Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. desember 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Nýr samningur við Læknavaktina

Fréttatilkynning nr. 52/2003

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, og Atli Árnason, stjórnarformaður Læknavaktarinnar, undirrituðu í dag nýjan fjögurra ára samning um þjónustu fyrirtækisins.

Í samningnum felst að Læknavaktin tekur að sér rekstur vaktþjónustu heimilislækna utan dagvinnutíma allt árið um kring fyrir þjónustusvæði heilsugæsluumdæma Reykjavíkur og heilsugæsluumdæmin í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Garðabæ og Hafnarfirði. Almenn móttaka lækna felst m.a. í að veita skjólstæðingum viðtöl og skoða, greina og meðhöndla heilsufarsvanda, sinna tafarlaust bráðatilvikum og vísa þeim sem þess þurfa á sjúkrahús eða á bráðamóttöku sjúkrahúss.

Læknavaktin sinnir ráðgjöf í gegnum síma frá kl. 24.00 til kl. 08.00 vegna heilsugæslustöðva utan höfuðborgarsvæðisins þar sem aðeins einn læknir er í héraði í neyðarnúmerinu 112.

Læknavaktin hefur verið starfandi frá 1986 en fyrir réttum fimm árum, árið 1998, flutti Læknavaktin í nýtt húsnæði að Smáratorgi en þá var undirritaður fimm ára samningur um þjónustu fyrirtækisins að frumkvæði þáverandi heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra. Var þá vaktsvæði Læknavaktarinnar stækkað þannig að það náði til höfuðborgarsvæðisins í heild.

Á liðnum fimm árum hafa um 240 þúsund sjúklingar á öllum aldri heimsótt lækna á Læknavaktinni við Smáratorg og fengið úrlausn mála sinna og lætur nærri að um tvöfalt fleiri hafi heimsótt Læknavaktina á þessu tímabili.

Læknar stöðvarinnar hafa á síðastliðnum fimm árum farið í um 40 þúsund vitjanir til sjúklinga í heimahús fyrir utan umfangsmikla faglega símaráðgjöf Læknavaktarinnar sem hjúkrunarfræðingar hafa nær eingöngu sinnt.

Sextíu og fimm sérmenntaðir heilsugæslulæknar eru starfandi á Læknavaktinni, átján hjúkrunarfræðingar og átta móttökuritarar.

Árleg útgjöld vegna samningsins eru um 260 milljónir króna og er gert ráð fyrir að sértekjur nemi tæpum 50 milljónum króna þannig að árlegt nettóframlag heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins er um 210 milljónir króna. Kostnaðurinn miðast við 44.000 móttökur og 7.000 vitjanir á ári. Framlagið miðast við að Læknavaktin beri fulla fjárhagslega ábyrgð á rekstri, þ.m.t. á greiðslu launa, lífeyrisskuldbindinga vegna starfsmanna sinna, starfstengdum kostnaði eins og t.d. launum í barnsburðarleyfi, launum staðgengla vegna veikinda, námsleyfa og námskostnaðar, svo og hugsanlegum skaðabótakröfum. Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á öðru en því sem getið er í samningnum.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
5. desember 2003


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum