Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. nóvember 2003 Dómsmálaráðuneytið

Evrópsk landamærastofnun

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, var í forsæti á fundi ráðherra í samsettu nefndinni um málefni Schengen fimmtudaginn 27. nóvember. Aðalmálið á dagskrá fundarins var tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að setja á fót Evrópska landamærastofnun.

Fréttatilkynning

Nr. 30/ 2003

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, var í forsæti á fundi ráðherra í samsettu nefndinni um málefni Schengen fimmtudaginn 27. nóvember. Aðalmálið á dagskrá fundarins var tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að setja á fót Evrópska landamærastofnun. Tillagan byggir á Schengen gerðum, þannig að Ísland og Noregur verða aðilar að stofnuninni. Þar hafa Bretar og Írar, sem eru utan Schengen, óskað eftir þátttöku í stofnuninni og var samþykkt á ráðherrafundinum, að leitað yrði leiða til að verða við óskum þeirra.

Stofnunin fer hvorki með lagasetningarvald né ber ábyrgð á framkvæmd landamæravörslu. Hlutverk hennar er að leiða samvinnu aðildarríkjanna á sviði landamæravörslu. Undanfarin tvö ár hefur samvinna landamærayfirvalda í Schengen-ríkjum aukist mikið, ekki síst við framkvæmd eftirlits. Hefur verið unnið að einstökum verkefnum til að samhæfa sem best krafta ríkjanna, svo sem með því að semja sameiginlegt fræðsluefni fyrir landamæraverði, vinna saman að áhættugreiningu, efla samstarf landamærayfirvalda á flugvöllum o.fl. Er ætlunin að formfesta þetta samstarf betur með þessari stofnun.

Nánar tiltekið verða verkefni stofnunarinnar að:

  • samhæfa samvinnu landamæravarða;
  • aðstoða ríkin við þjálfun landamæravarða;
  • framkvæma áhættugreiningu;
  • fylgja eftir hvers kyns rannsóknum í þágu landamæragæslu;
  • aðstoða ríki við sérstakar aðstæður vegna álags á einstaka hluta ytri landamæra;
  • aðstoða ríkin við að framkvæma brottvísanir sameiginlega.

Sérstök stjórn verður yfir stofnuninni og er gert ráð fyrir að hvert ríki tilnefni einn fulltrúa í stjórnina. Miðað er við að starfsmenn stofnunarinnar verði um 30 talsins.

Á ráðherrafundinum náðist samkomulag um meginatriði þessarar tillögu. Stefnt er að því að samþykkja reglugerðina á fyrri hluta næsta árs og að stofnunin taki til starfa 1. janúar 2005.

Á fundinum var einnig samþykkt að sett yrðu mælanleg einstaklingsbundin einkenni (biometrics) í vegabréfsáritanir og dvalarleyfi. Þá náðist samkomulag um aðgerðir til að berjast gegn ólöglegum innflutningi fólks yfir landamæri sem liggja að sjó.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
28. nóvember 2003.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum