Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. desember 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Styttri bið eftir aðgerðum - Augnsteinaaðgerðum fjölgað um 550 á nýju ári

Fréttatilkynning nr. 54/2003

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að tæpar 84 milljónir króna renni til fjögurra spítala til að fjölga liðskipta-og augnsteinaaðgerðum sérstaklega á árinu 2004.

Með þessu fjölgar augnsteinaaðgerðum um 550 umfram það sem gert var ráð fyrir og liðskipaaðgerðum fjölgar á sama hátt um 128 aðgerðir umfram það sem búist var við.

Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra væntir þess að með þessu sérstaka átaki styttist biðlisti eftir augnsteinaaðgerðum um helming og að verulega dragi úr biðtíma eftir liðskiptaaðgerðum.

200 augnsteinaaðgerðanna verða til viðbótar því sem áður var ákveðið á Landspítalanum og 350 á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði. 60 liðskiptaaðgeranna verða gerðar aukalega á Landspítala á árinu 2004, 60 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og 8 hnjáaðgerðir verða gerðar aukalega á Heilbrigðisstofnuninni á Akranesi.

Landspítali – háskólasjúkrahús fær um 41 milljón króna aukalega til að gera aðgerðirnar 260, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri fær 22,5 milljónir vegna 60 aðgerða, St. Jósefsspítalinn í Hafnarfirði fær rúmar 17 milljónir vegna 350 aðgerða og Heilbrigðisstofnunin á Akranesi fær rúmar 3 milljónir króna vegna 8 hnjáaðgerða. Verður greiðsluáætlun viðkomandi stofnana ársins 2004 hækkuð í samræmi við framvindu ofangreindra verkefna.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
30. desember 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum