlunarinnar Íslands án eiturlyfja. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson ávarpaði samkomuna og afhenti viðurkenningarnar. Forvarnarsjóður er fjármagnaður þannig að í hann rennur 1% af sérstöku áfengisgjaldi samkvæmt lögum um gjald af áfengi og tóbaki. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að forvörnum gegn áfengis- og vímuefnaneyslu. Þetta er í áttunda sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum og hefur Áfengis- og vímuvarnarráð annast styrkveitingarnar í umboði heilbrigðisráðherra frá stofnun þess árið 1999.
NÁNAR...
Barnaspítali Hringsins nýtur góðs af söngakveppni evrópskra útvarpsstöðva
Barnaspítali hringsins fær 40 krónur af hverju símtali landsmanna vegna símakosningar í Evrópusöngakeppninni sem fram fer 24. maí. Almenningi gefst kostur á að velja besta lagið í slíkri kosningu líkt og undanfarin ár. Sami háttur var hafður á í símakosningu söngvakeppni Sjónvarpsins 15. febrúar síðastliðinni. Hver símtal í kostaði 100 krónur og þar af runnu 40 krónur til að auka og bæta tækjabúnað spítalans. Þá söfnuðust 2,8 milljónir króna. Birgitta Haukdal, söngkona heimsótti Barnaspítala Hringsins áður en hún hélt til Riga þar sem hún mun syngja sig inn í hjörtu Evrópubúa á laugardagskvöldið.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið

23. maí 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum