Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. júlí 2003 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri

Menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýju rannsókna- og nýsköpunarhúsi við Háskólann á Akureyri.


Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, tók í dag fyrstu skóflustunguna að Rannsókna- og nýsköpunarhúsi á Akureyri. Með húsinu verður til fyrsta flokks aðstaða fyrir kennslu og rannsóknir í raunvísindum með hagnýtingarmöguleika fyrir hin ýmsu svið þjóðlífsins og mun þar verða miðstöð rannsókna- og þróunarstarfs á Norðurlandi. Áætlað er að húsið verði tekið í notkun 1. október 2004.

Um einkaframkvæmd er að ræða og mun ríkið leigja aðstöðu í húsinu af einkaaðilum sem annast byggingu hússins, rekstur þess og þjónustu. Áður en menntamálaráðherra tók skóflustunguna í dag á Sólborgarsvæðinu við Háskólann á Akureyri, undirrituðu fulltrúar Landsafls hf., Íslenskra aðalverktaka og ISS Ísland hf. annars vegar og fulltrúi Fasteigna ríkissjóðs hins vegar, samkomulag vegna byggingar hússins og þeirrar starfsemi á vegum rannsóknastofnana ríkisins sem þar verða hýstar. Að loknu útboði hlaut tilboð ofangreindra aðila hæstu einkunn að teknu tilliti til útfærslu, verðs og þjónustu. Samningurinn nær til 25 ára og hljóðar upp á tæplega 1.500 milljónir króna.

Aðdragandi þessa samkomulags og skóflustungunnar í dag er sá, að ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum 26. nóvember 1999 að hefja undirbúning að því að setja á stofn rannsókna- og nýsköpunarhús á Akureyri. Þann 10. janúar 2000 skipaði menntamálaráðherra sérstaka nefnd til að vinna að málinu. Í nefndinni áttu sæti fulltrúi menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Háskólans á Akureyri og Fasteigna ríkissjóðs.

Stofnanir ríkisins munu leigja nánast allt húsnæði fyrsta áfanga undir starfsemi sína en eigandi byggingarinnar, Landsafl hf., leigir einnig hluta þess áfanga til sprotafyrirtækja eða undir aðra starfsemi. Gert er ráð fyrir aðstöðu í húsinu fyrir minni fyrirtæki til að stunda rannsóknir og nýsköpun. Stefnt er að því að með húsinu verði til þekkingar- og tæknigarður í tengslum við háskólaumhverfið á Akureyri og að sprotafyrirtæki geti nýtt sér nálægðina við háskólaumhverfið þannig að allir hlutaðeigandi aðilar njóti góðs af.

Eftirfarandi stofnanir á vegum ríkisins munu hafa aðstöðu í húsinu: Raunvísindakennsla Háskólans á Akureyri, Matvælasetur HA, Rannsóknastofnun HA, Byggðarannsóknastofnun Íslands, Ferðamálasetur HA, Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands, Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar, skrifstofa PAME á Íslandi, skrifstofa CAFF á Íslandi, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, útibú jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands, útibú Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins (RF) á Akureyri, útibú Hafrannsóknastofnunar á Akureyri, útibú Rannsóknasviðs Orkustofnunar (AKROS) og frumkvöðlasetur á vegum iðnaðarráðuneytisins.


Menntamálaráðuneytið, 10. júlí 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum