Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. október 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Geðheilbrigðismál barna og unglinga

Ræða heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í umræðum utan dagskrár á Alþingi
um geðheilbrigðismál barna og ungmenna
14.október 2003


Virðulegur forseti.

Ég vil þakka háttvirtum 10. þingmanni íbúa Norðausturkjördæmisins fyrir að hreyfa hér máli, sem við ræddum nokkuð í liðinni viku það er að segja geðheilbrigðismálunum. Ég lét þau orð falla á Alþjóðageðheilbrigðisdeginum að geðheilbrigðismálin væru fyrir heilbrigðismálaráðherra erfiðasti málaflokkurinn. Erfiðastur af því glíman við þann vanda er ekki ólík því að takast á við ósýnilegan skugga. Ósýnilegan skugga sem öllum að óvörum getur tekið á sig myndir sem enginn býst við, eða getur séð fyrir. Ósýnilegan vegna þess að geðsjúkdómar voru um langan aldur feimnismál, einkamál, persónuleg mál einstaklinga og í besta falli fjölskyldna.

Virðulegur forseti.

Háttvirtur 10. þingmaður íbúa Norðausturkjördæmisins spyr mig fimm spurninga og ég vona að hún virði það við mig þótt ég reyni að svara spurningunum saman.

Það er spurt virðulegur forseti um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu og hugsanlegar breytingar á sviði geðheilbrigðisþjónustu í því sambandi. Nýverið var gengið frá skipan nefndarinnar til að endurskoða heilbrigðisþjónustulögin. Í skipunarbréfi nefndarinnar er ekki tekið fram að tilteknar sérgreinar verði ræddar sérstaklega, en það verður auðvitað svo í framkvæmd – geðheilbrigðisþjónustan er þar ekki undanskilin. Það er flókið mál að endurskoða jafn viðamikinn lagabálk og heilbrigðisþjónustulögin og sú leið vafalaust torfarin þannig að ég geri ekki ráð fyrir að þeirri endurskoðun ljúki innan þess tíma sem ég tel að við höfum til að endurskipuleggja geðheilbrigðisþjónustuna við tiltekna hópa sjúklinga. Umbætur í geðheilbrigðisþjónustunni ganga með öðrum orðum fyrir.

Það er spurt um, hvernig koma má á virkara samráði heilsugæslu, skóla og félagsþjónustu til að sinna betur börnum og ungmennum með tilfinninga-og geðraskanir. Ég tilkynnti á geðheilbrigðisdaginn fyrir helgina að ég hefði ákveðið að ráða sérstakan verkefnisstjóra til að sjá til þess, svo fljótt sem verða má, að leiða saman fulltrúa heilbrigðisþjónustu, félags- og menntamálaráðuneytis og sveitarfélaganna í landinu til koma í einn farveg þjónustunni sem börn og ungmenni með þroska-, hegðunar-, eða geðraskanir þurfa að fá.

Ástæðan fyrir þessu – ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að skoða þetta samspil þjónustuþáttanna nú, hratt og vel, eru meðal annars samtöl mín við aðstandendur barna og ungmenna með tilfinninga- og geðraskanir og þær kennitölur sem ég hef fyrir framan mig um það sem við höfum verið að gera á undanförnum árum. Og hér komum við kannski að síðustu spurningum þingmannsins um aukin framlög og aukin meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni sem þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda.

Virðulegur forseti.
Þegar ég tala um kennitölur þá er ég meðal annars að tala um þetta: Umönnunarbörnum í þeim hópi sem við erum hér að tala um hefur fjölgað á nokkrum árum úr 700 í 1700 hjá Tryggingastofnun ríkisins, á síðustu þremur árum hafa heimsóknir barna til barnageðlækna á stofu rúmlega tvöfaldast – þær voru um 1600 árið 2000 en eru nú 3950 samkvæmt staðtölum TR – greiðslueiningar á komu til geðlækna eru nú um 14% fleiri en fyrir nokkrum árum samkvæmt, fjöldi afgreiddra mála á BUGL hefur tvöfaldast á sex árum, tilvísunum hefur fjölgað úr 300 í 500 á sama tímabili, á fimm árum fjölgar í stöðugildum lækna á BUGL um níu og stöðugildum hjúkrunarfræðinga þar fjölgar um 12, og samtals fjölgar stöðugildum þessarar starfsstétta úr 37 í 58 á fimm árum, og geðlæknum á samningi hjá TR hefur til að mynda fjölgað frá 1999 en þá voru þeir samtals 39 en voru í fyrra 43.

Ég bið menn misskilja ekki eða snúa út úr því sem hér er sagt. Ég er ekki að halda því fram að nóg sé að gert. Mér er fullkunnugt um að þjónustuna við suma hópa þarf að bæta verulega. Samtöl mín við aðstandendur hafa kennt mér það, og þess vegna hef ég ákveðið að skipa sérstakan verkefnisstjóra til að freista þess að koma þjónustunni í einn öflugan farveg, en mér ber sem heilbrigðismálaráðherra og alþingismanni að skoða gaumgæfilega hvernig á því stendur, að tilteknir hópar fá ekki nægilega fljótt þjónustuna sem þeir þurfa, þótt stórauknu fé hafi verið varið til málaflokksins.

Það er algengara að fagráðherra sé krafinn svara en að hann spyrji, en ég verð að varpa fram nokkrum spurningum. Og við verðum í rauninni öll að spyrja okkur hér í þessum sal: Hverjar eru hinar raunverulegu ástæður fyrir aukinni þörf í geðheilbrigðisþjónustunni? Er verið að draga úr þjónustu annars staðar? Erum við að sjúkdómsvæða vandamál sem ef til vill mætti leysa með minni tilkostnaði annars staðar? Von mín er sú að umræðurnar hér í dag snúist að einhverju leyti um þessar mikilvægu spurningar.

Virðulegur forseti.
Við erum auðvitað alltaf að tala hér um viðbrögð við afleiðingum einhvers sem gerist, en hverjar eru ástæðurnar fyrir þessari ríku og að því er virðist vaxandi þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu hér á landi?

Ég vonast til að við fáum haldbetri svör við spurningunum en við höfum nú, þegar heilbrigðisyfirvöld, félagsmálayfirvöld, yfirvöld menntamála og sveitarstjórna fara að tala saman eins og ég hef lagt grunninn að.

(Talað orð gildir)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum