Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. júní 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 14. - 20. júní 2003

Fréttapistill vikunnar
14. - 20. júní 2003



Lyf vega þyngst í útgjöldum sjúkratrygginga - samtals 5,4 milljarðar árið 2002

Útgjöld almannatrygginga og greiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð námu rúmum 46 milljörðum króna árið 2002. Greiðslur lífeyristrygginga voru um 78% af heildarútgjöldum lífeyristrygginga en bætur vegna félagslegrar aðstoðar um 22%. Rúm 61% af útgjöldum almannatrygginga eru greiðslur lífeyristrygginga í formi ellilífeyris, örorkulífeyris, tekjutryggingar og fleiri bóta. 37% útgjalda almannatrygginga eru vegna sjúkratrygginga eða kaupa á heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og rúmlega 1% eru greiðslur samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga. Útgjöld sjúkratrygginga að meðtöldum vistgjöldum til stofnana hækkuðu úr 15,3 milljörðum króna árið 2001 í 17,2 milljarða árið 2002 eða um 8% og sem eru um 27% af útgjöldum til heilbrigðismála. Greiðslur vegna lyfja vega þyngst. Þær námu 5,4 milljörðum króna árið 2002 sem eru 32% af heildarútgjöldum sjúkratrygginga. Nánar er sagt frá útgjöldum almannatrygginga á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins.
NÁNAR...

Tilmæli til ferðamanna vegna heilkennis alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL)
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin aflétti tilmælum til ferðamanna um að fresta ferðum til Hebei, Shanxi, Tianjin og Innri-Mongólíu í Kína þann 13. júní og til Taiwan þann 17. júní. Fyrri tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um frestun ferða til Beijing í Kína, nema brýna ástæðu beri til, eru enn í fullu gildi. Tilmælin eru í stöðugri endurskoðun í ljósi þróunar faraldurs heilkennis alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL, á ensku SARS) á þessum svæðum og geta beinst að öðrum svæðum í heiminum síðar. Tilmælin byggjast á umfangi faraldursins á viðkomandi svæðum og er fjöldi nýrra tilfella ásamt fjölda veikra einstaklinga á hverjum tíma, lagður til grundvallar. Á heimasíðu landlæknisembættisins eru birtar upplýsingar um sjúkdóminn, leiðbeiningar og tilmælI eftir því sem þörf er á.

214 skráðir í inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun í læknadeild Háskóla Íslands
Inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun í læknadeild Háskóla Íslands fara fram eftir helgina. 181 er skráður í próf í læknisfræði en 33 í sjúkraþjálfun. Tiltekinn fjöldi nemenda sem nær bestum árangri í inntökuprófinu fær rétt til náms í læknadeildinni, 48 nemendur í læknisfræði og 20 í sjúkraþjálfun.



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
20. júní 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum