Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. júní 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 31. maí - 6. júní 2003

Fréttapistill vikunnar
31. maí - 6. júní 2003



Íslendingar nota 120% meira af dýrum coxíb-lyfjum en nágrannaþjóðirnar

Kostnaður vegna bólgueyðandi lyfja og gigtarlyfja hefur aukist gríðarlega hér á landi á síðustu árum. Kostnaðurinn hefur nærri tvöfaldast með tilkomu s.k. coxíb-lyfja sem fengu markaðsleyfi hhér á landi árið 2000. Meðalverð hvers dagskammts af þeim er 3-4 sinnum hærra en eldri lyfja. Á Íslandi nemur notkun coxíb-lyfja rúmum 18 skilgreindum dagskömmtum á hverja 1000 íbúa á dag. Hinar Norðurlandaþjóðirnar fengu þessi lyf á markað fyrr en Íslendingar en samt er notkunin þar mun minni en hér á landi eða sem nemur 7 - 8 dagskömmtum á hverja 1000 íbúa.
NÁNAR...

Biðtími styttist á Landspítala – háskólasjúkrahúsi
Þeim fækkar sem bíða eftir aðgerðum og annarri þjónustu Landspítala – háskólasjúkrahúss og í mörgum sérgreinum er ekki um biðtíma að ræða. Á biðlista eftir bæklunaraðgerð eru nú 505 einstaklingar en voru í maí í fyrra 675. Á þessu ári hefur bæklunaraðgerðum fjölgað um 10% sem er að skila sér í styttri bið. Einnig hefur fækkað á biðlistum eftir háls-, nef- og eyrnaaðgerðum, þvagfæraaðgerðum, æðaskurðaðgerðum og lýtaaðgerðum. Hins vegar fjölgar þeim sem bíða eftir augnaðgerð en þeir eru nú tæplega 1.100. Spurn eftir almennum skurðaðgerðum hefur einnig aukist, einkum aðgerðum við bakflæði og offitu. Nú bíða 723 einstaklingar eftir almennri skurðaðgerð, þar af 324 vegna bakflæðis og 184 vegna offitu. Á biðlista eftir brjóstholsaðgerð eru nú 40 einstaklingar sem er heldur færra en í mars sl. en heldur fleiri en í maí í fyrra. Á biðlista eftir þjónustu lyflækningasviðs hefur fækkað frá því í fyrra en áfram bíða of margir eftir varanlegri vistun utan spítalans, þ.e.a.s. eftir að þjónustu á LSH lýkur, eða 143 og tæplega 200 bíða eftir þjónustu öldrunarsviðs. Þessar upplýsingar og fleiri koma fram í stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins janúar - apríl 2003.
NÁNAR....

Reglur um verklag varðandi málefni starsfmanna með starfsskyldur við HÍ og LSH
Jón Kristjánsson heilbrigðist- og tryggingamálaráðherra hefur staðfest reglur nr. 385/2003 fyrir Háskóla Íslands (HÍ) og Landspítala háskólasjúkrahús (LSH) um verklag varðandi málefni starfsmanna sem hafa starfsskyldur gagnvart háskólanum og sjúkrahúsinu. Tilgangur reglnanna er að skilgreina verklag í ráðningamálum þessara starfsmanna á grundvelli samstarfssamnings stofnananna en í samningnum er gert ráð fyrir víðtæku samstarfi á sviði starfsmannamála. Verklagi samkvæmt reglunum verður beitt við ráðningar í störf eftir 1. júlí 2002 og að öðru leyti eftir því sem við á.
REGLURNAR...

Samræmdar reglur um greiðslur fyrir þjónustu á heilbrigðisstofnunum
Tekið hefur gildi ný reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu nr. 328/2003 sem felur í sér samræmingu reglna um greiðslur fyrir þjónustu heilbrigðisstofnana. Í reglugerðinni er kveðið á um gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvum, á bráðamóttöku og göngu-og slysadeildum sjúkrahúsa og fyrir þjónustu sem veitt er hjá þeim sjálfstætt starfandi sérfræðingum sem eru á samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Breytingunum er ekki ætlað að auka sértekjur stofnananna þar sem gjöldin eru innheimt. Reglugerðin felur ekki í sér nýja gjaldtöku en í henni eru samræmd gjöld sem hafa verið innheimt á sjúkrahúsum fyrir þjónustu.
NÁNAR...

Sameiginlegt útboð LSH og FSA á lækningatækjum
Nýlega var auglýst útboð á segulómtækjum fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) og Landspítala - háskólasjúkrahús (LSH). Þetta er í fyrsta sinn sem þessar stærstu sjúkrastofnanir landsins standa saman að stóru útboði á lækningatækjum en áður hafa rekstrarvörur verið boðnar út sameiginlega.
NÁNAR Á VEF FSA...

Samstarfsverkefnið þjóð gegn þunglyndi- landlæknisembættið berst gegn sjálfsvígum
Þjóð gegn þunglyndi kallast fræðslu og forvarnarverkefni sem hófst í vikunni og er samstarfsverkefni á vegum Landlæknisembættisins. Með upplýsinga- og kynningarstarfi á næstu árum verður sjónum beint að þunglyndi sem er stærsti þáttur sjálfsvíga, í því skyni að fækka sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum. Verkefnið hefur verið í undirbúiningi frá því í ársbyrjun 2002 þegar ráðinn var verkefnisstjóri sjálfsvígsforvarna hjá landlæknisembættinu og skipaður faghópur til að skipuleggja forvarnarstarfið. Verkefnið er unnið í samstarfi við Þjóðverja og er liður í evrópsku samstarfsverkefni. VÍS hefur gerst aðalstyrktaraðili verkefnisins og undirrituðu Sigurður Guðmundsson landlæknir og Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS samning til þriggja ára þess efnis s.l. þriðjudag.
NÁNAR Á VEF LANDLÆKNIS...

Noregur: Reykingar bannaðar á veitingastöðum 1. júní 2004
Norsk stjórnvöld hafa samþykkt að ákvæði í tóbaksvarnarlögum sem kveður á um bann við reykingum á veitingastöðum taki gildi 1. júní 2004. Frá samþykkt tóbaksvarnarlaganna fyrir fimmtán árum hefur starfsfólk veitingastaða ekki notið sömu verndar gegn óbeinum reykingum og aðrir á vinnumarkaði. Með gildistöku þessa ákvæðis breytist það og veitingahúsastarfsfólk situr við sama borð og aðrir.

Samtök hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN) vilja gera Norðurlöndin að reyklausu svæði
Stjórn SSN samþykkti á fundi sínum fyrir skömmu ályktun þar sem lýst er fyllsta stuðningi við allar aðgerðir sem kunna að draga úr og útrýma í framtíðinni tóbaksnotkun og skorað á stjórnvöld að sporna gegn skaðsemi beinna og óbeinna reykinga með markvissum aðgerðum, s.s. að: takmarka sölu tóbaks og banna reykingar á opinberum stöðum - veita meira fjármagni til hjálpar tóbaksneytendum við að losna úr viðjum fíknarinnar - skipuleggja kerfisbundin og markviss átaksverkefni til að koma í veg fyrir að börn og ungmenni byrji að reykja eða nota tóbak á einhvern annan hátt - tryggja rétt allra vinnandi stétta á reyklausu starfsumhverfi á vinnutíma og hvenær sem þeir kunna að vera staddir á vinnustaðnum og gera ráðstafanir til að auka færni hjúkrunarfræðinga í að vinna að tóbaksvörnum og reykleysismeðferð.
ÁLYKTUNIN...

Biskup Íslands vígir tvær kapellur við Landspítala - háskólasjúkrahús
Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands vígði kapellu Barnaspítala Hringsins s.l. þriðjudag við hátíðlega athöfn. Í dag vígði hr. Karl kapellu líknardeildarinnar í Kópavogi. Ávörp voru flutt og tónlist sungin og leikin við báðar athafnir. Á heimasíðu LSH má sjá myndir frá vígsluathöfnunum.
NÁNAR...

Nýr aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
Sæunn Stefánsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Hún hefur þegar tekið til starfa en forveri hennar, Elsa Friðfinnssdóttir gegnir nú formennsku fyrir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Sæunn Stefánsdóttir er fædd 1978 og hefur undanfarið stundað nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og lýkur námi á hausti komandi. Hún hefur tekið virkan þátt í stjórnmálastarfi Röskvu á undanförnum árum og sat í stúdentaráði HÍ um tveggja ára skeið. Sæunn var í fjórða sæti á lista framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi - norður í kosningunum í vor.

Bráðalungnabólgan talin hafa náð hámarki
Útbreiðsla bráðalungnabólgunnar (HABL) hefur náð hámarki um allan heim að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), einnig í Kína. Í gær, 5. júní, var ekki tilkynnt um nein ný sjúkdómstilvik í Kína annan daginn í röð en tveir menn létust úr sjúkdómnum. Tilkynnt var um eitt nýtt tilvik í Hong Kong. Á Taívan hafði í gær ekki verið tilkynnt um ný tilfelli í fimm daga en í dag, föstudag, var tilkynnt um þrjú ný tilfelli á eyjunni og að auki að óttast væri að þrír til viðbótar hefðu tekið veikina. WHO hvetur heilbrigðisstarfsmenn til að vera áfram á varðbergi.

WHO stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um HABL í Malasíu 17. - 18. júní
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um bráðalungnabólgu (HABL) dagana 17. - 18. júní. Ráðstefnan verður haldin í Kuala Lumpur í Malasíu. Fjallað verður um alla helstu þætti sem tengjast veikinni, útbreiðslu hennar, viðbrögð alþjóðasamfélagsins, þátt fjölmiðla í umfjöllun um veikina, um þróun bóluefnis o.m.fl. Allar upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu WHO, þ.m.t. form fyrir rafræna skráningu.
NÁNANR...

Tölulegar upplýsingar Hagstofu Íslands um dánarorsakir
Hagstofa Íslands hefur gefið út tölulegar upplýsingar um dánarorsakir Íslendinga árið 1999. Sem fyrr eru blóðráðsarsjúkdómar algengasta dánarorsökin (42%) og æxli (28%). Þar á eftir koma sjúkdómar í öndunarfærum (10%), geðraskanir og atferlisraskanir (5%) og slysfarir (4%).
NÁNAR...



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
6. júní 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum