Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. febrúar 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Krabbameinsleit

Fréttatilkynning nr. 8/2004

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, og Sigurður Björnsson, formaður Krabbameinsfélags Íslands, undirrituðu í dag þjónustusamning heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Krabbameinsfélags Íslands um skipulega leit að leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini á vegum leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands.

Ríkissjóður greiðir vegna þess kostnaðar sem ætlaður er að standa undir þjónustu og kröfum við samninginn 240,9 m.kr. og takmarkast fjárhagsleg ábyrgð ríkisins við þá fjárhæð.

Greiðsla ríkissjóðs miðast við að heildarfjöldi skoðana á ári í leghálskrabbameinsleit verði að lágmarki 24.300 og að hámarki 34.100, þar af annist verksali að lágmarki 15.800 skoðanir eða 65% af heildarfjölda. Fjöldi skoðana hjá leitarstöð Krabbameinsfélagsins með brjóstamyndatöku verði að lágmarki 13.100 á ári og að hámarki 18.400 á ári. Starfsemi leitarsviðsins fer fram í Skógarhlíð 8 í Reykjavík en auk þess er leitað skipulega á heilsugæslustöðvum um allt land.

Starfsemi leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands felst í því að boða konur til krabbameinsleitar ó forvarnaskyni, en megin markmið þjónustusamningsins er einmitt að stefna að því að draga úr sjúkdómum og fækka dauðsföllum af völdum krabbameins. Þjónustusamningurinn er gerður í samræmi við markmið Heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 sem samþykkt var á Alþingi í maí árið 2001 og í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Landlæknir og heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið hafa með höndum faglegt eftirlit með störfum leitarsviðs Krabbameinsfélagsins í samræmi við þjónustusamninginn og samkvæmt þeim reglum sem gilda á hverjum tíma.

Samningurinn er til fimm ára og miðast gildistakan við 1. janúar 2004.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
12. febrúar 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum