Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. september 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Samstarf skilar árangri í baráttu gegn vímuefnum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
1. september 2003


Samstarf skilar árangri í baráttu gegn vímuefnum
Alþjóðlegt samstarf um áfengis- og vímuvarnir er ein af forsendum þess að árangur náist í baráttunni gegn neyslu vímuefna og ofneyslu áfengis. Þetta sagði Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, m.a. þegar hann ávarpaði 19. norrænu ráðstefnuna um áfengis-og vímuvarnir sem nú stendur í yfir í Reykjavík á Grand hótelinu og er öllum opin. Fyrirlesarar koma víða að og frá nokkrum evrópskum stofnunun, sem fást við vímuvarnir, auk innlendra fyrirlesara. Sérstakar málstofur verða á ráðstefnunni og þar verða kynnt verkefni sem unnið er að á sviði vímuvarna á Norðurlöndum. Áfengis-og vímuvarnarráð skipuleggur ráðstefnuna að þessu sinni.
NÁNAR UM RÁÐSTEFNUNA...


Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra:

Ágætu ráðstefnugestir.
Það er mér sérstök ánægja að bjóða ykkur velkomin til 19. norrænu ráðstefnunnar um varnir gegn áfengis- og vímuefnaneyslu. Mér er sérstök ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér þar sem málefnið hefur einmitt verið mér og mínum flokki hugleikin undanfarin mörg ár.
Við í mínum flokki settum áfengis en umfram allt vímuvarnir í brennipunkt með því að gera málið að kosningamáli fyrir nokkrum árum og lofuðum þá að taka á á þessu sviði. Þetta voru viðbrögð við vaxandi vímuefnaneyslu sem við töldum nauðsynleg og þegar ég lít til baka er það sannfæring mín að þessar áherslur hafi skilað bæði beinum og óbeinum árangri.

Þegar Áfengis-og vímuvarnarráði var komið á fót var það líka tilraun til að skipuleggja betur áfengis-og vímuvarnir, tilraun til að nýta bæði fé og þekkingu betur einmitt til að ná meiri og betri árangri í baráttunni gegn vímuefnaneyslu. Það er líka sannfæring mín að Áfengis-og vímuvarnarráð hafi staðið sig afar vel og náð umtalsverðum árangri þann tíma sem ráðið hefur verið starfandi.

Í þriðja lagi erum við hér á Íslandi nú að stíga þriðja skrefið á stuttum tíma til þess meðal annars að efla áfengis- og vímuvarnir og til að efla almenna vitund manna um gildi þess að temja sér heilsusamlega lífshætti. Hér er ég að vísa til þess að ný stofnun, Lýðheilsustöð, er um það bil að hefja starfsemi sína af fullum krafti. Þeirri stofnun er ætlað að samhæfa forvarnarstarf almennt í landinu en það liggur í hlutarins eðli að áfengis-og vímuvarnir hljóta að vega þar mjög þungt. Ég er líka sannfærður um að með hinni nýju stofnun stígum við stórt skref í baráttuni gegn vímuefnaneyslu.

Ágætu ráðstefnugestir.
Það liggur í hlutarins eðli og sagan kennir okkur að baráttan gegn vímuefnaneyslunni tekur því miður ekki enda. Við verðum alltaf að gera ráð fyrir því að þurfa að standa vaktina til að koma í veg fyrir að börnin okkar ánetjist áfengi eða vímuefnum og við verðum alltaf að gera ráð fyrir því að hjálpa og aðstoða þá einstaklinga sem verða vímuefnum að bráð. Í þessum orðum mínum felst ekki svartsýni, síður en svo, ég er fyrst og fremst að undirstrika að við megum ekki slaka á klónni í baráttuni gegn vímuefnum vegna þess að sérhver tilslökun getur haft í för með sér hræðilegar afleiðingar fyrir einstaklinga sem verða áfengi eða fíkniefnum að bráð.

Heimurinn hefur farið hratt minnkandi á undanförnum 35 árum. Alþjóðlegur skemmtiiðnaður, olíukreppan í byrjun áttunda áratugarins og lífsmynstur sem verður alþjóðlegra með hverju árinu sem líður er allt staðfesting á þessu. Lítil þjóð, lítil þjóð sem í sakleysi sínu hélt að hún væri staðsett í öryggi fjarri heimsins glaumi hefur á undanförnum árum lært að hin fjarlægu útlönd eru líka hér uppi á Íslandi. Við glímum við nákvæmlega sömu vandamál og stærri þjóðir. Vandamálin eiga sér sama eða svipað upphaf og varnirnar sem við grípum til eru þær sömu og svipaðar og aðrar þjóðir hafa gripið til.

Vegna reynslu okkar og smæðar gerum við okkur afar vel grein fyrir því hversu mikilvægt alþjóðlegt samstarf um vímuvarnir er. Við erum okkur afskaplega vel meðvituð um að allar þjóðir verða að berjast gegn vímuefnaneyslu á vettvangi þjóðríkisins og að þar geta menn unnið sigra í orrustum og smærri stríðum, en við erum jafn meðvituð um að það er fyrst þegar þjóðirnar vinna saman allar sem ein að styrjaldir fara að vinnast á þessum vettvangi.

Af þessum sökum fagna ég því sérstaklega að við skulum nú vera hér saman komin á 19. norrænu ráðstefnunni áfengis-og vímuvarnir. Norrænt samstarf á þessu sviði hefur borið ríkulegan ávöxt að mínum dómi, við Íslendingar höfum notið góðs af samstarfinu og einmitt þetta norræna samstarf getur orðið öðrum fyrirmynd, eða dæmi um hverju samstarf þjóðanna getur skilað.

Markmið með ráðstefnunni nú og samstarfinu á þessu sviði er að miðla þekkingu um fyrirbyggjandi aðferðir og vinnu, gera grein fyrir þróunarstarfi á sviði vímuvarna í löndunum og reifa það sem efst er á baugi hverju sinni í hverju landi fyrir sig og á alþjóðlegum vettvangi.

Það er von mín að þessi ráðstefna verði til þess að bæta árangur í forvarnastarfi á sviði áfengis- og vímuvarna af því það er mikið í húfi. Fámenn þjóð veit kannski betur en þær sem fjölmennari eru hve dýrmætur einstaklingurinn er og við sjáum kannski skýrar alvarlegar afleiðingar vímuefnaneyslu – fyrir einstaklinginn, fjölskyldurnar og samfélagið allt.

Þakka ykkur fyrir.

____________
Talað orð gildir





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum