Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. júlí 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Jóhannes Pálmason lögfræðingur ráðinn tímabundið sem forstjóri Lýðheilsustöðvar

Fréttatilkynning nr. 37/2003


Lýðheilsustöð tekur til starfa á morgun

Ráðherra fellst ekki á beiðni nýs forstjóra um ársleyfi

    Lýðheilsustöð tekur til starfa á morgun 1. júlí 2003. Guðjón Magnússon, læknir, sem skipaður var forstjóri Lýðheilsustöðvar til fimm ára frá 1. júlí 2003 og á samkvæmt því að hefja störf á morgun hefur farið fram á það við Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, að fá frí sem forstjóri til 15. september 2004, eða í hálfan fimmtánda mánuð. Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, getur ekki fallist á ósk forstjórans um svo langt leyfi, en hefur boðist til gefa honum frí frá störfum til 1. október í haust. Heilbrigðismálaráðherra telur afar brýnt að forstjóri Lýðheilsustöðvar komi sem allra fyrst til starfa, þannig að hann geti tekið þátt í að móta og byggja upp starfsemi stöðvarinnar. Þetta er ástæðan fyrir því að ekki er unnt að verða við ósk nýskipaðs forstjóra um svo langt leyfi frá störfum þegar stofnunin tekur til starfa.

    Ákveðið hefur verið að setja forstjóra til bráðabirgða þar til forstjóri tekur til starfa. Hlutverk bráðabirgðaforstjóra yrði fyrst og fremst að sinna fjármálum, starfsmannamálum og stjórnsýslulegu hlutverki stofnunarinnar þar til ljóst verður hvort auglýsa þarf eftir forstjóra og skipa á nýjan leik.

    Embætti forstjóra Lýðheilsustöðvar var auglýst laust til umsóknar 27. mars 2003 og að undangengnu mati sérstakrar hæfnisnefndar var Guðjón Magnússon, læknir, skipaður forstjóri 12. maí 2003. Mánuði síðar varð heilbrigðismálaráðherra ljóst að skipaður forstjóri Lýðheilsustöðvar hefði sjálfur ekki gert upp hug sinn hvort hann tæki stöðuna eða ekki. Hefur síðan verið gengið eftir svari forstjóra. Af hálfu ráðherra hefur verið lögð rík áhersla á að ákvörðun lægi fyrir sem allra fyrst þannig að unnt yrði að gera nauðsynlegar ráðstafanir fyrir 1. júlí 2003, þegar Lýðheilsustöð tekur til starfa lögum samkvæmt, meðal annars til að forðast óvissu þeirra starfsmanna sem vinna að forvarnamálum á vettvangi ráðanna og falla undir starfsemi Lýðheilsustöðvar frá 1. júlí nk.

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra þykir miður að skapast skuli hafa óvissa um starfsemi Lýðheilsustöðvar vegna málefna forstjóra sem leiðir óneitanlega til þess að stöðin tekur ekki til starfa af fullum krafti strax. Þau ráð og nefndir sem sameinuð verða undir hatti Lýðheilsustöðvar munu starfa áfram og tryggt er að engin breyting verður á högum starfsfólks.

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
    30. júní 2003


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum